Aðför stjórnvalda að lífeyrissréttindum verkafólks 

Efling mun ekki taka þátt í neinu samráði um breytingar kerfi jöfnunar örorkubyrði milli lífeyrissjóða nema stjórnvöld tryggi framlag til fullrar jöfnunar að minnsta kosti út árið 2026, svo tími gefist til að þróa nýja leið til að jöfnunar. Áform ríkisstjórnarinnar um afnám framlags ríkisins til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóðanna, fullkomlega án samráðs við hagsmunaaðila og án nokkurra áætlanna um hvernig ná megi viðlíka jöfnun, er fullkomlega óásættanlegt.

Þetta er inntakið í umsögn Eflingar um afnám jöfnunarframlags vegna mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóða, sem send hefur verið fjárlaganefnd Alþingis. Verkafólki og öðru erfiðisvinnufólki er hættari við heilsumissi en öðrum, sem leiðir til þess að lífeyrissjóðir þess bera hærri örorkubyrði en lífeyrissjóðir annarra starfsstétta. Það þýðir að réttindi annarra sjóðsfélaga eru rýrari í þeim lífeyrissjóðum, sem nemur hundruðum þúsunda á ársgrundvelli.

Þessu var mætt árið 2005 með þeim hætti að samkomulag náðist um að ríkið myndi leggja til framlag til að jafna örorkubyrði milli lífeyrissjóða. Nú hyggjast stjórnvöld afnema það framlag án nokkurra bóta. Það er ólíðandi og Efling mun ekki sitja hjá aðgerðalaus. 

Umsögn Eflingar má lesa hér að neðan. 

Aðför að lífeyrisréttindum verkafólks

Umsögn Eflingar um afnám jöfnunarframlags vegna mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóða

Erfiðisvinnufólk (mest verkafólk og sjómenn) býr alla jafna við þannig vinnuskilyrði að hætta á slysum eða heilsumissi er meiri en hjá öðrum starfsstéttum. Þar eð lífeyrissjóðir með skylduaðild eru tengdir starfsstéttum skiptist örorkubyrði mjög misjafnlega milli sjóðanna. Þetta þýðir að lífeyrissjóðir þar sem verkafólk er meirihluti meðlima þurfa að verja stærri hluta fjár síns til greiðslu örorkulífeyris en aðrir sjóðir. Það rýrir réttindi ellilífeyrisþega í sömu sjóðum.

Lífeyrissjóðir með mestu örorkubyrði eru Gildi, Festa, Stapi, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Lífeyrissjóður Rangæinga. Gildi er stærstur þessara sjóða og með mestu örorkubyrðina.

Þessi munur milli lífeyrissjóða þýðir að lífeyrissjóðir verkafólks og sjómanna geta ekki greitt almennum sjóðfélögum sínum jafn háan ellilífeyri og sjóðir með minni örorkubyrði, sem nemur tugum þúsunda á mánuði, ef ekkert er gert til að jafna þennan mun á örorkubyrði.

Forsaga málsins

Vegna þess mikla óréttlætis sem í þessu felst var gert samkomulag milli bakhjarla lífeyrissjóðanna (Samtaka launafólks í ASÍ og Samtaka atvinnurekenda) og ríkisvaldsins árið 2005 um að ríkið myndi leggja til árlegt framlag til að jafna örorkubyrðina milli lífeyrissjóða. Framlagið var fjármagnað með 3,25% álagi á gjaldstofn tryggingagjaldsins, sem leggst á launagreiðslur atvinnurekenda.

Á síðasta ári lækkaði þáverandi ríkisstjórn framlagið og tilkynnti um fyrirhugað afnám þess á árinu 2026. Núverandi stjórnvöld virðast ætla að halda sér við þau áform og er því ekki gert ráð fyrir fjárveitingu í þennan lið á fjárlögum ársins 2026.

Þetta er gert án nokkurs samráðs við samtök launafólks og samtök atvinnurekenda og án þess að fyrir liggi annað fyrirkomulag sem geti náð markmiðum um fulla jöfnun örorkubyrði milli lífeyrissjóða. Það að stjórnvöld rifti með þessum hætti samkomulagi sem gert var í tengslum við kjarasamninga 2005 er óviðunandi.

Afleiðingar

Ef jöfnunarframlagið fellur niður við óbreytta skipan munu sjóðfélagar Gildis fá um 50 þúsund krónum minna í ellilífeyrisgreiðslur á mánuði en sjóðfélagar þeirra sjóða sem minnsta örorkubyrði hafa. Þetta jafngildir um 600 þúsund krónum á ári.[1]

Slíkt misrétti er með öllu óverjandi og grefur stórlega undan þeirri samstöðu sem ríkt hefur um lífeyrissjóðakerfið og raskar að auki sjálfbærni lífeyrissjóða verkafólks. Afleiðingar afnámsins myndu leggjast með mestum þunga á verkakonur.

Efling mun ekki taka þátt í neinum samráðum um breytingar á kerfinu nema stjórnvöld tryggi nú framlag til fullrar jöfnunar á örorkubyrði að minnsta kosti út árið 2026, svo tími gefist til að þróa nýja skipan með fullri jöfnun á örorkubyrði ólíkra lífeyrissjóða.


[1] Miðað er við 550 þús kr. mánaðarlaun við 25 ára aldur með hóflegum hækkunum fram til 65 ára. Réttindi til ellilífeyrisgreiðslna hjá Gildi, stærsta lífeyrissjóði verkafólks og sjómanna, munu lækka um 5,5% ef jöfnunarframlagið verður fellt niður án þess að nýtt jöfnunarfyrirkomulag komi til sögunnar.