Samkeppniseftirlitið tekur SVEIT og Virðingu til formlegrar rannsóknar

11. 04, 2025

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur í kjölfar kvörtunar Eflingar – stéttarfélags, Starfsgreinasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands tekið Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) og gervistéttarfélagið Virðingu til formlegrar rannsóknar.

Efling, SGS og ASÍ sendu SKE erindi varðandi SVEIT og Virðingu þann 14. mars síðastliðinn. Þar var athygli SKE vakin á að Virðing er ekki raunverulegt stéttarfélag heldur skúffufélag stofnað af hópi atvinnurekenda í þeim tilgangi að lækka laun starfsfólks.

Kjarasamningur við gervistéttarfélag sem í reynd lútir stjórn atvinnurekenda getur að mati Eflingar ekki talist raunverulegur kjarasamningur. Þar af leiðir að undanþága 2. greinar samkeppnislaga sem heimilar samráð fyrirtækja um kjarasamningagerð getur ekki átt við.

Möguleiki á allt að sex ára fangelsisvist

SKE hefur nú hafið rannsókn á grunni þessara ábendinga. SKE sendi 31. mars fjögur erindi, í meginatriðum samhljóða, til SVEIT, Virðingar og tveggja aðildarfyrirtækja SVEIT en þau eru Skúli Craft Bar og ROK Restaurant. Þar er þessum aðilum er tilkynnt að formleg rannsókn á þeim sé hafin.

Í erindi SKE til þessara aðila segir að ólögmætt samráð keppinauta um verð og önnur mikilvæg viðskiptamálefni sé eitt alvarlegasta brotið á íslenskum samkeppnislögum. Rakið er að sektir fyrir brot af þessu tagi geti numið allt að 10% af heildarveltu viðkomandi fyrirtækis og auk þess geti stjórnendur viðkomandi fyrirtækja átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisvist. Minnt er í erindinu á að ákvæði samkeppnislaga eigi ekki aðeins við um fyrirtæki heldur einnig samtök þeirra.

Undanþága aðeins vegna „raunverulegra kjarasamninga“

Almennt leiðarstef samkeppnislaga er að hvers kyns innbyrðis samráð fyrirtækja sé óheimilt nema það sé sérstaklega heimilað í tilgreindum undantekningartilvikum. SKE áréttar í erindi sínu að í 2. gr. samkeppnislaga sé vissulega kveðið á um undanþágu fyrir samráð fyrirtækja vegna kjarasamninga.

Hins vegar er tekið fram að fyrir utan „raunverulega kjarasamninga“ eigi allar kvaðir samkeppnisreglna fyllilega við. Áréttað er að samráð fyrirtækja sem er til þess fallið að rýra kjör starfsfólks, án þess að vera raunveruleg kjarasamningsgerð, geti þannig falið í sér brot á samkeppnislögum.

Eigendur fyrirtækja persónulega ábyrgir

Í erindi SKE er minnt á lagaákvæði sem kveða á um lagábyrgð ekki aðeins fyrirtækja og samtaka þeirra heldur jafnframt einstakra stjórnarmanna (vara- og aðalmanna) og starfsmanna þessara aðila. Tekið er fram að einstaklingar geti sætt refsiábyrgð vegna brota.

Erindi SKE eru send til Aðalgeirs Ásvaldssonar framkvæmdastjóra vegna SVEIT, Valdimars Leós Friðrikssonar framkvæmdastjóra vegna Virðingar, Hrefnu Rósar Sætran og Björns Árnasonar vegna Skúla Craft Bar og Magnúsar Scheving og Hrefnu Sverrisdóttur vegna ROK Restaurant. Þess má geta að Hrefna Sverrisdóttir er fyrrverandi formaður SVEIT og Björn Árnason er núverandi formaður.

Gagna í sex liðum krafist

SKE krefst þess í erindi sínu þess að umræddir aðilar afhendi eftirlitinu m.a. öll gögn sem varða stofnun Virðingar og gerð svonefnds kjarasamnings SVEIT við félagið, sem og öll samskipti milli aðila varðandi þetta. Farið er yfir í sex liðum hvaða gögn geti verið um að ræða, og er þar m.a. rætt um tölvupósta, önnur rafræn samskiptagögn, fundargerðir og minnisblöð.

Beðið er um að gögn úr fórum starfsmanna og stjórnarmanna séu kölluð fram og afhent. Áréttað er að ekki aðeins sé átt við tölvupósta af lénum umræddra félaga heldur einnig tölvupósta til þessara aðila frá öðrum netföngum, póstforritum eða samfélagsmiðlum.

Er þess nánar tiltekið óskað að viðkomandi samskipti verði kölluð fram með rafrænni leit og að viðkomandi leit verði framkvæmd, henni lýst og hún staðfest af kerfisstjóra eða eftir atvikum af sjálfstæðum þjónustuaðila.

Aðgerðir skila árangri

Afstaða Eflingar er að það geti ekki viðgengist á eðlilegum vinnumarkaði að atvinnurekendur semji við sjálfa sig um kaup og kjör starfsfólks. Slíkt er aðför að samningsrétti verkafólks auk þess að bjóða heim óeðlilegum kjaraskerðingum.

Efling hefur síðan í desember á síðasta ári varað félagsfólk sitt og annað starfsfólk á veitingamarkaði við svikamyllu SVEIT og Virðingar. Efling sendi jafnframt erindi til allra fyrirtækja á félagaskrá SVEIT og hvatti þau til að virða réttindi starfsfólk og standa við gerða kjarasamninga. Leiddi þetta til þess að fjöldi veitingastaða sagði sig úr SVEIT og aðrir lýstu gervikjarasamninginn við Virðingu sér óviðkomandi.

Þá hefur Efling birt opinberlega upplýsingar um augljósar tengingar milli SVEIT og Virðingar og um þær kjaraskerðingar sem svonefndur kjarasamningur þessara aðila felur í sér. Einnig hefur Efling sent erindi varðandi Virðingu og SVEIT til opinberra eftirlitsstofnana á borð við Persónuvernd og Vinnumálastofnun. Þá hefur félagið vakið athygli alþjóðlegra móðurfyrirtækja Subway og Hard Rock Cafe á starfsháttum íslensku fyrirtækjanna sem starfa undir nöfnum þessara keðja hérlendis.

Þá hefur Efling sent erindi til allra opinberra stofnana sem hafa átt í viðskiptum við aðildarfyrirtæki SVEIT og hvatt þær til að beina viðskiptum sínum að veitingafyrirtækjum sem virða réttindi starfsfólks og leikreglur vinnumarkaðarins til fulls.