Reglugerð um skipun og störf trúnaðarmanna Eflingar

Ath. þessi útgáfa reglugerðarinnar gildir yfir þessa útgáfu ef mögulegar villur eru á þessari síðu. 

Uppfærð 16. maí 2024

I: Almenn ákvæði

1. gr.

1.1

Um störf trúnaðarmanna Eflingar - stéttarfélags fer samkvæmt gildandi landslögum, kjarasamningum sem við eiga og lögum félagsins, sem ganga framar ákvæðum reglugerðar þessarar komi til misræmis þar á milli. (1)


(1) Ákvæði í lögum Eflingar um trúnaðarmenn er í 17. gr. Þar er áréttað a) hlutverk þeirra sem „tengiliðir milli félagsstjórnar og starfsmanna félagsins og þess verkafólks sem vinnur á viðkomandi vinnustað“, b) að þeir skuli kosnir þar sem því verður komið við, c) að erindisbréf skuli gefið út, d) að trúnaðarmenn hafi skyldu til að gegna eftirliti með lögum og samningum og e) að félaginu sé skylt að veita þeim aðstoð í störfum sínum. Þessi reglugerð er að stórum hluta hugsuð sem nánari útfærsla á ákvæðum 17. gr. laga Eflingar. Grein reglugerðarinnar áréttar einnig annan lagalega grunn sem störf trúnaðarmanna byggja á þ.e.a.s lög nr. 80/1938 og kjarasamninga félagsins, og að reglugerðin er viðauki þar við. Áréttað að ef um er að ræða árekstur milli reglugerðarinnar og laga, kjarasamninga eða laga félagsins þá er reglugerðin víkjandi. Slíkt gæti skipt máli t.d. ef lög, kjarasamningar eða lög félagsins breytast.


2. gr.

2.1

Reglugerðin er sett af stjórn félagsins og skal kynnt fyrir trúnaðarráði og trúnaðarmönnum. (2)

2.3

Heimilt er að breyta reglugerð þessari eða fella hana úr gildi með bókun stjórnar og skulu slíkar breytingar kynntar í trúnaðarráði og fyrir trúnaðarmönnum.

2.4

Reglugerðin gildir ótímabundið en skal stjórn gæta þess að hún sé endurskoðuð reglulega.


(2) Skv. lögum 80/1938 liggja heimildir bæði til skipunar og umboðssviptingar trúnaðarmanna hjá stjórnum stéttarfélaga (9. og 12. gr.). Reglugerðin er m.a. hugsuð til að skilgreina hvaða mörk og viðmiðanir stjórn Eflingar styðst við gagnvart þeim heimildum; því er eðlilegt að stjórn sjálf setji reglugerðina. Fyrirvari um kynningu fyrir trúnaðarráði er settur vegna mikilvægis trúnaðarráðs í lögum Eflingar.


II: Kosning og skipun trúnaðarmanns 

3. gr.

3.1

Allir fullgildir Eflingarfélagar geta boðið sig fram í stöðu trúnaðarmanns sé hún laus. Frambjóðandi til trúnaðarmannsstöðu skal þó ekki gegna stöðu yfirmanns eða hafa mannaforráð yfir öðrum Eflingarfélögum. Hann skal jafnframt ekki hafa sagt upp starfi sínu eða vera á tímabundnum ráðningarsamningi sem rennur út innan tveggja ára frá væntanlegu upphafi skipunartíma. Undantekningu á þessu má gera á vinnustöðum þar sem tíðkast að nýráðnir starfsmenn séu á tímabundnum ráðningarsamningi.

 

4. gr.

4.1

Trúnaðarmaður er valinn af vinnufélögum sínum en telst ekki hafa tekið löglega við stöðu sinni fyrr en félagið hefur tilkynnt atvinnurekanda um skipun hans. Skrifstofa félagsins ber ábyrgð á skipun trúnaðarmanns í umboði stjórnar og lætur staðfesta hana með útgáfu skipunarbréfs (erindisbréfs). Skipunarbréf er undirritað af formanni. (3)


(3) Greinin er einfölduð umorðun á eftirfarandi ákvæði úr lögum Eflingar (17. gr.): „Stjórn félagsins er rétt og skylt að skipa trúnaðarmenn á öllum vinnustöðum þar sem fimm félagsmenn eða fleiri vinna og samningar félagsins við atvinnurekendur taka til. Trúnaðarmenn skulu kosnir af þeim félagsmönnum sem starfa á viðkomandi vinnustöðum. Félagsstjórninni er heimilt að skipa trúnaðarmenn á vinnustöðum samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur verði kosningu á vinnusvæði ekki við komið. Trúnaðarmenn skulu starfa eftir erindisbréfi er stjórn félagsins setur þeim.“ Nánar er fjallað um erindisbréf í 12. gr.


