Efling á aðalþingi SUN í Stafangri  

11. 09, 2025

Í lok ágúst fór hópur stjórnarmanna og starfsmanna Eflingar til Stafangurs í Noregi til að sækja þing norræna stéttarfélagasambandsins SUN (Service- og tjänstebranschens Union i  Norden). Fulltrúar Eflingar á þinginu voru Sólveig Anna Jónsdóttir formaður, Þórir Jóhannesson varaformaður og Karla Barralaga Ocon stjórnarmaður. Með þeim í för voru þrír starfsmenn félagsins, Ragnar Ólason, Viðar Þorsteinsson og Atli Antonsson.  

Mörg af stærstu verkalýðsfélögum Norðurlandanna eiga aðild að SUN. Bandalagið er vettvangur samráðs og upplýsingagjafar varðandi málefni verkafólks sem starfar við öryggisvörslu, ræstingar og fasteignaumsjón auk smærri geira. Efling gekk í SUN árið 2024 og er aðili að ræstinga- og öryggisgæsludeildum sambandsins. 

Á þingum SUN, sem haldin eru á fjögurra ára fresti, er fastur liður að fulltrúar félaganna flytja skýrslur um stjórnmálaástand og þróun mála á vinnumarkaði í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Færeyjum og Íslandi. Auk þess eru fluttar skýrslur um störf allra starfsgeirahópa sambandsins. Að þessu sinni voru auk þess sérstakar kynningar og umræður um opinber innkaup, græn umskipti og áhrif gervigreindar á atvinnulífið.  

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var kosið í embætti. Brede Edvardsen formaður Norsk Arbeidsmannsforbund var kjörinn formaður SUN til næstu fjögurra ára og tekur hann við keflinu af John Nielsen frá Serviceforbundet í Danmörku sem hafði gengt formennsku frá árinu 2021. Auk þess voru formenn kosnir í öllum starfsgreinahópum samtakanna, sem eru öryggisverðir, ræstingafólk, húsverðir og aðstoðarmenn dýralækna. 

Á þinginu var samþykkt starfsáætlun fram að næsta þingi sem verður haldið 2029. Á tímabilinu verða nokkrar áskoranir á vinnumarkaði teknar til sérstakrar skoðunar. Fyrst ber að nefna ódæmigerð ráðningaform á borð við einyrkja og verktaka hjá fyrirtækjum eins og Wolt sem starfa undir formerkjum hins svokallaða deilihagkerfis. Þá verður kannað hvernig grænu umskiptin munu hafa áhrif á atvinnugreinar félagsmanna í SUN. Auk þess hvernig verkalýðsfélög geta haft áhrif á opinber innkaup og útboð og loks hvernig sé best að bregðast við örorku og ótímabærum veikindum félagsmanna. 

Það var samdóma álit sendinefndar Eflingar að þingið hafi verið lærdómsríkt og að ýmis dýrmæt sambönd hafi verið mynduð við norræna kollega sem munu nýtast í starfi Eflingar á komandi árum. 

Þingið nú var hið fyrsta sem Eflingarfélagar taka þátt í, en Efling varð fullgildur meðlimur að SUN á síðasta ári. Sólveig Anna segir þátttöku Eflingar á þinginu afskaplega mikilvæga. „Það er okkur mjög dýrmætt að geta borið saman bækur okkar við norræna kollega, fá ráðleggingar og nýjar hugmyndir. Á sama tíma miðluðum við af eigin þekkingu. Samstarf sem þetta, og annað alþjóðasamstarf, er afar mikilvægt í baráttu verkafólks, sem er alþjóðleg barátta.“