Meirihluta Eflingarfélaga líst vel á leikskólaleið Reykjavíkurborgar 

20. 10, 2025

Dagana 10.-17. október efndi Efling stéttarfélag til könnunar um tillögur Reykjavíkurborgar um breytt skipulag á starfsemi leikskóla. Könnunin var framkvæmd meðal leikskólastarfsmanna innan Eflingar, og fengu 1.150 félagsmenn hana senda. 

Niðurstöður liggja nú fyrir. Alls tóku 594 þátt og var svarhlutfall því tæp 52% sem er góð þátttaka. 

Rúmlega helmingur svarenda er jákvæður gagnvart tillögunum, þ.e. líst vel eða mjög vel á þær. Tæp 19% eru neikvæð, þ.e. líst illa eða mjög illa á þær. Rúmur fimmtungur er hlutlaus. 

Þegar spurt er beint út í væntingar til árangurs af tillögunum eru svarendur einnig fremur jákvæðir en hitt. Tæplega helmingur er frekar eða mjög sammála því að tillögurnar muni ná markmiðum sínum, á meðan um fjórðungur er frekar eða mjög ósammála því. Um 17% eru hlutlaus. 

Jafnframt var boðið upp á opna spurningu um hvaða umbætur svarendur teldu brýnastar í starfsemi leikskóla. Í svörum kemur fram að starfsfólk leikskóla hefur verulegar og djúpstæðar áhyggjur af grundvallarþáttum í starfseminni. Yfirgnæfandi meirihluti svaranna snýr að manneklu og því gríðarlega álagi sem henni fylgir. Þetta eru langstærstu og brýnustu úrlausnarefnin að mati svarenda. 

Tæplega þrír af hverjum fjórum svarendum hafa kynnt sér tillögur borgarinnar nokkuð eða mikið, sem bendir til þess að svarendur byggi svör sín á þekkingu. 

„Það er frábært að sjá hátt þátttökuhlutfall í könnuninni okkar og það kemur mér ekki á óvart að Eflingarfélagar séu jákvæðir fyrir breytingum í þessa átt. Nú hefur Reykjavíkurborg dýrmætt tækifæri til að ganga í takt við starfsfólk í þágu betra og öruggara leikskólaumhverfis. Ég hvet meirihlutann til að eiga samráð við okkur um frekari útfærslur og þróun á þessum tillögum,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.