Fimmtudaginn 4. september kl. 18:30 mun Mark Bergfeld, sviðsstjóri fasteignaþjónustu og umönnunar hjá Evrópudeild UNI Global Union, halda erindi fyrir trúnaðarráð Eflingar-stéttarfélags á Fosshóteli Reykjavík, Þórunnartúni 1.
Í erindinu mun Mark fjalla um hvernig opinber innkaup geta verið öflugur vettvangur til að stuðla að félagslegu réttlæti fyrir ræstingafólk. Ár hvert verja opinberir aðilar háum fjárhæðum í ræstingasamninga, en oftar en ekki er lægsta tilboði tekið án tillits til samfélagslegrar ábyrgðar. Afleiðingarnar bitna á ræstingafólki sem vinnur á kvöldin og næturnar, býr við ótryggt starfsöryggi og fær lág laun.
Mark mun leggja áherslu á hvernig hægt er að snúa þessari þróun við með því að setja félagsleg ákvæði í útboð. Slík ákvæði geta tryggt dagvinnu, aukið sýnileik starfsins, bætt kjör og stuðlað að virðingu og réttlæti í geiranum.
Efling-stéttarfélag hefur lengi barist fyrir bættum aðstæðum ræstingafólks og vakti m.a. athygli á málinu í mars síðastliðnum þegar fjölmennur félags- og trúnaðarráðsfundur sendi áskorun til Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnar Íslands um að standa við gerða kjarasamninga og tryggja að vinnuaðstæður í útvistuðum ræstingum séu ásættanlegar.
Félagið hefur einnig átt í virku samtali við stjórnvöld um samfélagslega ábyrgð hins opinbera í þessum málaflokki, en bíður enn svara um næstu skref.
Mark Bergfeld hefur áralanga reynslu af baráttu verkafólks víðs vegar um Evrópu og er reiðubúinn til að ræða við fjölmiðla um málefnið. Fundurinn er opin félögum í trúnaðarráði Eflingar.