
Agnieszku Górka, sigurvegara ljósmyndasamkeppni Eflingar árið 2025, voru í morgun veitt verðlaun fyrir mynd sína, í húsakynnum félagsins. Mynd Agnieszku af lunda á Borgarfirði eystri vakti sérstaka athygli dómnefndar og þótti skara fram úr þeim fjölmörgu ljósmyndum sem sendar voru í keppnina þetta árið.
Þetta er í fyrsta sinn sem Agnieszka vinnur til verðlauna í keppninni en hún hefur áður tekið þátt með góðum árangri. Þannig hlaut hún heiðurstilnefningu fyrir tvær myndir í samkeppninni á síðasta ári, 2024.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og formaður dómnefndar ljósmyndasamkeppninnar, afhenti Agnieszku verðlaunin, 50 þúsund króna peningaverðlaun. Hér að neðan má sjá verðlaunamynd Agnieszku. Efling óskar henni hjartanlega til hamingju.