Þjóð gegn þjóðarmorði – Stórfundur til stuðnings Palestínu 6. september

26. 08, 2025

Íslendingum er fullkomlega ofboðið vegna grimmdarverka Ísraela á Gaza, sem kostað hafa tugþúsundir óbreyttra borgara lífið síðustu tvö ár. Hætta er á að milljónir til viðbótar verði hungurvofunni að bráð. Íslensk stjórnvöld verða tafarlaust að grípa til aðgerða gegn þjóðarmorði Ísraela í Palestínu.

Þetta er krafa mótmælafundar undir yfirskriftinni Þjóð gegn þjóðarmorði, sem haldinn verður á fjórum stöðum á landinu laugardaginn 6. september næstkomandi.

Að fundunum, sem fram fara í Reykjavík, á Ísafirði, á Akureyri og á Egilsstöðum, stendur samráðshópurinn Samstaða með Palestínu. Mikill fjöldi verkalýðsfélaga, samtaka launafólks, almannaheilla- og mannúðarsamtök skipa samráðshópinn. Efling er að sjálfsögðu þar á meðal.

Krafa hópsins er að íslensk stjórnvöld bregðist þegar í stað við og þrýsti á þjóðir heims að stöðva glæpi Ísraela í Palestínu. Alþjóðasamfélagið hefur fullkomlega brugðist þeirri skyldu sinni og eru íslensk stjórnvöld í engu undantekning þar á. Nú er nóg komið.

Alþjóðleg samstaða verður að myndast um beinar, samræmdar aðgerðir til að þvinga Ísraela til að fara að alþjóðalögum, láta af þjóðarmorði á palestínsku þjóðinni og viðurkenna rétt hennar til lands síns og lífs. Alþjóðadómstóllinn hefur lagt framgöngu Ísraela að jöfnu við þjóðarmorð og úrskurðað hersetu Ísraela á palestínsku landi ólöglega. Ekki verður búið við það stundinni lengur að Ísraelar hunsi alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna.

Efling hvetur félagsfólk sitt og almenning allan til að koma saman á stórfundinum Þjóð gegn þjóðarmorði laugardaginn 6. september og senda þar Alþingi Íslendinga, ríkisstjórn Íslands og alþjóðasamfélaginu öllu skýr skilaboð um beinar aðgerðir gegn Ísrael, til að þvinga ríkið til að hlýta alþjóðalögum.

Tími yfirlýsinga og undanbragða er liðinn, tími aðgerða er runninn upp!