
Aðeins 16 prósent aðfluttra Eflingarfélaga búa í eigin húsnæði á meðan að 74 prósent þeirra búa í leiguhúsnæði. Þessu er þveröfugt farið þegar kemur að innfæddum Íslendingum, en 73 prósent þeirra búa í eigin húsnæði. Af þessum sökum er fjárhagsstaða aðfluttra Eflingarfélaga bágbornari en samanburðarhópa, þeir búa í verulegu mæli við húsnæðisóöryggi og húsnæði sem þeir búa í hentar þeim ekki nægilega vel. Eina leiguúrræðið sem hentar Eflingarfélögum verulega vel eru óhagnaðardrifin leigufélög, og því væri gríðarlega mikið unnið með frekari uppbyggingu á þeim.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) gerði í sumar meðal félagsmanna Eflingar, VR og Einingar-Iðju. Um 70 prósent þáttakenda í rannsókninni voru Eflingarfélagar og gefa niðurstöðurnar því glögga mynd af stöðu Eflingarfélaga af erlendum uppruna á húsnæðismarkaði.
Háðir duttlungum leigufélaga og leigusala
Aðfluttir Eflingarfélagar telja sig lítil réttindi hafa á leigumarkaði, búa þar við óöryggi og upplifa að þeir séu alfarið háðir duttlungum leigufélaga og leigusala, samkvæmt opnum svörum þeirra í rannsókninni. Alls leigja 55 prósent aðfluttra Eflingarfélaga af einkaaðilum, 9 prósent leigja af hagnaðardrifnu leigufélagi og 3 prósent af óhagnaðardrifnu leigufélagi. Mest ánægja meðal aðfluttra Eflingarfélaga á leigumarkaði mælist hjá þeim sem leigja af óhagnaðardrifnu leigufélagi en minnst hjá þeim sem leigja af markaðsdrifnu leigufélögunum. Í ofanálag telja þeir félagar sig búa við minnst búsetuöryggi, vegna hárrar leigu, óstöðugs leigumarkaðs og vegna tímabundinna leigusamninga.
Félagslegt húsnæðiskerfi grundvöllur velferðarsamfélags
Niðurstöður rannsóknarinnar, sem Efling hefur sömuleiðis greint sérstaklega upp á eigin spýtur, voru kynntar og til umræðu á fundi HMS í gær. Þar hafði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, framsögu og ræddi niðurstöður rannsóknarinnar í samhengi við reynslu aðfluttra Eflingarfélaga. Sólveig Anna lagði í erindi sínu út af hinum mannskæða og hræðilega bruna á Bræðraborgarstíg sumarið 2022, þar sem þrjár ungar manneskjur, aðfluttar til Íslands, létu lífið. Sólveig Anna nefndi viðbragðsleysi íslenskrar valdastéttar við brunanum, skort á samúð og samkennd.
„Ég horfðist í augu við að þær ömurlegu húsnæðis aðstæður sem aðflutt fólk á höfuðborgarsvæðinu þurfti að gera sér að góðu voru tilkomnar vegna áhugaleysis valdastéttarinnar á tilveruskilyrðum þeirra, áhugaleysis sem var í raun allt um lykjandi; ekki bara efnahagslegt áhugaleysi, heldur djúpstætt félagslegt áhugaleysi sem gerði það að verkum að möguleikarnir á því að grípa til aðgerða til að laga vandann voru verulega takmarkaðir. Ég sá að íslensk valdastétt var að mestu ófær um að hlusta og skilja því að meira og minna allir meðlimir hennar höfðu lagt til hliðar eitt mikilvægasta grunngildi raunverulegs velferðarsamfélags; gott og öflugt félagslegt húsnæðiskerfi berggrunnur, bjargið sem að annað hvílir á. Lausn undan viðvarandi fjárhagsáhyggjum, möguleiki á raunverulegri hvíld, aðstaða fyrir börn til að sinna námi; skýrasta merkið um að þjóðfélag beri raunverulega umhyggju fyrir velferð verkafólks og barna þeirra er að þeim sé tryggt gott, ódýrt og öruggt húsnæði,“ sagði Sólveig Anna.
Það áhugaleysi sem Sólveig Anna lýsir þarna kristallast kannski best í því að á fundinum var aðeins einn kjörinn fulltrúi mættur, Ragnar Þór Ingólfsson þingmaður Flokks fólksins.
