Sérkjarasamningur bílstjóra hjá Eimskipum undirritaður

14. 05, 2025

Samninganefnd Eflingar og fulltrúar Eimskipa undirrituðu 28. apríl síðastliðinn sérkjarasamning vegna bílstjóra sem starfa hjá Eimskipum. Enn er ósamið við fyrirtækið fyrir hönd hafnarverkamanna en vonir standa til að takast megi að ljúka þeim samningi sem fyrst. 

Vinna að kröfugerð hófst seint á síðasta ári með þátttöku trúnaðarmanna og annarra Eflingarfélaga úr röðum bílstjóra og hafnarverkamanna sem starfa hjá Eimskipum. Samningaviðræður hafa staðið um all nokkra hríð en hafa nú skilað þessum árangri. 

Meðal þess sem samninganefnd Eflingar lagði áherslu á, og náði fram að ganga, var að forgangsákvæði í samningi nái líka til yfirvinnu. Þá kom til hækkun um launaflokk vegna starfa sem krefjast meiraprófs ökuréttinda. Sömuleiðis hækka þau störf sem krefjast svokallaðra ADR réttinda, ökuréttinda með hættulegan farm, um tvo launaflokka. Sérgreiðslur sem ekki höfðu tekið hækkunum frá árinu 2022 hækka um 3,25% afturvirkt frá 1. febrúar 2024, um 3,5% afturvirkt frá 1. janúar 2025 og um 5% til viðbótar, einnig frá 1. janúar 2025.

Þá verður skipaður vinnuhópur bílstjóra og yfirmanna sem mun rýna og skýra verkferla bílsjóra. Verður þar meðal annars horft til samskipta við viðskiptavini, verkferla um afhendingu á farmi, þar með talið þyngd, umfang og afhendingarstað, öryggismál bifreiða, þar með talið ástand hjólbarða og ferli við tilkynningar á öryggismálum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fagnar hinum nýja samningi mjög. „Það var frábær hópur Eflingarmanna sem skipaði samninganefndina gagnvart Eimskipum. Þeir mættu sameinaðir á alla fundi og börðust fyrir sínum áherslum. Með félagsfólk í fararbroddi allra viðræðna nær Efling árangri. Það sést enn á ný hér.“