
Stjórn Eflingar stéttarfélags lýsir yfir eindregnum stuðningi við palestínsku þjóðina í þeim skelfilegu hörmungum sem að á henni dynja, og leggur sérstaka áherslu á samstöðu okkar við verkafólk í Palestínu sem þola þarf viðbjóðslega glæpi ólöglegs hernáms á hverjum degi. Við fordæmum harðlega þjóðarmorð Ísraela á Gaza og krefjumst tafarlausra aðgerða af hálfu íslenskra stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins.
Árásir ísraelska hersins á almenna borgara, börn, konur og menn, sem og sprengingar á spítölum, skólum og flóttamannabúðum, eru glæpir gegn mannkyni. Stjórn Eflingar lýsir yfir viðurstyggð á kerfisbundnum morðum Ísraela á heilbrigðisstarfsfólki og fréttamönnum á Gaza. Aftökurnar vekja hrylling allra sem fylgjast með fréttum af svæðinu og sýna með skýrum hætti einbeittan vilja morðingjanna til að vinna óafturkræfan skaða á palestínsku samfélagi. Þessi grimmdarverk eru brot á alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Alþjóðadómstóllinn hefur lagt framgöngu Ísraela að jöfnu við þjóðarmorð og úrskurðað hersetu á palestínsku landi ólöglega.
Efling krefst þess að íslensk stjórnvöld þrýsti af fullu afli á að glæpir Ísraela í Palestínu verði stöðvaðir án tafar. Binda verður enda á hernám Ísraela og tryggja rétt flóttafólks til að snúa aftur til heimkynna sinna.
Við hvetjum félagsfólk Eflingar og allan almenning til að mæta á samstöðufundinn Þjóð gegn þjóðarmorði sem haldinn verður laugardaginn 6. september klukkan 14:00. Fundurinn er haldinn í Reykjavík, í Stykkishólmi, á Ísafirði, Akureyri, Húsavík og Egilsstöðum og er skipulagður af samráðshópnum Samstaða með Palestínu, sem Efling tekur virkan þátt í.
Saman getum við sent skýr skilaboð til Alþingis, ríkisstjórnar Íslands og heimsins alls: Þjóðarmorð verður ekki liðið. Réttlæti og friður verða að ráða för.
Alexa Tracia Patrizi
Guðbjörg María Jóepsdóttur
Guðmunda Valdís Helgadóttir
Hjörtur Birgir Jóhönnuson
Ian Phillip McDonald
Innocentia Fiati
Karla Esperanza Barralaga Ocon
Michael Bragi Whalley
Olga Leonsdóttir
Rögnvaldur Ómar Reynisson
Sigurjón Ármann Björnsson
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sæþór Benjamín Randalsson
Þórir Jóhannesson
Höfundar eru stjórnarmenn í Eflingu stéttarfélagi.