Erindi Sólveigar Önnu á fundinum má lesa hér að neðan.
Ég man vel þegar ég áttaði mig endanlega á því hve djúpstæður vandinn er sem við stöndum frammi fyrir í húsnæðismálum stéttar vinnuaflsins, sér í lagi okkar aðfluttu félaga. Það var 25 júní árið 2020. Þá átti sér stað skelfilegur harmleikur hér í Reykjavík. Húsið á Bræðraborgarstíg 1 brann til kaldra kola. Þrjá ungar manneskjur, 24 ára kona, 26 ára kona og 21 árs karlmaður, létust í brunanum. Tvö dóu vegna reykeitrunar en önnur konan þegar að hún stökk út um glugga á húsinu til að komast undan eldhafinu. Aðrir slösuðust þannig að þeir munu aldrei bíða þess bætur. Reykinn lagði yfir miðborgina þannig að loka þurfti gluggunum í Alþingishúsinu. Eldsvoðinn var einn sá mannskæðasti í sögu höfuðborgarinnar.
Þennan dag var ég á leið út úr bænum ásamt samstarfsfólki og Eflingarfélögum til að skoða nýtt orlofshús félagsins. En ég hætti við að fara þegar að fyrstu fréttir bárust af hryllingnum, vegna þess að ég vissi samstundis að yfirgnæfandi líkur væru á því að fórnarlömbin væru meðlimir í Eflingu. Illa farið hús, notað sem gróðauppspretta fyrir óprúttna aðila; hverjir aðrir en meðlimir stéttar vinnuaflsins þyrftu að búa í slíku húsi? Að kvöldi 25. júní var mér bent á að þáverandi forsætisráðherra lýðveldisins hefði birt stöðuuppfærslu á Twitter. En textinn var ekki yfirlýsing um samúð með þeim sem að þjáðust á spítala með skelfileg meiðsl vegna brunans, ekki þakklæti til slökkviliðsfólksins sem að hafði barist við eldinn og bjargað mannslífum og hætt eigin lífi, ekki með fjölskyldum unga fólksins sem var dáið við hræðilegustu aðstæður sem hægt er að hugsa sér. Nei, færslan var gleðiyfirlýsing vegna þess að fótboltaliðið Liverpool hafði unnið sigur í fótboltaleik. Kona af pólskum uppruna skrifaði athugasemd við færsluna forsætisráðherra: „Þú ættir að skammast þín, að skrifa þetta eftir þessa hræðilega dauða í bruna“. Ég var sammála þessari konu og mér var mjög brugðið. Ég hugsaði með mér hvort að ein valdamesta manneskja á Íslandi hefði skrifað viðlíka texta ef að unga fólkið sem var dáið hefðu verið Íslendingar úr millistétt. Og ég vissi að svarið var nei, að sjálfsögðu ekki.
Ég horfðist í augu við að þær ömurlegu húsnæðis-aðstæður sem aðflutt fólk á höfuðborgarsvæðinu þurfti að gera sér að góðu voru tilkomnar vegna áhugaleysis valdastéttarinnar á tilveruskilyrðum þeirra, áhugaleysis sem var í raun allt um lykjandi; ekki bara efnahagslegt áhugaleysi, heldur djúpstætt félagslegt áhugaleysi sem gerði það að verkum að möguleikarnir á því að grípa til aðgerða til að laga vandann voru verulega takmarkaðir. Ég sá að íslensk valdastétt var að mestu ófær um að hlusta og skilja því að meira og minna allir meðlimir hennar höfðu lagt til hliðar eitt mikilvægasta grunngildi raunverulegs velferðarsamfélags; gott og öflugt félagslegt húsnæðiskerfi, berggrunnur, bjargið sem að annað hvílir á. Lausn undan viðvarandi fjárhagsáhyggjum, möguleiki á raunverulegri hvíld, aðstaða fyrir börn til að sinna námi; skýrasta merkið um að þjóðfélag beri raunverulega umhyggju fyrir velferð verkafólks og barna þeirra er að þeim sé tryggt gott, ódýrt og öruggt húsnæði.
