Þrettán þúsund Eflingarfélagar lifa við fátækt

21. 10, 2025

Um 40 prósent Eflingarfélaga búa við skort á efnislegum og félagslegum gæðum, með öðrum orðum lifa þau við fátækt. Staða Eflingarfélaga er verulega mikið verri en staða félagsfólks í öðrum aðildarfélögum ASÍ og BSRB, en um 20 prósent þeirra búa við viðlíka skort. 

Þetta kemur fram í skýrslu Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, um stöðu launafólks á Íslandi. Niðurstöðurnar sýna skýrt að fjárhagsstaða Eflingarfélaga er almennt mun lakari en annars félagsfólks stéttarfélaganna. 

Alls eiga rúm 45 prósent Eflingarfélaga erfitt með að ná endum saman, og þar af eiga tæp 8 prósent mjög erfitt með það. Til samanburðar eiga 28 prósent félagsfólks annarra félaga innan ASÍ og BSRB erfitt meða að ná endum saman, þar af  eru 3,5 prósent sem eiga mjög erfitt með það.

Aðeins rúm 40 prósent félagsfólks Eflingar telja sig geta mætt óvæntum 100 þúsund króna útgjöldum, án þess að þurfa að stofna til skulda. Annað launafólk telur sig mun betur sett hvað þetta varðar, en tæplega 64 prósent þess telja að þau geti mætt slíkum útgjöldum. 

Fjórðungur hefur ekki efni á staðgóðri máltíð annan hvern dag

Sé litið til þess sem flokkað er efnislegur skortur í heimilsrekstri kemur fram mjög skýr munur á stöðu Eflingarfélaga og félaga annarra stéttarfélaga innan ASÍ og BSRB, Eflingarfélögum mjög í óhag.

  • 27% Eflingarfélaga hafa ekki aðgang að bíl, borið saman við 7% annars launafólks.
  • 24% Eflingarfélaga hafa ekki efni á kjöti eða fiski annan hvern dag, borið saman við 12% annars launafólks.
  • 25% Eflingarfélaga getur ekki greitt alla reikninga á eindaga, borið saman við 8% annars launafólks. 
  • 52% Eflingarfélaga getur ekki skipt út slitnum húsgögnum, borið saman við 30% annars launafólks.
  • 36% Eflingarfélaga hafa ekki efni á árlegu vikufríi að heiman, borið saman við 23% annars launafólks. 

Tæpur fimmtungur Eflingarfélaga á ekki tvö skópör

Þegar kemur að því sem flokkað er sem efnislegur skortur einstaklinga lagast staðan síst varðandi mun á stöðu Eflingarfélaga samanborið við félagsmenn í öðrum stéttarfélögum innan ASÍ og BSRB. 

  • 17% Eflingarfélaga á ekki tvö pör af skóm, þar sem aðrir eru vatnsheldir, borið saman við 8% annars launafólks.
  • 23% Eflingarfélaga geta ekki skipt út slitnum fatnaði, borið saman við 9% annars launafólks.
  • 53% Eflingarfélaga hafa ekki efni á að sinna tómstundum eða áhugamáli, borið saman við 33% annars launafólks.
  • 41% Eflingarfélaga geta ekki varið smávegis pening í sjálfa sig vikulega, borið saman við 33% annars launafólks.
  • 44% Eflingarfélaga hafa ekki efni á að hitta vini eða fjölskyldu í drykk eða mat mánaðarlega, borið saman við 34% annars launafólks.

Yfir sjö þúsund Eflingarfélaga líða verulegan skort

Við mat á því hvort fólk búi við skort á efnis- og félagslegum gæðum er dregið saman í hversu mörgum þáttum fólk líður skort. Búi fólk við skort í 5-6 liðum, af þrettán, telst það líða almennan skort en séu liðirnir 7 eða fleiri er um verulegan skort að ræða.

  • 20% Eflingarfélaga búa ekki við neinn skort, borið saman við 38% annars launafólks.
  • 17% Eflingarfélaga búa við almennan skort, borið saman við 11% annars launafólks.
  • 22% Eflingarfélaga búa við verulegan skort, borið saman við 10% annars launafólks.

Í ljósi framangreinds er ljóst að staða Eflingarfélaga í íslensku samfélagi er bæði alvarleg og verulega mikið verri en annars launafólks. Það er engin leið til að sykurhúða það neitt, niðurstöður könnunar Vörðu sýna að um 13.000 Eflingarfélagar eru fastir í fátæktargildru og skortir bæði efnisleg og félagsleg gæði. Þar af líða ríflega 7.000 verulegan skort. Þá er staða um það bil 5.000 annarra Eflingarfélaga brothætt og lítið þarf út af að bera til að þeir sogist einnig niður í sömu  fátæktargildruna.