
Mikill fjöldi trúnaðarmanna Eflingar stéttarfélags sóttu í vikunni námskeið félagsins þar sem þeir fengu kynningu á ýmsum grunnatriðum vinnuréttar. Trúnaðarmönnum Eflingar á hinum ýmsu vinnustöðum hefur fjölgað gríðarlega síðustu misseri, sem er afar mikilvæg og jákvæð þróun.
Alls tóku um 80 trúnaðarmenn þátt í námskeiðinu sem var haldið á Hótel Örk í Hveragerði. Meðal þess sem fram fór á námskeiðinu var fyrirlestur starfsfólks Eflingar af vinnuréttindasviði félagsins, þar sem fjallað var um veikindi og slysarétt félagsfólks. Mikilvægt er að trúnaðarmenn séu vel heima í þeim þáttum, sem og auðvitað sem flestum þáttum vinnuréttar, þar eð þeir eru fyrstu fulltrúar stéttarfélagsins sem koma að málum félagsfólks þegar á þarf að halda.
Þá fengu trúnaðarmenn einnig kynningu á nýrri launareiknivél sem er í þróun fyrir félagsfólk Eflingar. Nýja reiknivélin mun auðvelda félagsfólki mjög að sækja nákvæmar upplýsingar um rétt sinn þegar kemur að launagreiðslum, hvort sem er fyrir reglubundna dagvinnu, yfirvinnu, orlofsgreiðslur og uppbætur. Trúnaðarmenn prufukeyrðu nýju reiknivélina og létu vel af.
„Það var virkilega gott að blanda saman trúnaðarmönnum úr einkageiranum og opinbera geiranum á þessu námskeiði, þar sem við sækujum trúnaðarmannanámskeið í sitt hvoru lati stærstan hluta ársins. Það er því stundum auðvelt að gleyma hvað við erum mörg þar til við komum öll saman,“ segir Ian McDonald, trúnaðarmaður og stjórnarmaður í Eflingu og bætir við: „Ég held líka að það hafi breytt miklu að koma saman á öðrum stað en vanalega, fólk virtist miklu opnara og viljugra að tala við aðra trúnaðarmenn sem það hefði annars kannski ekki átt samskipti við.“
Ævintýri í óvissuferð
Eftir að námskeiðinu lauk var haldið í hópeflisferð, en slíkt hópefli er afar mikilvægt til að styrkja tengsl milli trúnaðarmanna og auka samvinnu þeirra á milli, félagsfólki Eflingar öllu til hagsbóta. Farið var á vélasleðum upp á Langjökul í algjörri rjómablíðu og tókst ferðin hið besta. Guðmunda Valdís Helgadóttir, trúnaðarmaður og ritari stjórnar Eflingar, var meðal þeirra sem tók þátt í ferðinni og átti vart orð til að lýsa ánægju sinni. „Þetta var ofsalega vel skipulögð óvissuferð í alla staði. Sleðaferðin var algjört ævintýri.“
Efling er stolt af þeim mikla fjölda félagsmanna sem hafa gefið kost á sér til starfa trúnaðarmanna. Störf þeirra eru grunnurinn að allri verkalýðsbaráttu félagsins, sem hefur á undanförnum árum skilað verkafólki mikilvægum og mælanlegum kjarabótum. Eflingarfélagar allir eru hvattir til að gefa kost á sér til trúnaðarstarfa, bæði sem trúnaðarmenn á vinnustöðum og einnig í öðrum hlutverkum innan félagsins. Frekari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið felagsmal@efling.is.