
Eflingarfélagar, sem starfa á hjúkrunarheimilum, hafa samþykkt breytingu á kjarasamningi Eflingar við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Kosningu um breytingarnar lauk í gær, 6. nóvember og voru breytingarnar samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða.
Deilur höfðu staðið um nokkurra mánaða skeið um efndir SFV á samningnum en Efling tilkynnti uppsögn hans í febrúar síðastliðnum vegna þess að forsenduákvæði hans höfðu ekki verið uppfyllt. Ríkissáttasemjari lagði fram innanhúss tillögu í lok október til lausnar deilunni, sem samninganefndir beggja aðila sættust á.
Niðurstaða kosningarinnar var að um 94 prósent þeirra sem greiddu atkvæði samþykktu breytingar á kjarasamningnum. Tæplega 4 prósent voru þeim andvíg og rúm 2 prósent tóku ekki afstöðu. Ríflega 18 prósenta þáttaka var í kosningunni, sem telst góð þátttaka í atkvæðagreiðslu um kjarasamninga.
Með því að tillagan var samþykkt hækka laun starfsfólks á hjúkrunarheimilum um á bilinu 7.500 til 20.300 krónur á mánuði, mismunandi eftir störfum, starfsaldri, menntun og ábyrgð. Launahækkanir eru afturvirkar frá 1. júlí síðastliðnum og verða greiddar út um næstu mánaðamót.
Efling fagnar því að lausn hafi náðst í kjaradeilunni, sem er félagsfólki hagfelld og inniber kjarabætur en jafnframt úrbætur á starfsaðstæðum starfsfólks hjúkrunarheimilanna.