Spurningunni enn ósvarað
Spurningin sem að við stóðum frammi fyrir dag harmleiksins sumarið 2020 er sama spurningin og við stöndum frammi fyrir í dag: Er íslensk valdastétt fær um að sýna velferð aðflutts verkafólk raunverulegan áhuga, áhuga sem birtist í raunverulegum aðgerðum eða á að leyfa skammarlegu ástandi að halda áfram að versna, með ömurlegum samfélagslegum afleiðingum?
Ég ætla að renna stuttlega yfir helstu niðurstöður könnunarinnar sem að snúa að meðlimum Eflingar.
Eflingarfélagar voru 70% þátttakenda í könnuninni sem þýðir að niðurstöðurnar ættu að gefa ágætlega glögga mynd af stöðu félagsfólks af erlendum uppruna á húsnæðismarkaði.
Niðurstöður könnunarinnar staðfesta enn frekar það sem önnur gögn hafa sýnt, að aðfluttir Eflingarfélagar eru að langstærstum hluta á leigumarkaði, að fjárhagsstaða þeirra er bágbornari en samanburðarhópa, að þeir upplifa húsnæðisóöryggi í verulegum mæli og að ánægja þeirra með það húsnæði sem þeir búa í er ekki nægjanlega mikil.
- Aðeins 16% aðfluttra Eflingarfélaga búa í eigin húsnæði.
- 55% aðfluttra Eflingarfélaga leigja af einkaaðila.
- 9% aðfluttra Eflingarfélaga leigja af hagnaðardrifnu leigufélagi.
- 3% aðfluttra Eflingarfélaga leigja af óhagnaðardrifnu leigufélagi.
Mest ánægja með búsetuform er meðal þeirra Eflingarfélaga sem búa í eigin húsnæði, þar segjast 84% vera ánægð.
Þar næst koma þeir Eflingarfélagar sem leigja af óhagnaðardrifnum leigufélögum, 74% þeirra eru ánægð með sitt búsetuform.
Minnst ánægja er hjá þeim Eflingarfélögum sem leigja af markaðsdrifnum leigufélögum. Aðeins 56% þeirra eru ánægð og 32% eru hreinlega óánægð.
Alls 77% aðfluttra Eflingarfélaga sem leigja hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum telja sig búa við húsnæðisöryggi. Það er marktækt betri niðurstaða en hjá þeim sem búa við aðra leigukosti.
Engin búsetukostur kemur verr út varðandi húsnæðisöryggi en hagnaðardrifnu leigufélögin. Aðeins 46% aðfluttra Eflingarfélaga sem leigja hjá hagnaðardrifnum leigufélögum telja sig búa við húsnæðiöryggi en þriðjungur, 34%, telja sig ekki búa við húsnæðisöryggi.
Hvers vegna telur fólk sig ekki búa við húsnæðisöryggi:
- 72% segja það vera vegna hárrar leigu
- 43% segja það vera vegna óstöðugs leigumarkaður
- 28% segja það vera vegna tímabundinna leigusamninga
Og í opnu svörunum sjáum við að aðfluttir Eflingarfélagar telja sig hafa lítil réttindi sem leigjendur, búa við óöryggi á leigumarkaði og upplifa að þeir séu alfarið háð duttlungum leigusala og leigufélaga.
Niðurstaðan er sú að eina leiguúrræðið sem hentar Eflingarfólki verulega vel eru óhagnaðardrifin leigufélög og því væri gríðarlega mikið unnið með frekari uppbyggingu á þeim.
Börn þurfa stöðugleika í húsnæði
Við sem hér erum saman komin vitum að vandað, traust og ódýrt húsnæði, rekið með félagslegum forsendum er ein besta aðferð hvers samfélags til að tryggja vinnuaflinu góð tilveruskilyrði. Jafnvel þau sem að þykjast ekki skilja þetta og láta eins og mannfjandsamleg markaðslögmálin sem þau hafa gert að trúarbrögðum séu sannleikur lífsins vita innst inni að þetta er einfaldlega efnahagsleg og félagsleg staðreynd. Það útskýrir mögulega andstöðu þeirra við verkefni eins og Bjarg; þau þola ekki að þurfa að horfast í augu við að þau hafa rangt fyrir sér. Gott húsnæði rekið á félagslegum forsendum er einfaldasta og skynsamlegasta fjárfestingin í því að byggja upp gott samfélag sem byggir á gildum velferðarsamfélagsins um að góð líkamleg og andleg heilsa stéttar vinnuaflsins sé lykilatriði í öllum þjóðhagslegum útreikningum, að því gefnu að við viljum að þeir útreikningar sýni gott samfélag.
