Efling kynnir nýja reiknivél fyrir desemberuppbót

14. 11, 2025

Á vef Eflingar stéttarfélags er nú aðgengileg ný reiknivél sem gerir félagsfólki kleift að reikna út desemberuppbót sína á einfaldan og skjótan máta. Þetta er þriðja reiknivélin sem félagið setur í loftið, þær fyrri reiknivélar fyrir orlofsuppbót og laun.

Ákvæði um desemberuppbót eru mismunandi eftir kjarasamningum og upphæðir sömuleiðis. Því þarf að byrja á að velja þann kjarasamning sem hver Eflingarfélagi vinnur eftir þegar reiknivélin er notuð. Þá þarf einnig að velja starfshlutfall og þann tíma á árinu sem viðkomandi hefur unnið. Greiða skal desemberuppbót ýmist 1. desember eða ekki síðar en 15. desember, mismunandi eftir kjarasamningum. 

Nýja reiknivélin er liður í áframhaldandi vinnu Eflingar við að einfalda félagsfólki aðgengi að upplýsingum um réttindi sín, og tryggja skýra yfirsýn hvar og hvenær sem er. Hún nýtist jafnframt launagreiðendum sem vilja tryggja að desemberuppbót starfsmanna sé rétt reiknuð.