5. gr.

5.1

Félagið skal leitast við að ganga úr skugga um að trúnaðarmaður hafi umboð og stuðning vinnufélaga sinna áður en til skipunar hans kemur og að öllu félagsfólki á vinnustað hafi verið gefinn kostur á að bjóða sig fram sbr. 7. gr.

5.2

Ef fleiri en einn félagsmaður eru í framboði um sömu trúnaðarmannsstöðu skal kosið milli þeirra.

5.3

Félagið skal vera reiðubúið að aðstoða við framkvæmd kosningar, ábyrgjast lögmæti hennar og annast tilkynningu úrslita.

5.4

Kosningu má framkvæma með handauppréttingu á vinnustaðafundi, með leynilegri atkvæðagreiðslu (með kjörseðlum) á vinnustaðafundi eða með rafrænni atkvæðagreiðslu.

5.5

Félagið eða starfsfólk þess tekur ekki afstöðu í kosningu milli tveggja eða fleiri félagsmanna sem bjóða sig fram til trúnaðarmanns.

5.6

Leiki vafi á um eðlilega eða heppilega framkvæmd kosningar til trúnaðarmanns skal félaginu heimilt að efna til nýrrar kosningar áður en skipun fer fram.

 

6. gr.

6.1

Sé aðeins einn félagsmaður í framboði til stöðu trúnaðarmanns er kosningar ekki þörf, en skal þá leitast við að staðfesta umboð og stuðning vinnufélaga með öðrum leiðum t.a.m. með söfnun undirskrifta. (4) Jafnframt skal hafa verið auglýst eftir trúnaðarmanni sbr. 7. gr.


(4) Algengt er að trúnaðarmaður sé sjálfkjörinn og því strangt til tekið ekki þörf á kosningu; ákvæðið útilokar ekki að skipun trúnaðarmanns geti í slíku tilviki farið fram án kosningar. Það er til hagræðis að skapa ekki skyldu til kosningar í reglugerðinni enda eru ákvæði um kosningu í lögum Eflingar og kjarasamningum ekki skylduákvæði. Hins vegar á félagið að gæta þess að viðkomandi njóti lágmarks stuðnings / umboðs og getur félagið notað aðrar aðferðir en kosningu til þess.


7. gr.

7.1

Áður en kemur til kosningar, söfnunar undirskrifta eða annarrar öflunar á umboði og stuðningi við framboð tiltekins félagsmanns til lausrar stöðu trúnaðarmanns skal tryggt að auglýst hafi verið eftir áhugasömum einstaklingum til að gegna stöðunni. Félagið skal leitast við að ganga úr skugga um að slík auglýsing eða ígildi hennar hafi farið fram.

 

8. gr.

8.1

Skipun trúnaðarmanns gildir í tvö ár komi ekki til aðrar ástæður, svo sem að hann biðjist lausnar, stjórn afturkalli skipun hans eða hann hætti störfum á vinnustað. (5)


(5) Árétting á ákvæðum kjarasamninga um skipunartíma sem að óbreyttu er tvö ár.


9. gr.

9.1

Stjórn félagsins getur afturkallað skipun trúnaðarmanns ræki hann ekki skyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga, kjarasamninga eða reglugerð þessari eða ef sýnt þyki að hann hafi gengið fram með hætti sem ekki samrýmist hlutverki trúnaðarmanns. Skriflegur rökstuðningur skal þá liggja fyrir og trúnaðarmanni tryggður réttur til andmæla. (6)


(6) Greinin gefur heimild og setur ramma fyrir tilvik þar sem þurft getur að víkja trúnaðarmanni úr stöðu sinni. Vikið er að hlutverki og skyldum trúnaðarmanna í ýmsum lögum og kjarasamningum félagsins. Kafli IV í reglugerðinni telur upp skyldur trúnaðarmanns gagnvart hlutverki sínu og félaginu. Með vísun til vanrækslu á skyldum samkvæmt ákvæðum laga, kjarasamninga og reglugerðarinnar (til dæmis að mæta ekki á trúnaðarmannanámskeið) og eftir atvikum annarri ámælisverðri framkomu getur stjórn bundið enda á skipun trúnaðarmanns. Krafa um skriflegan rökstuðning er ætluð til að tryggja að stjórn fari með þetta vald af ábyrgð og krafa um andmælarétt er til að gæta sanngirni. Ath. einnig að orðalag 12. gr. laga 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sem heimilar stéttarfélagi að svipta trúnaðarmann umboði sínu er svohljóðandi: „Nú vanrækir trúnaðarmaður störf sín samkvæmt lögum þessum að dómi stéttarfélags þess, sem hefur útnefnt hann og er þá stjórn viðkomandi stéttarfélags heimilt að svipta hann umboði sínu og tilnefna annan trúnaðarmann í hans stað úr hópi verkamanna á vinnustaðnum...“


III: Skyldur félagsins

10. gr.

