
Reykjavíkurborg hefur kynnt svokallaða leikskólaleið, tillögur að breytingum á starfsumhverfi leikskóla borgarinnar. Þær varða meðal annars dvalartíma barna, skipulag leikskólastarfs og gjaldskrá.
Af þessu tilefni mun Efling efna til könnunar meðal þeirra fjölmörgu félagsmanna sem starfa á leikskólum borgarinnar. Markmiðið er að fá fram skoðanir þeirra og tryggja að sjónarmið leikskólafólks verði í fyrirrúmi þegar Efling skilar inn umsögn sinni um tillögurnar í samráðsferli á næstu dögum.
Um 1.200 félagsmenn Eflingar starfa á leikskólum Reykjavíkurborgar og eru þeir allir sem einn hvattir til að taka þátt í könnuninni. Hún verður aðgengileg á Mínum síðum Eflingar, undir flipanum kosning/könnun. Tölvupóstur verður sendur á alla sem hafa skráð netfang á Mínum síðum Eflingar. Könnunin er ópersónugreinanleg og allir Eflingarfélagar sem starfa á leikskólum geta tekið hana, hvort sem þeir fá tölvupóst eður ei.
Það er lykilatriði að raddir Eflingarfélaga á leikskólum Reykjavíkurborgar heyrist hátt og skýrt varðandi þær breytingar sem boðaðar eru. Efling mun byggja sinn málflutning á raunverulegri afstöðu leikskólafólks – nú sem fyrr.
Eflingarfélagar eru því hvattir til að taka þátt í könnuninni, sem opnar að morgni föstudagsins 10. október, og lýkur 17. október. Látum okkar rödd í Reykjavík heyrast!