Atkvæðagreiðsla um breytingu á kjarasamningi Eflingar við hjúkrunarheimili hafin

29. 10, 2025

Atkvæðagreiðsla um tillögu ríkissáttasemjara til lausnar kjaradeilu Eflingar við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) hófst á hádegi í dag, 29. október. Atkvæðagreiðslan stendur til hádegis fimmtudaginn 6. nóvember. 

Deilur hafa staðið um efndir SFV á ákvæðum kjarasamningsins síðustu mánuði. Efling tilkynnti uppsögn samningsins í febrúar síðastliðnum sökum þess að forsenduákvæðum hans hefði ekki verið mætt. Ríkissáttasemjari lagði í síðustu viku fram innanhúss tillögu til lausnar deilunni og samþykkti samninganefnd Eflingar hana 24. október síðastliðinn.

Í tillögunni felst að kjarasamningurinn sjálfur heldur gildi sínu, líkt og áætlað var, til 31. mars 2028. Breytingar verði hins vegar gerðar á samningnum, meðal annars með því að gerðar verða grunnlaunabreytingar sem hækka laun starfsfólks hjúkrunarheimilanna um á bilinu 7.500 til 20.300, misjafnt eftir störfum, starfsaldri, menntun og ábyrgð. Launahækkanir taka gildi afturvirkt fá 1. júlí síðastliðnum og eiga að greiðast út með útborguðum launum 1. desember næstkomandi. 

Þá verða starfsheitin hópstjóri, verkstjóri, flokksstjóri og vaktstjóri hluti af stofnanasamningum, framboð á fagnámskeiðum verður aukið og lagt verður af stað í virðismatsvegferð á störfum. 

Kynningarfundur um tillöguna verður haldinn fimmtudaginn 30. október í Félagsheimili Eflingar í Guðrúnartúni 1, 4. hæð. Fundurinn hefst klukkan 17:00 en húsið opnar klukkan 16:30 og boðið verður upp á léttar veitingar. Fundurinn fer fram á íslensku og ensku. Félagsfólk Eflingar sem starfar á hjúkrunarheimilum er hvatt til að mæta á fundinn en jafnframt beðið um að skrá sig á hann á Mínum síðum Eflingar.