
Furðulegt er að Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skuli kjósa að stilla sér upp með Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) með því að taka þátt í viðburði á þeirra vegum. Svo sem alþekkt er stendur SVEIT að baki gervistéttarfélaginu Virðingu, sem er ósvífin tilraun til að skerða laun og réttindi verkafólks en fylla á sama tíma vasa veitingamanna af skotsilfri.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar stéttarfélags sendi í morgun, 19. september, áskorun fyrir hönd félagsins á ráðherra um að falla frá þátttöku sinni á svoköllum Haustfundi SVEIT sem fara á fram 24. september næstkomandi. „Ég lýsi furðu minni á því að þú skulir kjósa að taka þátt í viðburði á vegum SVEIT sem augljóslega þjónar þeim tilgangi að hvítþvo samtökin og ljá þeim yfirbragð virðuleika. Það kemur mér á óvart að þú viljir láta nota þig og stöðu þína sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands á þennan hátt,“ segir í áskorun Sólveigar Önnu.
Efling hefur um margra mánaða skeið varað við þeirri svikamyllu sem SVEIT og Virðing standa að, í þeim tilgangi að hafa fé og réttindi af verkafólki í veikri stöðu með blekkingum. Framganga SVEIT hefur enda verið fordæmd af því sem næst allri hinni íslensku verkalýðshreyfingu. Þá sæta SVEIT og Virðing opinberri rannsókn Samkeppniseftirlitsins. Því skorar formaður Eflingar á ráðherrann Jóhann Pál að draga þátttöku sína í viðburði SVEIT til baka.
Sólveig Anna hugðist afhenda ráðherra áskorunina í eigin persónu í morgun, í ráðuneytinu, en hafði ekki erindi sem erfiði. Starfskona ráðuneytisins tók hins vegar við áskoruninni og lofaði því að henni yrði komið í hendur ráðherra eins fljótt og auðið yrði.
Áskorun Eflingar má lesa hér að neðan.
Reykjavík, 19.9.2025
Efni: Áskorun
Sæll Jóhann Páll.
Mér hefur borist til eyrna að þú hafir ákveðið að taka þátt í viðburði á vegum Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) þann 24. september næstkomandi sem titlaður er „Haustfundur SVEIT“. Ef marka má auglýsingu ætlar þú að heiðra samkomuna með opnunarávarpi.
Eins og þér og flestum þeim sem fylgjast með fréttum á Íslandi er væntanlega kunnugt um þá gerðu SVEIT í lok síðasta árs kjarasamning við félagsskapinn Virðingu sem kallar sig stéttarfélag. Sá kjarasamningur er óvenjulegur að því leyti að það voru SVEIT sem stofnuðu umræddan félagsskap. Stjórnarmenn SVEIT og forsvarsmenn aðildarfyrirtækja félagsins settu m.a. sjálfa sig, maka sína og börn í stjórn Virðingar. Virðing er því ekki raunverulegt stéttarfélag heldur gervistéttarfélag undir stjórn SVEIT. Um er að ræða lágkúrulegan sýndargjörning sem þjónar þeim tilgangi að atvinnurekendur innan SVEIT geti samið við sig sjálfa.
Efling varaði við starfsemi Virðingar og svikamyllu SVEIT strax í desember 2024. SVEIT gekk gegn öllum leikreglum og siðferði á vinnumarkaði með því að ganga framhjá eiginlegum stéttarfélögum verkafólks í atvinnugreininni, í þeim tilgangi að hagnast á verkafólki í veikri stöðu með svikum og blekkingum. Engin launamanneskja myndi sjálfviljug og óþvinguð gangast undir kjarasamning SVEIT og Virðingar enda felur hann í sér skerðingar á launum og réttindum samanborið við gildandi, löglega kjarasamninga í veitingageiranum líkt og Efling hefur gert opinberlega grein fyrir.
Fjöldi íslenskra stéttarfélaga, landssambanda og heildarsamtaka á íslenskum vinnumarkaði hafa fordæmt framgöngu SVEIT og sýndarkjarasamningagerð þess við Virðingu. Má þar meðal annars nefna Starfsgreinasamband Íslands, Alþýðusamband Íslands, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna og BSRB og BHM.
SVEIT og Virðing eru sem stendur undir opinberri rannsókn hjá Samkeppniseftirlitinu vegna kvörtunar sem Efling, Starfsgreinasambandið og Alþýðusambandið lögðu fram síðastliðið vor.
Ég lýsi furðu minni á því að þú skulir kjósa að taka þátt í viðburði á vegum SVEIT sem augljóslega þjónar þeim tilgangi að hvítþvo samtökin og ljá þeim yfirbragð virðuleika. Það kemur mér á óvart að þú viljir láta nota þig og stöðu þína sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands á þennan hátt.
Ég vil með bréfi þessu skora á þig að draga þátttöku þína í umræddum viðburði til baka.
_______________________________
Sólveig Anna Jónsdóttir
formaður Eflingar – stéttarfélags