10.1

Félagið skal stuðla að því að á hverjum vinnustað fimm eða fleiri Eflingarfélaga sé að finna trúnaðarmann eða -menn svo sem ákvæði laga og kjarasamninga heimila. (7)

10.2

Félagið skal halda reglulega uppfærða skrá yfir skipun trúnaðarmanna á vinnustöðum Eflingarfélaga. Skráin telst ekki til persónuupplýsinga og skal jafnan heimilt að upplýsa félagsfólk og stjórnendur um hvort trúnaðarmaður sé skipaður á viðkomandi vinnustað, hvert nafn hans er og tengiliðsupplýsingar. (8)


(7) Greinin er í samræmi við markmið og stefnu félagsins um fjölgun trúnaðarmanna og eflingu á innra starfi.

(8) Greinin er hugsuð til að tryggja að félagsmaður á vinnustað, og aðrir t.d. atvinnurekandi, geti vandkvæðalaust fengið upplýsingar hjá félaginu um það hvort trúnaðarmaður sé á vinnustað, hver það sé og til hvaða tíma viðkomandi sé skipaður. Borið hefur á því að þessar upplýsingar séu ekki aðgengilegar. Sbr. vefsíðu VR þar sem þessi skrá er birt.


11. gr.

11.1

Félagið skal tryggja að dagsett og undirritað skipunarbréf (erindisbréf) trúnaðarmanns sé gefið út, afhent trúnaðarmanni og atvinnurekanda og vistað með öruggum hætti hjá félaginu. Við afhendingu skipunarbréfs (erindisbréfs) til atvinnurekanda skal félagið gæta þess að móttaka þess sé staðfest. (9)


(9) Komið hafa upp tilvik þar sem móttaka atvinnurekanda á tilkynningu um kjör trúnaðarmanns að lokinni skipun hefur ekki verið staðfest og trúnaðarmanni verið sagt upp í millitíðinni. Greinin leitast við að koma í veg fyrir þær aðstæður með því að árétta að félaginu ber að sjá til þess að móttaka sé staðfest.


12. gr.

12.1

Félagið skal tryggja að boðið sé upp á námskeið fyrir trúnaðarmenn svo sem heimildir kjarasamninga gera ráð fyrir. Félagið veitir tímanlegar upplýsingar um skipulag og dagsetningar námskeiðanna og aðstoðar við samskipti við atvinnurekanda sé þess þörf til að tryggja mætingu trúnaðarmanns. (10) Félaginu er heimilt að upplýsa atvinnurekanda um hvort trúnaðarmaður hafi sótt námskeið eða ekki, hafi námskeiðið farið fram á vinnutíma.


(10) Kallast á við 19. gr. Skyldan til að halda námskeið og sækja þau er gagnkvæm milli félagsins og trúnaðarmanns.


13. gr.

13.1

Félagið skal leitast við að tryggja trúnaðarmanni allan þann stuðning sem hann þarf til að sinna réttindagæslu fyrir hönd félagsmanna innan heimilda kjarasamninga og laga, til að mynda lögfræðiráðgjöf og fylgd á fundi með atvinnurekanda eða vinnufélögum.

13.2

Félagið skal aðstoða trúnaðarmann, óski hann þess, við gerð samkomulags við atvinnurekanda um þann lágmarkstíma sem trúnaðarmaður skal hafa til að sinna störfum sínum sbr. gr. 18.5. (11)


(11) Vísar til eftirfarandi ákvæðis í gr. 13.2 sem kom nýtt inn í kjarasamning árið 2024: „Ef starf trúnaðarmanns er þess eðlis að honum er ókleift að sinna trúnaðarmannastörfum sínum á reglubundnum vinnutíma, skal að ósk trúnaðarmanns gera samkomulag milli hans og atvinnurekanda um þann lágmarkstíma sem trúnaðarmaður getur haft til umráða til að sinna þessum störfum. Í samkomulagi skal tekið tillit til fjölda starfsmanna sem trúnaðarmaður er fulltrúi fyrir, almenns umfangs trúnaðarstarfa, dreifingar starfsstöðva, vaktaskipulags og annars sem við á.“


14. gr.

