Eflingarfélagar fjölmenntu í kröfugöngu á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks, 1. maí síðastliðinn. Gengið var frá Skólavörðuholti og niður á Ingólfstorg þar sem útifundur fór fram. Annar ræðumanna fundarins var Karla Esperanza Barralaga Ocón, starfsmaður í umönnun, trúnaðarmaður og stjórnarmaður í Eflingu.
Ræða Körlu var bæði kröftug og áhrifarík. Hún lýsti því hvernig hún væri talsmaður þeirra sem ekki geta talað íslensku og þeirra sem verða fyrir misnotkun á vinnumarkaði. Hún lagði áherslu á að baráttudagurinn væri tilefni til að fagna, en því færi fjarri að sigur væri unninn í verkalýðsbaráttunni. „Við eigum að fagna í dag, en baráttunni er langt frá því að vera lokið. Fölsk verkalýðsfélög reyna enn að stela réttindum okkar, þvinga hrætt starfsfólk til að skrifa undir samninga, og þagga niður í þeim sem krefjast sanngjarnra launa og virðingar,“ sagði Karla. Ræðu sinni lauk hún með því að minna á að dagurinn ætti að vera meira en bara hátíð – hann ætti jafnframt að fela í sér skuldbindingu. „Að berjast fyrir þau sem geta það ekki sjálf, að berjast gegn óréttlæti og krefjast réttlætis.“
Baráttuhugur og gleði á fjölskylduskemmtun Eflingar
Síðar um daginn, klukkan 15:00, hófst fjölskylduhátíð Eflingar í Hvalasafninu. Þar komu saman félagar á öllum aldri og nutu skemmtunar og samveru í einstöku umhverfi meðal glæstra líkneskja hvala. DJ Sunna Ben sá um tónlistina og lúðrasveit kom og hélt uppi fjörinu. Sirkusatriði og andlitsmálun glöddu yngstu gestina.
Á svæðinu var úrval veitinga svo allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi. Í boði voru meðal annars pizzur, hamborgarar, kleinuhringir, bollakökur, ís, kandífloss, popp, gos og kaffi.
Efling þakkar félagsfólki sínu fyrir frábæran dag, samstöðu og gleði.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá deginum.
Myndir sem Birgir Ísleifur Gunnarsson tók í kröfugöngunni og á fjölskylduskemmtun Eflingar í Hvalasafninu þann 1. maí 2025.





