Sagt upp í miðjum viðræðum um réttindamál
Þann 20. ágúst 2021 rak Icelandair ehf. trúnaðarmann félagsmanna Eflingar í hlaðdeild á Reykjavíkurflugvelli, Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, óvænt úr starfi í gegnum síma. Uppsögnin kom á sama tíma og Ólöf var í viðræðum við fyrirtækið, m.a. með milligöngu lögmanns og kjaramálasviðs Eflingar, um réttindamál starfsfólks. Samtölin vörðuðu fyrirhugaðar breytingar á vinnutilhögun og ábyrgð starfsmanna. Ólöf gætti þar réttinda og hagsmuna vinnufélaga sinna
Nýtur trausts vinnufélaga og gegnir trúnaðarstarfi innan stéttarfélags
Ólöf hefur gegnt stöðu trúnaðarmanns starfsmanna í hlaðdeild á vinnustaðnum síðan árið 2018. Hún nýtur virðingar og trausts meðal vinnufélaga sinna. Ólöf starfar í hópi með um tíu öðrum fastráðnum hlaðmönnum og er hún eini kvenkyns starfsmaðurinn í þeim hópi. Hún hefur unnið í hlaðdeild síðan árið 2016. Hún situr jafnframt í stjórn Eflingar.
Sem trúnaðarmaður nýtur Ólöf uppsagnarverndar. Óheimilt er að segja henni upp úr vinnu vegna starfa sinna sem trúnaðarmaður. Komi til uppsagnar af öðrum ástæðum þurfa þær að vera mjög veigamiklar og málefnalega rökstuddar. Engar slíkar ástæður eru fyrir hendi í uppsögn Ólafar.
Sökuð um óútskýrðan „trúnaðarbrest“
Í munnlegri tilkynningu í síma þann 20. ágúst var Ólöfu sagt að henni væri sagt upp starfi vegna „trúnaðarbrests“ og hún beðin um að koma ekki aftur til vinnu. Var aðgangi hennar að tölvupósti og innri vef starfsfólks samstundis lokað.
Þann sama dag og aftur mánudaginn 23. ágúst hélt yfirmaður Ólafar, stöðvarstjórinn á Reykjavíkurflugvelli, fundi á vinnustaðnum þar sem Ólöf var að henni fjarstaddri sökuð frammi fyrir vinnufélögum sínum um „alvarlegan trúnaðarbrest í starfi“ og það sagt ástæða uppsagnar. Um er að ræða alvarlega ærumeiðandi ásökun. Fyrir liggur skriflegur vitnisburður vinnufélaga Ólafar um notkun þessa orðalags á umræddum fundum.
Enginn rökstuðningur fyrir trúnaðarbresti og aldrei verið áminnt
Í uppsagnarbréfi, undirrituðu af stöðvarstjóra, sem Ólöf fékk afhent eftir munnlega tilkynningu, var engin ástæða gefin fyrir uppsögninni. Í viðtali um ástæður uppsagnar dags. 27. ágúst komu ekki fram neinar skýringar á meintum trúnaðarbresti, þótt sérstaklega væri spurt um hann. Var þess í stað rætt með óljósum hætti um að samskipti við vinnufélaga hefðu mátt vera betri. Enginn vinnufélagi Ólafar staðfestir þessa lýsingu.
Ekkert hefur komið fram af hálfu Icelandair sem staðfestir brot í starfi af hálfu Ólafar, hvorki er varðar trúnað né annað. Ólöfu hefur aldrei á starfsferli sínum hjá Icelandair verið veitt áminning eða viðvörun um að henni bæri að haga sér með tilteknum hætti, ella væri starf hennar í húfi.
Ranglega fullyrt að Ólöf sé ekki trúnaðarmaður – vísað í formkröfur sem ekki eru til
Icelandair hefur haldið því fram að Ólöf njóti ekki uppsagnarverndar trúnaðarmanns, þar sem ekki hafi verið tilkynnt formlega um endurnýjun á skipun hennar sem trúnaðarmaður þegar tvö ár voru liðin frá upphaflegu kjöri hennar í það hlutverk.
Engar kröfur eru í íslenskum lögum eða í kjarasamningum um ákveðið form á tilkynningum til atvinnurekanda um skipun trúnaðarmanns. Ekki er vaninn hjá Eflingu að senda sérstakar tilkynningar um endurnýjun á kjöri trúnaðarmanns ef sami einstaklingur situr áfram með skýru umboði starfsfólks og sinnir hlutverkinu áfram með óbreyttum hætti.
Starfsmenn í hlaðdeild hafa staðfest að Ólöf hefur verið í hlutverki trúnaðarmanns í þeirra umboði óslitið frá því hún var fyrst kjörin í það hlutverk árið 2018.
Fyrirtækið titlaði og ávarpaði Ólöfu sem trúnaðarmann
Á því tímabili sem Icelandair heldur því fram að fyrirtækið hafi ekki vitað að Ólöf væri trúnaðarmaður ávarpaði fyrirtækið hana engu að síður sem trúnaðarmann í tölvupóstsamskiptum, titlaði hana sem slíka á starfsmannavef og hefur auk þess verið í virkum viðræðum við hana sem trúnaðarmann starfsmanna á síðustu vikum og mánuðum. Gögn og vitnisburðir styðja allt þetta.
