Glæsileg niðurstaða skrifstofu Eflingar í könnuninni Fyrirtæki ársins

21. 05, 2025

Ný könnun VR, Fyrirtæki ársins 2025, sýnir glæsilega niðurstöðu fyrir Eflingu stéttarfélag sem vinnustað. Af níu þáttum sem könnunin nær til er meðaltalseinkunn Eflingar hærri í fimm þeirra heldur en hjá öðrum vinnustöðum sem þátt tóku. Í tveimur til viðbótar er einkunn Eflingar á pari við aðra vinnustaði.

Heildareinkunn Eflingar er sambærileg við vinnustaði í sama stærðarflokki, sem og alla vinnustaði sem tóku þátt í könnuninni, óháð stærð þeirra. Hins vegar er Efling áberandi eftirbátur annarra fyrirtækja í einum þætti, sem er Vinnuskilyrði. Það þarf hins vegar ekki að koma á óvart sökum þess að síðasta hálfa árið hefur staðið yfir umfangsmikil endurnýjun á skrifstofuhúsnæði félagsins í Guðrúnartúni 1. Þær framkvæmdir hafa vitanlega valdið starfsfólki óþægindum og erfiðari skilyrðum. Framkvæmdunum lýkur hins vegar í sumar og mun vinnuaðstaða í Guðrúnartúni þá verða eins og best verður á kosið. Því má gera ráð fyrir að einkunn Eflingar hvað varðar þetta atriði muni rjúka upp í könnuninni að ári, og þar með heildareinkunn félagsins einnig. 

Í þættinum Stjórnun skorar Efling hærra en vinnustaðir af sambærilegri stærð að meðaltali. Meðaleinkunn Eflingar í þeim þætti er einnig hærri en meðaleinkunn allra vinnustaða sem tóku þátt í könnuninni. Sé rýnt nánar í niðurstöður könnunarinnar kemur í ljós að Efling fær töluvert hærri einkunn en aðrir vinnustaðir þegar kemur að fullyrðingunni „Ég ber fullt traust til stjórnenda fyrirtækisins“. 

Áberandi hæst þegar kemur að jafnrétti

Þá er meðaleinkunn Eflingar í þættinum Jafnrétti áberandi hærri en meðaleinkunn bæði sambærilegra vinnustaða, sem og allra vinnustaða sem þátt tóku. Í öllum þeim fullyrðingum sem standa að baki einkunn í þættinum skorar Efling hærra en meðaltal allra annarra vinnustaða, og oft verulega mikið hærra. 

Sömuleiðis fær Efling allnokkuð hærri einkunn en aðrir vinnustaðir í þáttum á borð við Ánægja og stolt og Sveigjanleiki vinnu. 

Þegar kemur að þeim þætti könnunarinnar sem snýr að Launakjörum kemur í ljós að það er sá þáttur sem starfsfólk allra vinnustaða er ósáttast með. Meðaleinkunn í þeim þætti er lægst hjá öllum vinnustöðum sem tóku þátt í könnuninni, og á það einnig við um Eflingu. Hins vegar er ánægjulegt að sjá að starfsfólk Eflingar er verulega mikið ánægðara með sín launakjör heldur en starfsfólk annarra vinnustaða er, að meðaltali. 

Eini þátturinn, fyrir utan þáttinn Vinnuskilyrði, sem Efling fær lægri einkunn í en aðrir vinnustaðir er flokkurinn Ímynd fyrirtækis. Efling hefur um árabil orðið fyrir harðri og óvæginni gagnrýni þar sem reynt hefur verið að ata ímynd félagsins auri í því skyni að reyna að veikja það og standa þannig gegn þeim kjara- og réttarbótum sem Efling hefur sótt fyrir félagsfólk sitt. Það hefur ekki tekist vegna órofa samstöðu félagsfólks Eflingar, dugnað þess og hugrekkis. Það er hins vegar gleðilegt að geta sagt frá því að einkunn félagsins í þessum lið könnunarinnar hefur tekið risastökk upp á við á síðustu þremur árum, og hækkað um fast að því fjórðung. Það sýnir að óhróður og ósannindi bíta ekki á Eflingu.