
Ekki verður samið aftur um hófstilltar launahækkanir í kjarasamningum nema því aðeins að stjórnvöld taki til í þeim „ruslahaug“ sem húsnæðismarkaðurinn er orðinn. Óásættanlegt er að langstærstur hluti tekna Eflingarfólks, jafnvel svo mikið sem 70 prósent, renni beint í vasa leigusala um hver mánaðarmót. Efling mun ekki taka þátt í því að gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari.
Þetta sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Sólveig benti þar á að fyrir síðustu kjarasamninga hafi Efling sótt það fast að samið yrði um krónutöluhækkanir en ekki prósentuhækkanir. Krónutöluhækkanir launa hafa það í för með sér að kaupmáttur látlaunahópa á íslenskum vinnumarkaði eykst mest, þær auka þannig jöfnuð en draga líka úr þenslu með því að launahækkanir hærra launaðra hópa verða hófstilltari.
Hins vegar var ekki viðlit að hreyfa því að samið yrði um krónutöluhækkanir, sökum þess að félög hinna hærra launuðu innan ASÍ þver neituðu því að og klufu þar með samstöðu launþegahreyfingarinnar. Þá mættu slíkar kröfur harðir andstöðu frá félögum eins og BHM, sem og frá viðsemjandanum, Samtökum atvinnulífsins. Afleiðingin er sú að misskipting eykst og ekki hefur tekist að draga úr þenslu eða lækka verðbólgu, eins og að var stefnt.
„Þannig að það eru óveðursský á lofti á íslenskum vinnumarkaði ef að þetta fólk sem lét kjósa sig til valda, meðal annars með því að höfða til vinnandi fólks, fer ekki að taka til í þessum ruslahaug sem meðal annars húsnæðismarkaðurinn er hér, allavega á höfuðborgarsvæðinu.“ sagði Sólveig Anna í Morgunútvarpinu.
Hlusta má á viðtalið við Sólveigu Önnu hér. Viðtalið hefst á mínútu 00:54:50.