Leigufélagið Bjarg, stofnað af ASÍ og BSRB, er fyrirbæri eins og hér er lýst. Vel rekið af starfsfólki sem að hefur mikinn metnað fyrir verkefninu og hollustu við það. Gætt er að öllu viðhaldi og unnið með leigjendum sem að lenda í tímabundnum erfiðleikum með að standa skil á leigu. Þau sem komast þar inn eru ánægð og vilja vera þar áfram. Þau horfa loksins fram á að geta notað eitthvað af tekjunum sem að þau vinna sér inn fyrir sig sjálf og börnin sín. Þau þurfa ekki lengur að setja sjálf sig svo aftarlega á listann um hvað hægt er að gera fyrir launin að þau vita í raun að aldrei kemur að þeim, vegna þess að gróðamöguleikar annara skipta meira máli en velsæld þeirra og barna þeirra.
Við sem að hér erum saman komin vitum líka að börn sem búa við stöðugleika í húsnæði eru líklegri til að líða vel og þeim gengur t.d. betur í skóla. Á svokölluðu Farsældarþingi sem fyrst var haldið hér á Íslandi fyrir tveimur árum síðan voru m.a. kynnar niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar. Þar kom í ljós að allt að þriðjungur unglinga af erlendum uppruna telja sig ekki tilheyra skólanum sínum. Ég tel ljóst að þar spilar ótryggt húsnæði mikið hlutverk; tíðir flutningar á milli skólahverfa gera það augljóslega að verkum að erfitt er að ná fótfestu og skjóta niður rótum. Erfitt er að upplifa að þú tilheyrir. Og hvaða afleiðingar mun slíkt hafa fyrir þessi börn og þessa unglinga og stöðu þeirra í samfélagi okkar?
Staðreyndin er sú að börn sem alast upp í öruggu umhverfi eru líklegri til að upplifa góða heilsu og þau eiga almennt betra líf sem fullorðið fólk. Eins og staðan er núna er verið að búa til með skipulögðum hætti kynslóðabundin vandamál og kynslóðabundna stéttaskiptingu og misskiptingu; annars vegar börn eignalauss fólk sem að nær ekki endum saman vegna hás leigukostnaðar og hins vegar börn þeirra sem að eru í eigin húsnæði og upplifa það öryggi sem að því fylgir, og vita að þau munu erfa eignir foreldrana þegar þar að kemur.
Raunverulegt velferðarsamfélag lætur það ekki líðast að velferð barna sé sett neðar en gróðamöguleikar meðlima eignastéttarinar. Raunverulegt velferðarsamfélag setur aðstæður barna fremst í forgangsröðina, ekki vegna væmni, heldur vegna þess að með því tryggjum við stöðugleika samfélagsgerðar okkar best.
Lykilspurningin
Ein af stærstu spurningum okkar tíma er þessi: Viljum við að aðflutt verkafólk hafi raunverulega möguleika á því að njóta lífsins með börnum sínum eftir að hafa unnið langa vinnudaga – eða finnst okkur í lagi að þau þræli sér út til að afhenda þriðja aðila stóran part sinna ráðstöfunartekna. Viljum við að fólk sé fast í því að lifa alltaf ein mánaðamót til þeirra næstu – án svigrúms til að vaxa og dafna á eigin forsendum? Ekki þýðir að tala um inngildingu í samfélaginu þegar að staðan er svona; ekki er hægt að setja þá kröfu á aðflutt vinnuafl að þau læri íslensku ef að valdastéttin getur ekki einu sinni axlað ábyrgð á því að hér sé húsnæðismarkaður sem ekki er undirseldur mannfjandsamlegum lögmálum gróðasýkinnar.
Afleiðingar skeytingarleysis íslenskrar valdastéttar á tilveruskilyrðum aðflutts verkafólks og barna þeirra sjást alls staðar í samfélagi okkar. Þær sjást þegar við skoðum möguleika fólks á því að læra íslensku. Þær sjást þegar við skoðum hvað gert er til að inngilda fólk í samfélag okkar.