14.1

Félagið skal aðstoða trúnaðarmann við boðun og framkvæmd vinnustaðafundar skv. heimildum kjarasamnings sé þess óskað. (12)


(12) Áminning til trúnaðarmanna um að þeir geti sótt aðstoð félagsins við að halda vinnustaðafund sem stundum getur verið snúið vegna tregðu atvinnurekanda. Kallast á við grein 19.


15. gr.

15.1

Láti atvinnurekandi trúnaðarmann gjalda þess með einhverjum hætti að hann gegni stöðu trúnaðarmanns, svo sem með því að ógna atvinnuöryggi hans eða skerða kjör hans, skal félagið beita sér til stuðnings og varnar trúnaðarmanninum með öllum ráðum sem lög og kjarasamningar heimila. (13)


(13) Leggur þá skyldu á herðar félagsins að verja trúnaðarmann gegn árásum á atvinnuöryggi hans.


16. gr.

16.1

Félagið skal leitast við að veita trúnaðarmönnum tækifæri til trúnaðarstarfa á vegum félagsins, svo sem setu í trúnaðarráði, stjórnum sjóða og á þingum sambanda þar sem félagið á fulltrúa. (14)


(14) Áréttar sérstakt hlutverk trúnaðarmanna sem virkir félagsmenn í félaginu, í samræmi við stefnu félagsins um að virkja trúnaðarmenn meira og betur. Uppstillingarnefnd tekur tillit til þessarar greinar.


IV: Skyldur trúnaðarmanns

17. gr.

17.1

Trúnaðarmaður er valinn af vinnufélögum sínum og skipaður af stéttarfélagi sínu til að vera fulltrúi þeirra. Hann nýtur sérstakrar lagaverndar umfram vinnufélaga sína gagnvart uppsögnum og nýtur sérstakra réttinda til að verja tíma til starfa sinna og til að sinna nauðsynlegri þjálfun. Trúnaðarmaður hefur því sérstakan sess bæði á vinnustað sínum og innan félagsins.

17.2

Trúnaðarmanni ber að kynna sér vandlega hlutverk sitt samkvæmt landslögum, kjarasamningum, lögum félagsins og reglugerð þessari, og rækja það hlutverk eftir bestu vitund og getu. Honum ber að ganga fram þannig að hann njóti trausts og virðingar og sé félaginu og vinnufélögum sínum til sóma. (15)


(15) Ákvæðið er hugsað til að minna á að hlutverkið gerir kröfur til viðkomandi einstaklings og að hann ber mikla ábyrgð.


18. gr.

18.1

Trúnaðarmanni er skylt að aðstoða vinnufélaga sína við úrlausn réttindamála þeirra gagnvart atvinnurekanda, og skal hann í þeim tilgangi afla sjálfum sér nauðsynlegar þekkingar og þjálfunar. (16)

18.2

Trúnaðarmanni er skylt að veita félaginu aðstoð við miðlun upplýsinga til vinnufélaga sinna um vinnuréttindi, félagsmál og annað sem við á hverju sinni. Hann skal jafnframt leggja félaginu lið við að gæta sameiginlegra hagsmuna Eflingarfélaga eins og hann framast getur.

18.3

Trúnaðarmanni er skylt að bregðast við erindum og skilaboðasendingum frá félaginu og staðfesta þannig að hann sé virkur í hlutverki sínu. Í þeim tilgangi skal trúnaðarmaður sjálfur ábyrgjast að réttar tengiliðsupplýsingar hans séu vistaðar hjá félaginu. Falli virkni trúnaðarmanns tímabundið niður af einhverjum ástæðum ber honum að tilkynna það til félagsins án tafar sem og til vinnufélaga sinna.

18.4

Trúnaðarmanni er skylt að sinna skýrslugjöf til félagsins um vinnustað sinn og veita aðrar upplýsingar eftir því sem óskað er. (17)

18.5

Trúnaðarmaður skal verja tíma til ofangreindra verkefna eins og þörf krefur innan heimilda kjarasamninga. (18)


(16) Þetta er áréttað í 10. gr. laga 80/1938.

(17) Sjá 2. mgr. 10. gr. laga 80/1938. 