Sú fullyrðing Icelandair að segjast ekki hafa verið kunnugt um stöðu Ólafar sem trúnaðarmaður er ekki sannleikanum samkvæm. Lögmaður Eflingar hefur skorað á Icelandair að afhenda útprent af tölvupóstsamskiptum Ólafar við forsvarsmenn fyrirtækisins, þar sem finna má enn frekari staðfestingar á vitund fyrirtækisins um stöðu hennar sem trúnaðarmaður. Ekki hefur verið orðið við þeirri áskorun.
Icelandair heldur því fram að Ólöf sjálf hafi lýst því yfir við ótilgreinda einstaklinga á ótilgreindum tímapunkti að hún væri ekki trúnaðarmaður. Ólöf hefur aldrei lýst slíku yfir og engin gögn eða vitnisburðir styðja það.
Fyrirtækið tilkynnti Ólöfu sem öryggistrúnaðarmann
Ólöf var ekki aðeins félagslegur trúnaðarmaður heldur var hún einnig öryggistrúnaðarmaður. Öryggistrúnaðarmenn njóta sömu uppsagnarverndar og félagslega kjörnir trúnaðarmenn. Í kjölfar kosningar tilkynnti Icelandair Vinnueftirlitinu þann 20. febrúar 2020 um kjör Ólafar í stöðu öryggistrúnaðarmanns í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar.
Í bréfaskiptum eftir uppsögnina heldur Icelandair því nú fram að umboð Ólafar sem öryggistrúnaðarmaður hafi fallið niður sökum þess að rekstur flugvallarins hafi flust frá Flugfélagi Íslands til Icelandair. Slíkar breytingar valda því ekki að umboð öryggistrúnaðarmanns á vinnustað falli niður. Hvergi hefur verið upplýst um þetta, hvorki til Vinnueftirlitsins, Ólafar né annarra öryggistrúnaðarmanna, fyrr en eftir að Icelandair bárust mótmæli við uppsögn Ólafar.
Ólöf hefur sinnt skyldum sínum sem öryggistrúnaðarmaður á Reykjavíkurflugvelli óslitið síðan í febrúar 2020, einnig eftir umrædda rekstrarbreytingu, og komið fram sem slíkur í samskiptum innan fyrirtækisins á síðustu mánuðum.
SA með í ráðum – yfirlýsing vegna Flugfreyjudeilu gleymd
Samtök atvinnulífsins hafa stutt Icelandair dyggilega í uppsögn Ólafar. Lögmaður samtakanna var viðstaddur viðtal um ástæður uppsagnar og hefur ritað svarbréf til lögmanns Eflingar f.h. Icelandair. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA hefur lýst stuðningi við uppsögnina.
SA og Icelandair voru aðilar að sérstakri yfirlýsingu ásamt ASÍ og Flugfreyjufélagi Íslands sem birt var þann 17. september 2020. Yfirlýsingin kom í kjölfar þess að Icelandair beitti uppsögnum til að þrýsta á um niðurstöðu í kjaradeilu. Var þar lýst yfir vilja til að virða réttindi starfsfólks og góða samskiptahætti aðila vinnumarkaðarins. Í yfirlýsingunni segir:
„Icelandair telur nauðsynlegt fyrir framtíð félagsins að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks síns sem tryggir frið um starfsemi félagsins á gildistíma kjarasamninga og á meðan leitað er lausna í kjaraviðræðum. Aðilar munu leggja sig fram um að halda góðu samstarfi og munu leggja sitt af mörkum til þess að endurvinna og efla traust sín í milli.“
Erfitt er að sjá hvernig tilhæfulaus uppsögn trúnaðarmanns í miðjum viðræðum um réttindamál starfsfólks er til marks um vilja til góðs samstarf við stéttarfélagsbundið verkafólk.
Óskar að koma aftur til starfa – krafa um að uppsögn verði dregin til baka send til forstjóra Icelandair
Lögmaður Eflingar hefur ritað ítarleg erindi f.h. Ólafar til Icelandair dags. 1. og 13. september þar sem skorað er á fyrirtækið að draga uppsögn hennar til baka. Öllum mótbárum Icelandair hefur verið svarað í þessum erindum með vísun í lög og óumdeild fyrirliggjandi gögn. Áréttað hefur verið að Ólöf óskar að ganga í starf sitt og láta ágreining niður falla verði sú ósk virt. Svar barst 1. október frá lögmanni SA þar sem því var hafnað.
Hlaðmenn á Reykjavíkurflugvelli hafa slegið skjaldborg um Ólöfu. Þeir hafa undirritað og sent áskorun til Boga Nils Bogasonar forstjóra Icelandair þar sem krafist er að uppsögn Ólafar verði dregin til baka. Í yfirlýsingunni er minnt á rétt starfsfólks samkvæmt lögum til að gæta hagsmuna sinna og taka þátt í starfi stéttarfélaga án þess að þurfa að sæta uppsögnum eða hótunum um þær. Svar við henni hefur ekki borist.
Víðtæk samstaða – umræða innan verkalýðshreyfingarinnar
Stjórn Eflingar hefur fjallað um málið og lýst fullum stuðningi við Ólöfu. Málið var rætt á fundi Miðstjórnar Alþýðusambandsins 15. september.
Fjallað var um mál Ólafar og samstöðu hlaðmanna á Reykjavíkurflugvelli á fundi trúnaðarráðs Eflingar þann 16. september. Samþykkti trúnaðarráð yfirlýsingu sem Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sendi Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair þann 20. september. Bogi svaraði þann 30. september og hafnaði því að uppsögn yrði dregin til baka.