Aðstæðurnar eru þannig að börn ófaglærðs fólks með lágar tekjur sem eru af erlendum uppruna er sá hópur sem er verst settur í samfélaginu okkar. Ætlum við að horfast í augu við þessa stöðu eða er okkur í raun alveg sama – við viljum bara fólk til að gæta barna, aldraðra ættingja, til að þrífa í kringum okkur og búa til matinn þegar við förum út að borða – við viljum frábært líf fyrir okkur á kostnað annara?
Reynsla Eflingarfélaga
Einn af mínum góðu félögum í Eflingu, frábær maður, glæsilegur og greindur, sem tekur þátt í félagslegu starfi okkar, bæði viðburðum eins og Mat og menningu, og í samninganefndum félagsins, er einstæður faðir. Hann er innflytjandi, búinn að vera hér í um það bil fimm ár og ætlar að vera áfram. Hann kemur frá landi sem að hann getur ekki búið í vegna ástands þjóðmála þar. Til að sjá fyrir 12 ára dóttur sinni er hann í þremur vinnum. Hann vinnur á tveimur hjúkrunarheimilum og svo vinnur hann sem sendill. Hann er ómissandi partur af efnahagslífi þjóðfélags okkar og hann er fastur í gildru gróðavædds leigumarkaðar. Þess vegna er hann í þremur vinnum.
Annar af mínum góðu og frábæru félögum er aðflutt kona sem að ein elur upp 2 börn sín. Hún er ein af „góðu“ innflytjendunum, talar reiprennandi íslensku og hefur starfað á einum af leikskólum borgarinnar árum saman. Hún er í biðröðinni hjá Bjargi, en það eru allavega tvö ár í að hún komist að þar. Á meðan greiðir hún 70% af ráðstöfunartekjum fjölskyldunnar í leigu. Hún segist samt vera heppin, vegna þess að íbúðin sem að hún leigir er í góðu ástandi og leigusalinn gæti hækkað leiguna meira, í samræmi við þá miklu eftirspurn sem er til staðar eftir leiguhúsnæði á húsnæðismarkaði efnahagslegrar og pólitískrar yfirstéttar á höfuðborgarsvæðinu.
Ég spyr: Viljum við vinna að því með Eflingarkörlum og konum að byggja upp íbúðafélagið Bjarg hratt og örugglega, og taka með því þátt í að sýna og sanna fyrir stétt verkafólks að þau eru metin að verðleikum, að við skiljum og viðurkennum að þau eru algjörlega ómissandi þáttur í verðmætasköpun samfélagsins, að tilveruskilyrði þeirra eru lykilatriði í því hvernig samfélag þróast í okkar litla landi?
Ætlum við að þusa um ástandið annars vegar og hins vegar skammast í þeim sem að vilja gera sér stöðu innflytjenda á íslandi að öflugri atkvæða-veiðistöng fyrir orðbragðið, eða ætlum við að horfast í augu þann materíalísk raunveruleika sem að fólki er búinn, raunveruleika sem að býr til grafalvarleg vandamál fyrir samfélag okkar, raunveruleika sem að segir okkur að við erum að bregðast stórum hópi barna á höfuðborgarsvæðinu?
Ráðamenn þvoi burt skammarblettinn
Mig langar að biðja þau sem að hér eru og tilheyra pólitískri valdastétt að rétta upp hönd.
(Í ljós kemur að Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins er eini þingmaðurinn sem er mættur á fundinn og eini kjörni fulltrúinn á staðnum. Það skeytingarleysi á aðstæðum aðflutts fólks sem sjá má á fjarveru kjörinna fulltrúa býr til þær aðstæður sem við búum við.)
Ábyrgðin er ykkar. Fyrir hönd aðflutts Eflingarfólks sem með vinnu sinni býr til hagvöxtinn og heldur umönnunarkerfum þjóðfélagsins gangandi, sem greiðir skatta og gjöld, sem tekur með framlagi sínu þátt í að greiða laun ykkar, skora ég á ykkur að gera allt sem í ykkar valdi stendur til að þvo burt þann skammarblett sem að aðstæður aðflutts fólks á leigumarkaði eru, og sanna að þið eruð þess megnug að stjórna samfélaginu með þeim hætti að það endurspegli þau gildi sem að við öll segjumst vilja kenna okkur við, gildi norræns velferðarsamfélag.