Uppbygging innviða verði kjarni atvinnustefnunnar

16. 09, 2025

Áherslur Eflingar stéttarfélags varðandi atvinnustefnu Íslands

Stjórnvöld vinna nú að mótun atvinnustefnu, til að „stuðla að sjálfbærum vexti atvinnugreina, aukinni framleiðni og heilbrigðum vinnumarkaði“. Meginmarkmið stefnunnar er „að fjölga vel launuðum störfum um land allt og styðja við hagvöxt í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði“.

Þetta eru ágæt markmið en öllu máli skiptir hvernig þau eru útfærð.

Verkfærakista atvinnustefnu

Helstu verkfæri opinberrar atvinnustefnu eru yfirleitt talin vera eftirfarandi:

  • Fjárhagslegur stuðningur (styrkir, hlutafé, ábyrgðir)
  • Skattaívilnanir til fyrirtækja
  • Verndartollar
  • Afnám reglunar og opinberra afskipta
  • Uppbygging innviða

Fjárhagslegur stuðningur stjórnvalda við fyrirtæki eða atvinnugreinar hefur lítið verið í tísku á undanförnum áratugum, nema helst í formi nýsköpunarstyrkja. Hér á landi er almennt lítil þörf á slíkum stuðningi nú á dögum. Mikil og ör uppbygging á landeldi á sér nú stað og hafa lífeyrissjóðir sett mikið fjármagn í hana. Einnig er ör uppbygging í lyfjaframleiðslu sem ekki kallar á opinbera styrki. Hugbúnaðargreinar njóta hagstæðs nýsköpunarumhverfis, sem þó mætti gera skilvirkara. Nýsköpunarstyrkir eru frekar háir hér og hefur OECD bent á að auka þurfi eftirlit með því hvernig þeim fjármunum er varið. Almennt er aðgengi fyrirtækja að fjármagni til uppbyggingar rúmt hér á landi, sem og erlendis frá, og því ekki sérstök þörf fyrir aukna opinbera styrki eða lán og ábyrgðir.

Skattaívilnunum hefur mikið verið beitt hér á landi, með almennt lágri álagningu á hagnað fyrirtækja og á fjármagnstekjur, samanborið við grannríkin. Þá býr ferðaþjónustan við miklar sérstakar skattaívilnanir sem hafa án efa hraðað vexti hennar á undanförnum áratug. Loks hefur sjávarútvegur notið lítilla gjalda af auðlindanotkun sinni, þannig að veiðigjöld hafa varla dugað fyrir beinum útgjöldum hins opinbera til stuðnings greininni. Orkufrekur iðnaður í eigu erlendra aðila hefur einnig notið skattfríðinda. Fleiri dæmi mætti nefna. Á þessu sviði er frekar ástæða til samdráttar ívilnana en aukningar.

Verndartollar eru almennt ekki vænleg leið í litlu hagkerfi sem er mjög háð milliríkjaviðskiptum, eins og Ísland er. Aðild Íslands að fríverslunarsamningum og Evrópska efnahagssvæðinu hefur skapað hagstæð skilyrði fyrir atvinnuþróun hér á landi.

Afnám reglunar og opinberra afskipta hefur talsvert verið reynd hér á landi. Mikilvægt er að hún beinist frekar að því að gera leyfisveitingar greiðari og að ryðja hindrunum úr vegi nýsköpunar og framkvæmda, með betra skipulagi og aukinni skilvirkni. Hins vegar er reglun á neytendamarkaði og vinnumarkaði mjög mikilvæg til að verja almenning og launafólk gegn fjandsamlegri hegðun fyrirtækja. Þar er víða pottur brotinn hér á landi og því ástæða til aukins eftirlits og aðhalds. Efling stéttarfélag hefur yfirgripsmikla þekkingu hvað þetta varðar og lýsir félagið sig reiðubúið til að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í þeim efnum.

Hér verða færð rök fyrir því að efling innviða sé einstaklega brýnt viðfangsefni á Íslandi í dag og á næstu misserum. Það ætti því að vera kjarninn í nýrri atvinnustefnu stjórnvalda. Flest bendir til að öflug uppbygging innviða hvers konar geti skilað mestu til að „stuðla að sjálfbærum vexti atvinnugreina, aukinni framleiðni og heilbrigðum vinnumarkaði“.

Lærdómur af vexti ferðaþjónustunnar

Ferðaþjónustan á Íslandi hefur vaxið einstaklega ört á síðasta einum og hálfum áratug. Ferðaþjónustan fór frá því að vera miðlungs atvinnugrein, jafnvel aukabúgrein, í að verða stærsta útflutningsgrein landsins. Það er mikill árangur atvinnustefnu, sem meðal annars fól í sér viðamiklar skattaívilnanir til fyrirtækja í greininni og annan opinberan stuðning (t.d. alþjóðlegar auglýsingaherferðir).

Þessi mikli vöxtur hefur hins vegar algerlega brugðist því meginmarkmiði atvinnustefnu núverandi stjórnvalda „að fjölga vel launuðum störfum um land allt og styðja við hagvöxt í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði“. Ferðaþjónustan virðist falla á öllum góðum markmiðum atvinnustefnu, öðrum en því að ná örum vexti.

