
Hátíðin Matur og menning 2025 fór fram í Iðnó sunnudaginn 21. september og heppnaðist með glæsibrag. Félagar Eflingar buðu upp á mat frá meira en 20 löndum og fylltist húsið af ilmi, stemningu og gleði.
Gestir fengu að bragða á fjölbreyttum réttum frá öllum heimshornum – allt frá heilgrilluðum grís að filippseyskum hætti til íransks eftirréttar „að hætti ömmu“, og íslenskrar brauðtertu. Á hátíðinni var einnig boðið upp á fjölbreytt dagskrá þar sem Eflingarfélagar og fjölskyldur þeirra tróðu upp. Spilað var á hljóðfæri, sungið og dansað. Með sanni má segja að Matur og menning hafi verið sannkölluð hátíð fjölbreytileikans, vináttu og samstöðu.
„Matur og menning 2025 heppnaðist frábærlega! Það var stórkostlega góður matur og risastór hópur Eflingar-gesta. Æðisleg stemmning og allir í góðu skapi,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, að lokinni hátíðinni.
Þetta var í þriðja sinn sem Efling stendur fyrir þessum vinsæla viðburði sem hefur sannarlega fest sig rækilega í sessi sem árleg veisla félagsfólks og fjölskyldna þeirra. Fullt var út úr dyrum og færri komust að en vildu, þrátt fyrir að hátíðin nú hafi verið flutt í Iðnó og þannig stækkuð verulega frá fyrri árum. Bros var á hverju andliti og Eflingarfélagar og fjölskyldur þeirra héldu mett og sæl út í daginn að hátíðinni lokinni.
Hér að neðan má sjá myndbrot frá RÚV sem kíkti við á hátíðina, ræddi við Eflingarfélaga og fangaði stemninguna.