Matur og menning í Iðnó – Veisla sem enginn ætti að missa af

20. 08, 2025
Gómsæti. Sunnudaginn 29. september 2024 var viðburðurinn Matur og menning haldinn í félagsheimili Eflingar í Guðrúnartúni. Þátttakendur frá 14 þjóðlöndum tóku þátt og um 200 gestir í heildina komu í félagsheimilið þennan dag til að smakka mat.

Það verður ilmur í lofti, vatn í munni og sól í sinni þegar hátíðin Matur og menning fer fram sunnudaginn 21. september næstkomandi í Iðnó. Á hátíðinni gefst Eflingarfélögum tækifæri til að bragða á ljúffengum matarréttum frá ýmsum heimshornum, sem aðrir Eflingarfélagar munu reiða fram.

Matur og menning er nú haldin þriðja árið í röð en hátíðin sló í gegn meðal Eflingarfélaga strax þegar hún var haldin í fyrsta sinn árið 2023. Raunar voru viðtökurnar þá, og á síðasta ári, slíkar að margfalt færri komust að en hefðu viljað. Hátíðin hefur nú verið færð úr Félagsheimili Eflingar yfir í Iðnó, sem rúmar talsvert fleiri gesti.

Á Mat og menningu gefst Eflingarfélögum tækifæri á að bjóða öðrum Eflingarfélögum upp á matarrétti frá sínum upprunalöndum. Efling endurgreiðir efniskostnað og sér um allan borðbúnað, auk drykkjarfanga. Síðustu tvö ár hafa í bæði skiptin verið á boðstólum réttir frá á öðrum tug mismunandi landa. Eflingarfélagar koma frá 144 mismunandi löndum og því er sannarlega von á góðu fyrir gesti á komandi hátíð.

Menningunni gert hátt undir höfði

Í ár verður hátíðin stækkuð enn frekar og menningaratriðum bætt við. Eflingarfélagar eru því hvattir til að skrá sig til leiks með dansatriði, tónlistaratriði, töfrabrögð eða hvað eina annað skemmtilegt sem þeir kunna að hafa í pokahorninu.

Þeir Eflingarfélagar sem vilja taka þátt, hvort heldur sem er að elda ljúffengan mat eða troða upp með skemmtiatriði, eru beðnir um að skrá sig fyrir klukkan 12:00 mánudaginn 15. september. Skráningareyðublað og frekari upplýsingar er að finna hér að neðan.

Eflingarfélagar eru hvattir til að taka sunnudaginn 21. september frá. Dyr Iðnó opna klukkan 14:00. Aðgangseyrir er enginn fyrir Eflingarfélaga og maturinn í boði án endurgjalds.

Athugið: opnað verður fyrir skráningarform fyrir gesti hátíðarinnar í byrjun september.