Ferðaþjónustunni tengjast mest láglaunastörf og lítil framleiðni. Hinn öri vöxtur greinarinnar hefur skapað gríðarlegt misvægi í samfélaginu vegna mikillar fjölgunar innflutts vinnuafls, sem setti húsnæðismarkað, heilbrigðiskerfi og skóla úr jafnvægi, með alvarlegum afleiðingum víða. Raunar óx ferðaþjónustan langt umfram getu samfélagsins til að skaffa vinnuafl og að sjá því fyrir viðunandi húsnæði og þjónustu hvers konar til að inngilda innflytjendur í samfélagið.

Þessu hefur einnig fylgt mjög aukið álag á umhverfi víða á landinu. Síðast en ekki síst hefur mikið vantað upp á að þróun innviða hafi haldið í hinar auknu þarfir sem vöxtur ferðaþjónustunnar hefur skapað. Þannig hefur safnast upp innviðaskuld í samfélaginu svo nemur mörg hundruðum milljarða. Það á við á mörgum sviðum; í samgöngukerfi, heilbrigðiskerfi, skólakerfi og almannatryggingum. Með þessu hefur verið grafið undan gæðum og virkni samfélagsins.

Á vinnumarkaði hefur vöxtur ferðaþjónustunnar ekki einungis tengst mikilli fjölgun láglaunastarfa heldur einnig aukinni brotastarfsemi gegn vinnuaflinu. Ferðaþjónustan hefur þannig grafið undan heilbrigði vinnumarkaðarins og réttindastöðu láglaunafólks, sem grefur undan stöðugleika.

Árangursríkur vöxtur ferðaþjónustunnar hefur þannig skapað margvísleg vandamál í samfélaginu og fellur greinin á nær öllum gæðaviðmiðum góðrar atvinnustefnu. Af þessu þarf að draga lærdóm fyrir frekari útfærslu á atvinnustefnu hjá núverandi stjórnvöldum.

Mikilvægi innviðanna

Af framansögðu er ljóst að mesta þörfin fyrir uppbyggingu í atvinnulífinu sem stjórnvöld þurfa að koma að tengist eflingu innviða hvers konar, efnahagslegra og félagslegra. Óháð þeirri miklu innviðaskuld sem hér hefur safnast upp á undanförnum árum þá eru öflugir innviðir ætíð mikilvægir, bæði til að skapa atvinnulífinu mikinn þrótt og til að bæta lífskjör þegnanna og virkni samfélagsins.

Samtök iðnaðarins (SI) lýsa mikilvægi öflugra innviða þannig í umsögn sinni um atvinnustefnuáform stjórnvalda:

„Öflugir og traustir innviðir eru hryggjarstykkið í nútíma þjóðfélagi og algjör forsenda fyrir samkeppnishæfu atvinnulífi. Fyrir íslenskan iðnað eru gæði innviða ekki aukaatriði heldur grundvallarþáttur í allri virðiskeðjunni, allt frá öflun hráefna til afhendingar fullunninnar vöru eða þjónustu. Samtökin líta svo á að fjárfesting í innviðum sé ein mikilvægasta fjárfesting sem stjórnvöld geta ráðist í til að tryggja hagvöxt, nýsköpun og bætt lífskjör til framtíðar.“

Undir þetta tekur Efling stéttarfélag.

Öflug uppbygging innviða hefur bæði jákvæð efnahagsleg og félagsleg áhrif, eykur samkeppnishæfni, framleiðni og verðmætasköpun almennt. Bætir forsendur frekari hagvaxtar og bættra lífskjara. Tryggja þarf samhliða réttindi og heilbrigði á vinnumarkaði og leggja sérstaka áherslu á bætt kjör og tækifæri þeirra lægst launuðu – búa til betur launuð störf.

Vegna langvarandi aðhalds og niðurskurðar í opinberum rekstri hefur víða verið gripið til undirmönnunar, til dæmis í heilbrigðisþjónustu, á leikskólum og í umönnun hvers konar. Það hefur dregið úr gæðum þjónustu og aukið álag á starfsfólk, sem oft er á lágum launum. Þannig hafa félagslegir innviðir víða veikst og skaðað virkni samfélagsins. Það hefur rýrt lífskjör bæði þeirra sem veita þjónustuna og hinna sem hennar eiga að njóta. Þessarar þróunar hefur einnig gætt á almennum markaði með hliðstæðum afleiðingum. Efling félagslegra innviða er því ekki síður mikilvæg en efling efnahagslegra innviða.

Lagfæring samgöngukerfis, húsnæðismarkaðar, heilbrigðiskerfis, skóla, og annarra samfélagslegra innviða styrkir forsendur fyrir sjálfbærri framþróun atvinnulífs, aukningu hagvaxtar og farsælli virkni samfélagsins.

Stefnt er að því að drög að atvinnustefnu fyrir Ísland til 2035 verð birt í samráðsgátt stjórnvalda í október næstkomandi. Efling stéttarfélag mun þá skila umsögn sinni um þingmálið. Efling stéttarfélag væntir þess einnig að ríkisstjórn Íslands og nýskipað atvinnustefnuráð muni óska eftir samráði við félagið varðandi mótun atvinnustefnunnar.

Hliðsjónarefni:

Werner Raza (2025): „Industrial Policy Must Include Workers and Citizens“, í Social Europe, ágúst hefti.

Mariana Mazzucato og Dani Rodrik (2024): „Industrial Policy with Conditionalities.“ Institute for Innovation and Public Policy, London (https://www.ucl.ac.uk/bartlett/sites/bartlett/files/-industrial_policy_with_conditionalities_a_taxonomy_and_sample_cases.pdf).

Samtök iðnaðarins (SI), „Umsögn um atvinnustefnuáform stjórnvalda 2025.“