Starfsendurhæfingin virkar: finnum fyrir ánægju

starfsendurhaefingin_virkar      Starfsendurhæfingin virkar

Finnum fyrir ánægju félagsmanna

– segir Guðrún Óladóttir

Nærfellt tvö ár eru nú liðin frá því að samkomulag náðist um starfsendurhæfingu í kjarasamningunum 2008 þegar stofnun Starfsendurhæfingarsjóðs varð hluti af samningi aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna. Það er enginn vafi í mínum huga að þarna urðu alger tímamót því við höfðum í fjölda ára tekist á við örorkuna án teljandi árangurs, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar og í sama streng tekur Guðrún Óladóttir sem hefur lengi verið í forsvari fyrir sjúkrasjóð Eflingar og tekið þátt í uppbyggingu þjónustu við ráðgjöf í starfsendurhæfingu hjá félaginu. Ráðgjafar Eflingar í starfsendurhæfingu verða þrír frá áramótum en ljóst er af vaxandi aðsókn að þessari þjónustu og sýnilegum árangri að þessi þjónusta er komin til að vera.

Soffía Erla Einarsdóttir sem ráðin var sem fyrsti ráðgjafinn í starfsendurhæfingu hjá Eflingu segist sjá nokkuð marktækar breytingar á hópnum sem leitar til ráðgjafanna eða er vísað til þeirra. Margir koma í gegnum sjúkrasjóði félaganna Eflingar og Hlífar en nú er vaxandi að fólk komi beint frá fyrirtækjum og stofnunum og má gera því skóna að orðspor starfsendurhæfingarinnar sé að berast með jákvæðum hætti út á vinnumarkaðinn.

Við erum að veita miklu meiri og betri þjónustu en fyrr en einnig aukið aðhald og við finnum almennt fyrir ánægju félagsmanna okkar með allt frumkvæði í þessu máli eftir því sem starf okkar þróast, segir Guðrún Óladóttir, sviðsstjóri sjúkrasjóða hjá Eflingu. Í dag koma flestir í starfsendurhæfingarráðgjöf í gegnum sjúkrasjóð Eflingar. Þeim sem eru að sækja um sjúkradagpeninga er afhentur upplýsingabæklingur og þeim boðið að bóka viðtal við ráðgjafana. Félagsmönnum er einnig bent á að þeir geta haft samband við starfsendurhæfingarráðgjafana að eigin frumkvæði.

Starfsendurhæfingarráðgjafarnir hafa sótt um úrræði eins og sálfræðiþjónustu, líkamsrækt, námskeið og sjúkraþjálfun fyrir marga einstaklinga. Úrræðin eru þá hluti af virkniáætlun og hafa það markmið að auka starfsgetu. Starfsendurhæfingarráðgjafarnir geta sótt um að Starfsendurhæfingarsjóður greiði fyrir úrræði sé rökstuðningur fyrir því að þau auki starfsgetu viðkomandi. Ráðgjafi er í sambandi við þann sem veitir úræðið og fer fram á mat á árangri í lokin.

Nú starfa þrír ráðgjafar hjá Eflingu, þau Soffía Erla Einarsdóttir, Ólafur Kári Júlíusson og Guðný Katrín Einarsdóttir sem er í fæðingarorlofi en um áramót kom nýr starfsmaður, Ingibjörg Ólafsdóttir til starfa hjá sjóðnum.
Sjá nánar á heimasíðu félagsins www.efling.is og www.VIRK.is

Mikilvægt er að minna á að félagsmönnum  býðst að ræða við ráðgjafana um starfsendurhæfingu sér að kostnaðarlausu. Starfsendurhæfingarráðgjöf er ekki einungis fyrir þá sem glímt hafa við langvarandi veikindi. Samtal við ráðgjafa jafnvel við upphaf veikinda getur verið mjög gagnlegt til þess að fá ráðgjöf, stuðning eða hvatningu og sjá fyrir sér þau úrræði sem bjóðast sem fyrst. Úrræðin geta orðið mikil stoð þeirra sem síðar lenda í skertri vinnugetu til þess að geta starfað áfram á vinnumarkaði