Fræðsludagskrá Eflingar 2025-2026

20. 08, 2025

Haustið byrjar með krafti hjá Eflingu, sem býður upp á fjölda spennandi námskeiða og viðburða fyrir félagsfólk. Námskeiðin eru endurgjaldslaus og félagið hvetur félagsfólk eindregið til að nýta sér þau og skrá sig. Þau fara fram á íslensku, ensku og pólsku. Viðfangsefni námskeiðanna eru fjölbreytt – allt frá almennri fræðslu um réttindi til sérhæfðra námskeiða sem auka hæfni í ákveðnum starfsgreinum. Athugið að sum námskeiðanna geta veitt félagsfólki launahækkun í sinni atvinnugrein. Hér fyrir neðan er yfirlit yfir fræðsludagskrá Eflingar 2025-2026.

FÉLAGSLIÐAGÁTT:

Félagsliðagátt er ætluð fólki sem vinnur við umönnun t.d. á öldrunarheimilum, í heimaþjónustu eða við heimahlynningu. Námið endar með útskrift sem félagsliði. Starfsmenntasjóðir Eflingar greiða námskeiðsgjald að fullu fyrir þá félaga sem starfa hjá opinberum launagreiðendum. Umsóknarfrestur er til 21. ágúst.

FAGNÁMSKEIÐ:

Efling býður upp á fagnámskeið fyrir starfsfólk í ýmsum greinum í samvinnu við viðurkennda fræðsluaðila. Markmið námskeiðanna er að auka færni og faglega þekkingu starfsfólks á sínum sviðum. Námskeiðin geta gefið launaflokkahækkanir samkvæmt viðkomandi kjarasamningum.

Eldhús og mötuneyti

Umönnun / félagsliðar

Leikskólar

Á fagnámskeiðunum er bæði lögð áhersla á námsþætti sem styrkja persónulega og almenna færni t.d. sjálfstyrkingu og samskipti, námstækni, færnimöppu og tölvur og svo námsþætti eins og uppeldi leikskólabarna, þroska og þróun leikskólabarna, listastarf með börnum, námskrá leikskóla, fjölmenningarlegan leikskóla og fleira. Námskeiðið hefst í maí, en nákvæmar dagsetningar verða auglýstar síðar. Skráning á heimasíðu Mímis.

RÉTTINDI:

Efling býður félagsmönnum sínum upp á ýmis námskeið varðandi réttindi sín og aðrar hagnýtar upplýsingar fyrir vinnandi fólk. Réttindanámskeiðin eru haldin í félagsheimili Eflingar á 4. hæð í Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík, og eru félagsmönnum að kostnaðarlausu.

FRÆÐSLUSTYRKIR:

Nánari upplýsingar um fræðslustyrki sem félagsmenn geta sótt um vegna námskeiða hjá öðrum fræðsluaðilum má finna á vefsvæði fræðslusjóðs.