Verkakonur verða ekki frjálsar nema með sameiginlegri stéttabaráttu

24. 10, 2025

„Verkakonur verða aldrei frjálsar undan arðráni ef við látum sem vandamálin sem plaga líf þeirra séu persónubundin,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í erindi um stöðu aðfluttra Eflingarkvenna. Erindið flutti Sólveig Anna á málþinginu Nútíma kvennabarátta – Staða kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði, sem ASÍ stóð fyrir í tilefni af Kvennaverkfalli 2025. Í erindinu ræddi hún um stéttaskiptingu, arðrán og baráttu verkakvenna fyrir réttlæti og hafnaði þeirri sýn að aðflutt fólk beri ábyrgð á eigin stöðu á vinnumarkaði.

„Vandinn er ekki fólkið sjálft“

„Verkakonur verða aldrei frjálsar undan arðráni ef við látum sem vandamálin sem plaga líf þeirra séu persónubundin,“ sagði Sólveig Anna.
Hún gagnrýndi þá hugmynd að aðflutt fólk „festist“ í láglaunastörfum vegna menntunar eða tungumálakunnáttu. Slík umræða, sagði hún, „útbýr afsökun fyrir stjórnmálafólk og atvinnurekendur til að viðurkenna ekki að hið raunverulega vandamál er kerfislægt“.

„Vandinn er ekki fólkið sjálft heldur arðránskerfið sem byggir á vinnu ómissandi kvenna í grunnstörfum,“ sagði Sólveig Anna. „Það veit valdastéttin, og verkalýðshreyfingin veit það líka – þótt hún vilji kannski ekki horfast í augu við það.“

Frjálst flæði vinnuafls – aðferð til að halda launum niðri

Sólveig Anna sagði frjálst flæði vinnuafls innan Evrópu hafa verið notað til að tryggja hagsmuni kapítalista.
„Frjálst flæði snýst um að skapa aðgengi fyrir eigendur atvinnutækjanna að stórum hópi fjölþjóðlegs vinnuafls sem bókstaflega þarf að flytja á milli landa til að finna stað þar sem vinnu er að fá,“ sagði hún. „Módelið vill geta fært til stóra hópa vinnandi fólks á milli þjóðríkja – líkt og menn á taflborði.“

„Þjóðfélagsleg frelsun kvenna hvílir á arðráni kvenna“

Hún gagnrýndi hugmyndina um norræna jafnréttisparadís:
„Þjóðfélagsleg frelsun kvenna hvílir á arðráni og ofurálagi kvenna. […] Vinnumarkaðurinn reiðir sig á misnotkun á einni kvennastétt – stétt lágt verðlagðra kvenna með lágt samfélagslegt virðingarstig,“ sagði hún.

Efling byggir afl sitt neðan frá

Sólveig Anna lýsti því hvernig Efling hefði valið að byggja upp félagið frá grasrótinni:
„Við trúum raunverulega á inngildingu. Við höfnum því að vera skrifstofuvirki sem hræðist lýðræðislega þátttöku meðlima. Allt sem við gerum byggir á skoðunum og sýn Eflingarfólks.“

Hún vitnaði í rannsóknir sem sýna að félagsfólk upplifir Eflingu sem sitt samfélag og að styrkur félagsins byggist „neðan frá“.

Eflingarfólk berst saman

Í lokin hvatti hún til samstöðu innan stéttar verkafólks:
„Við höfum séð að árangur næst með því að gera gagnstæða. Það eru ekki Eflingarkarlar sem hafa verið í viðvarandi taugaveikikasti frá því að krónutölusamningarnir 2019 leiddu til þess að kaupmáttur kvenna og innflytjenda jókst mest,“ sagði hún.

„Íslensk Eflingarkona stendur með aðfluttri Eflingarkonu, og Eflingarkonur og -karlar standa saman og berjast saman.“