Ný skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sýnir alvarlega stöðu húsnæðismála og dökkar horfur fram undan. Íbúðaverð og leiguverð hefur hækkað meira hér á landi en í öllum Evrópuríkjum síðasta áratuginn, og langt umfram árslaun verkafólks. Horfur eru á enn frekari hækkunum á leiguverði.
Vegna þessarar kreppu í húsnæðismálum og dökkum framtíðarhorfum fer stjórn Eflingar fram á að stjórnvöld bregðist við með róttækum bráðaaðgerðum. Ályktun þess efnis var samþykkt á fundi stjórnar í gær, fimmtudaginn 8. maí 2025. Ályktunin fer hér að neðan.
Djúp kreppa húsnæðismála
Efling stéttarfélag krefur stjórnvöld um stórtækar bráðaaðgerðir.
Ný skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), Vegvísir leigumarkaðar 2025, sýnir alvarlega stöðu húsnæðismála, ekki síst á leigumarkaði, og dökkar horfur framundan.
Of lítið er byggt af íbúðum fyrir tekjulægri hópa. Of mikið af nýjum íbúðum fer í skammtímaleigu (AirBnB o.fl.). Um fimmtungur íbúða í miðborg Reykjavíkur er í slíkri skammtímaleigu, amk. um 4 þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu í heild og samtals um 9 þúsund íbúðir á landinu öllu. Þær íbúðir nýtast því ekki íbúum til búsetu heldur ferðamönnum sem ættu frekar að gista á hótelum.
Misvægi framboðs og eftirspurnar er þannig alltof mikið. Það hækkar kaupverð íbúða og leigu óeðlilega mikið. Það hefur einnig verið mesti drifkraftur verðbólgunnar og er enn.
Verð og leiga íbúða hefur hækkað meira á Íslandi en í öllum Evrópuríkjum á síðasta áratug – og gerir enn. Staðan hér hefur því verið óvenjulega alvarleg. Að mati HMS eru nú horfur á enn frekari hækkunum leigu á næstu misserum, að óbreyttu.
Íbúðaverð og leiga hafa hækkað langt umfram árslaun verkafólks (sjá meðfylgjandi mynd). Þannig grefur ástand húsnæðismálanna stórlega undan möguleikum launafólks á að koma sér upp íbúðarhúsnæði og rýrir kaupmátt. Það leggst með mestum þunga á fólk í lægri tekjuhópum. Húsnæðisstuðningur við heimilin hefur verið of ómarkviss, að mati HMS.
Gögn frá OECD og Eurostat sýna að á Íslandi eru óvenju veikar varnir gegn hækkunum leigu og íbúðaverðs. Þannig er reglun verðlagningar á leigu („leigubremsa“) með minnsta móti hér á landi í hópi OECD-ríkjanna, jafnvel minni en í Bandaríkjunum þar sem óheftir markaðshættir eru í hávegum hafðir. Það ásamt miklu misvægi framboðs og eftirspurnar gerir að verkum að íþyngjandi húsnæðiskostnaður er með mesta móti hér á landi, eftir miklar hækkanir undanfarið. Þar standa leigjendur verst.*
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir að aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum hafi ekki nærri dugað til að leysa vandann. Nýtt frumvarp til húsaleigulaga er skref í rétta átt til að bæta skráningu leigusamninga og stuðla að meiri langtímaleigu, en það tekur ekki á nærri öllu sem breyta þarf, þar á meðal stærstu orsökum verðhækkana íbúða, bæði til kaupa og leigu. Því er nú þörf fyrir róttækar bráðaaðgerðir, eins og lofað var í stjórnarsáttmála núverandi stjórnvalda.
Það sem gera þarf
Frá sjónarhóli verkafólks eru eftirfarandi aðgerðir brýnastar:
- Takmarka þarf verulega heimildir til að nýta íbúðir til skammtímaleigu (AirBnB o. fl.) á höfuðborgarsvæðinu og eftir atvikum í öðru þéttbýli. Það eru þær aðgerðir sem virka hraðast til að slá á misvægi framboðs og eftirspurnar sem orsakar óeðlilegar verðhækkanir.
- Koma á alvöru hömlum á verðhækkanir leigu (þ.e. leigubremsu, bæði í langtímaleigu og skemmri tíma leigu). Ísland þarf að nálgast grannríkin í þessum efnum svo um munar. Leigubremsa er líka mikilvægt verkfæri í baráttunni við verðbólguna.
- Stýra þarf betur nýtingu íbúðarhúsnæðis til búsetu og þrengja að nýtingu þess sem brask- og fjárfestingarleiðar fyrir efnafólk. HMS bendir á ýmsar leiðir til þess.
- Efla þarf húsnæðisstuðning hins opinbera, bæði til að auka enn frekar framboð íbúða til lægri tekjuhópa á vegum óhagnaðardrifinna aðila og létta byrðar heimila. Leigubætur hafa ekki verið verðbættar á þessu ári og rýrna því með verðbólgunni. Það þarf að laga. Til að leigubætur skili nægum árangri þarf leigubremsa einnig að vera til staðar.
Umtalsverð takmörkun á skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis í þéttbýli til ferðamanna og innleiðing alvöru leigubremsu kosta stjórnvöld ekkert. Vilji til aðgerða er allt sem þarf.
Skýrsla HMS, Vegvísir leigumarkaðar 2025, útlistar fleiri mikilvægar umbótaaðgerðir í húsnæðismálunum sem grípa þarf til. Kreppa húsnæðismálanna og dökkar horfur framundan eru slíkar að enga bið þolir.
Ítarefni:
Heimild: Hagstofa Íslands
* „Söguleg gögn sýna því að þróun leiguverðs hefur verið óhagstæðari fyrir leigjendur á Íslandi heldur en á hinum Norðurlöndunum og á evrusvæðinu,“ segir í skýrslu HMS, Vegvísir leigumarkaðar 2025, bls. 24.