Gjaldþrot atvinnurekenda

Gildandi lög:

Lög nr. 88/2003, um Ábyrgðarsjóð launa.

Reglugerð 377/2024 um hámark ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa.

Lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Markmið laga: að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot atvinnurekanda eða þegar dánarbú hans er til opinberra skipta og erfingjar ábyrgjast ekki skuldbindingar.

Hvað er gjaldþrot:

  • Gjaldþrot er þegar fyrirtæki/einstaklingur getur ekki greitt skuldir sínar eða staðið við aðrar skuldbindingar sínar lengur. Ef eignir eru til staðar er andvirði þeirra notað til að greiða skuldir.
  • Fyrirtæki sem er komið í greiðsluþrot þarf ekki að vera formlega gjaldþrota.
  • Undanfari gjaldþrots – t.d. árangurslaust fjárnám – yfirlýsing um eignaleysi skv. gjaldþrotalögum
  • Þegar fyrirtæki er úrskurðað gjaldþrota fer í gang ákveðið ferli, gjaldþrotaskipti, sem miðar að því að sannreyna eignir fyrirtækisins og skipta þeim á milli kröfuhafa eftir ákveðnum reglum.

Aðstoð við félagsfólk – Efling

  • Efling aðstoðar félagsfólk sitt við að lýsa kröfu fyrir útistandandi launum og áunnum réttindum í þrotabúið.
  • Mikilvægt er að félagsfólk bregðist fljótt við og komi með viðeigandi gögn til okkar sem fyrst, því tíminn til að lýsa kröfum í þrotabúið er takmarkaður.

Gögn fyrir kröfulýsingu:

  • Launaseðlar sl. 6 -12 mánuði.
  • Ráðningarsamningur
  • Bankayfirlit a.m.k. 6 mánuði aftur í tímann sem sýnir millifærslur frá fyrirtækinu.
  • Tímaskýrslur
  • Staðgreiðsluyfirlit frá RSK
  • Uppsagnarbréf ef við á
  • Samskipti við vinnuveitanda
  • Önnur gögn sem skipt geta máli, t.d. læknisvottorð.

Gjaldþrotaskiptaferlið:

  • Héraðsdómur kveður upp úrskurð um gjaldþrot  fyrirtækis/einstaklings og skipar skiptastjóra.
  • Þrotabúið  tekur við öllum réttindum og skyldum hins gjaldþrota fyrirtækis, sem hefur þá ekki lengur rétt til að ráðstafa eignum, greiða skuldir,  taka við greiðslum eða stofna til skuldbindinga.
  • Skiptastjórinn fer með öll völd í þrotabúinu og annast alla vinnu í kringum það.
  • Ráðningarsambandi lýkur við uppkvaðningu úrskurðar, riftun, og á launamaður rétt til uppsagnarfrests .
  • Yfirleitt hafa fyrirtæki hætt starfsemi og lokað fyrir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar. Stundum kemur fyrir að starfsemi heldur áfram eftir gjaldþrotaskipti.
  • Þrotabúið tekur í raun við ráðningarsamningum við starfsfólk hins gjaldþrota fyrirtækis. –
  • Skiptastjóri lýsir eftir kröfum í þrotabúið með því að birta auglýsingu í Lögbirtingablaðinu – INNKÖLLUN. 
  • Kröfulýsingarfresturinn er tveir mánuðir frá dagsetningu fyrri auglýsingar skiptastjóra í Lögbirtingablaðinu.
  • Að loknum kröfulýsingarfrestinum fer skiptastjóri yfir lýstar kröfur og útbýr kröfuskrá.
  • Á grundvelli þeirra gagna sem fylgja kröfulýsingunni ákveður skiptastjóri hvort að hann samþykkir kröfuna eða hafnar henni. Þess vegna er mikilvægt að skila inn öllum umbeðnum gögnum.
  • Vinna skiptastjóra við búið, kemur eignum í verð og skiptir andvirðir þeirra á milli kröfuhafa eftir ákveðnum reglum.
  • Skiptalok 6-12 mánuðum eftir úrskurðardag, oft taka búskiptin lengri tíma.  

Ábyrgð sjóðsins tekur til eftirfarandi krafna:

  • Kröfu um vinnulaun fyrir síðustu 3 starfsmánuði í þjónustu atvinnurekanda.
  • Kröfu um bætur vegna launamissis í allt að 3 mánuði vegna slita á ráðningarsamningi.
  • Kröfu um orlofslaun sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir úrskurðardag.
  • Kröfu lífeyrissjóðs um lífeyrisiðgjöld.
  • Kröfu um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss og kröfu þess sem tilkall á til bóta vegna dauðsfalls launamanns, enda taki tryggingar vinnuveitanda ekki til bótakröfunnar.

Ábyrgð sjóðsins er háð því skilyrði að kröfur starfsmanna hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur af skiptastjóra þrotabús. Skiptastjóri er skipaður af héraðsdómi að kröfu lánardrottna sem að jafnaði eru skattyfirvöld, lánastofnanir eða lífeyrissjóðir.

Launakröfur eru forgangskröfur við gjaldþrot fyrirtækja sem þýðir að slíkar kröfur eru greiddar fyrst séu einhverjar eignir fyrir hendi í þrotabúinu. Ef þrotabúið er hins vegar eignalaust eru launakröfur tryggðar hjá Ábyrgðasjóði launa.

Hámarksábyrgð og aðrar greiðslur

Hámarksábyrgð vegna vangoldinna launa eða bóta vegna slita á ráðningarsamningi, sem gjaldfalla frá og með 1. apríl 2024 er 850.000 kr. fyrir hvern mánuð, sbr. reglugerð nr. 377/2024.

Hafi atvinnurekandi greitt upp í launakröfurnar fyrir gjaldþrotaúrskurð koma þær greiðslur til frádráttar. Á sama hátt koma greiddar atvinnuleysisbætur og atvinnutekjur á uppsagnarfresti til frádráttar kröfum um bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti.

Ábyrgðasjóði launa ber skylda til að reikna staðgreiðslu skatta af launakröfum og kröfum um bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti og skila til innheimtumanns í samræmi við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eigi launamaður ónýttan persónuafslátt á því ári sem afgreiðsla fer fram er hægt að nýta hann til frádráttar reiknaðri staðgreiðslu.

Framkvæmdastjóri/stjórnarmenn

Kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna njóta ekki ábyrgðar. Sama gildir um eigendur að verulegum hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki.

Þá er heimilt að hafna kröfum maka og annarra skyldmenna framkvæmdastjóra, stjórnarmanna eða eigenda ef sýnt er að kröfur þeirra eru óréttmætar með tilliti til þessara tengsla.

Orlofslaunakröfur án gjaldþrotaskipta

Ábyrgðasjóður ábyrgist greiðslu orlofslauna samkvæmt orlofslögum í þeim tilvikum sem vinnuveitandi hefur ekki staðið skil á greiðslu þeirra, án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Ábyrgð sjóðsins nær til greiðslu orlofs sem áunnist hefur á síðustu 18 mánuðum.

Vinnumálastofnun

Launþegi þarf að skrá sig atvinnulausan hjá Vinnumálastofnun um leið og fyrirtækið verður gjaldþrota og hann missir starf sitt hjá því. Slík skráning er meðal annars forsenda þess að Ábyrgðasjóður launa greiði út launakröfu vegna óunnins uppsagnarfrests hjá gjaldþrota fyrirtæki.