
Efling stéttarfélag hefur fengið aðild sína að UNI Global Union, alþjóðlegum samtökum verkalýðsfélaga í þjónustu- og umönnunargeirum, samþykkta. Aðild Eflingar var veitt á fundi framkvæmdastjórnar samtakanna, sem haldinn var í Nyon í Sviss dagana 12. og 13. nóvember 2025. Aðild Eflingar tekur gildi 1. janúar 2026.
Í bréfi frá Alke Boessiger, aðstoðarframkvæmdastjóra UNI Global Union, kemur fram að samtökin bjóði Eflingu innilega velkomna og hlakki til nánara samstarfs á komandi árum. Þar er jafnframt lýst yfir vilja UNI til að styðja við starfsemi Eflingar og efla sameiginlega baráttu fyrir réttindum og kjörum launafólks.
UNI Global Union eru, sem fyrr segir, alþjóðleg samtök stéttarfélaga, sem samanlagt hafa yfir 20 milljónir félagsmanna innan sinna raða. Stéttarfélögin sem eiga aðild að samtökunum starfa í yfir 150 löndum um allan heim.
Með inngöngunni styrkir Efling tengsl sín við öflugt net systursamtaka og fær aðgang að alþjóðlegri þekkingu, sameiginlegum herferðum og tækifærum til að hafa áhrif á þróun vinnumarkaðar á heimsvísu. Aðild Eflingar að UNI Global Union er því mikilvægt skref í áframhaldandi baráttu félagsins fyrir hagsmunum og réttindum félagsfólks.