(18) Greinin í heild áréttar og telur upp meginhlutverk trúnaðarmanns skv. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og lögum Eflingar. Áréttar einnig skyldu trúnaðarmanns til að verja þeim tíma sem þarf í þessi verkefni enda hefur hann nokkuð opna heimild til þess á launum skv. kjarasamningi Eflingar og SA sbr. gr. 13.2: „Trúnaðarmönnum á vinnustöðum skal í samráði við verkstjóra heimilt að verja eftir því sem þörf krefur tíma til starfa, sem þeim kunna að vera falin af verkamönnum á viðkomandi vinnustað og/eða viðkomandi stéttarfélagi vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna og skulu laun þeirra ekki skerðast af þeim sökum.“


19. gr.

19.1

Trúnaðarmanni er skylt að sitja trúnaðarmannanámskeið sem auglýst eru á vegum félagsins á meðan skipunartíma stendur, enda sé tímafjöldi námskeiða innan heimilda til launaðrar námskeiðssetu samkvæmt kjarasamningum. Trúnaðarmaður skal bregðast tímanlega við auglýsingum félagsins um námskeiðin og staðfesta komu sína eða upplýsa um forföll eftir því sem við á.

19.2

Félagið getur í undantekningartilvikum gengist í ábyrgð fyrir greiðslu á launatapi vegna námskeiðssetu gerist þess þörf. (19)


(19) Skapar trúnaðarmanni þá skyldu að mæta á trúnaðarmannanámskeið, enda fari tíminn sem það tekur ekki fram úr þeirri heimild sem er í kjarasamningi (2 vikur á ári á fyrsta ári, 1 vika á ári framvegis). Kallast á við 11. gr. Í samspili við önnur ákvæði reglugerðarinnar er hægt að binda enda á skipun trúnaðarmanns sem ekki sinnir námskeiðssetu.


20. gr.

20.1

Sé trúnaðarmaður skipaður í samninganefnd eða í trúnaðarráð félagsins sem varamaður ber honum að taka þar sæti. (20)


(20) Vísar m.a. í 15. gr. laga Eflingar þar sem stjórn er heimilað að skipa varamenn í trúnaðarráð í forföllum aðalmanna og sambærilegt ákvæði varðandi samninganefnd í 18. gr.


21. gr.

21.1

Trúnaðarmaður skal aðstoða félagið við boðun og framkvæmd vinnustaðafundar samkvæmt heimildum kjarasamnings sé þess óskað. (21)


(21) Áréttar skyldu trúnaðarmanns til að aðstoða telji félagið nauðsynlegt að boða vinnustaðafund, en skv. grein 13.5 í kjarasamningi liggur heimild gagnvart atvinnurekanda til boðunar vinnustaðafundar hjá trúnaðarmanni.


22. gr.

22.1

Áður en kemur að lokum skipunartíma trúnaðarmanns skal hann auglýsa eftir trúnaðarmanni og annast um kosningu hans.

 

23. gr.

23.1

Trúnaðarmanni ber að tilkynna félaginu án tafar verði hann ófær um að gegna stöðu trúnaðarmanns eða vilji ekki lengur gegna stöðu trúnaðarmanns.

23.2

Trúnaðarmanni ber einnig að upplýsa um það á vinnustað sínum ef hann gengur úr stöðu trúnaðarmanns á skipunartíma án þess að hann láti af störfum á vinnustað. (22)


(22) Ákvæðið er hugsað til að tryggja að upplýsingar berist til félagsins þegar og ef trúnaðarmaður hættir, af hvaða ástæðu sem er. Skapar einnig skyldu á trúnaðarmann að upplýsa að eigin frumkvæði á eigin vinnustað sé hann hættur.


Breytingarsaga:

▪ Samþykkt á fundi stjórnar Eflingar 9. mars 2023 með fyrirvara um kynningu fyrir
trúnaðarmönnum og í trúnaðarráði.
▪ Kynnt fyrir trúnaðarmönnum á námskeiði 15. mars 2023.
▪ Kynnt á fundi trúnaðarráðs 23. mars 2023.
▪ Uppfærð útgáfa samþykkt á fundi stjórnar Eflingar 18. apríl 2024 með fyrirvara um
kynningu fyrir trúnaðarmönnum og í trúnaðarráði.
▪ Kynnt á fundi trúnaðarráðs 2. maí 2024.
▪ Uppfærð útgáfa með breytingum skv. athugasemdum trúnaðarráðs samþykkt á fundi
stjórnar Eflingar 16. maí 2024.
▪ Kynnt fyrir trúnaðarmönnum á námskeiðum 22 og 23. maí 2024.