Gallup-könnun staðfestir að leiðrétta þurfi laun í umönnunarstörfum
Þegar fólk er spurt hversu sátt það sé með laun sín, eru eflaust flestir sem myndu svara því til að þeir gætu alveg hugsað sér að fá hærri laun. Í viðhorfskönnun sem IMG Gallup vann í mars mánuði sl. meðal félagsmanna Eflingar, Hlífar og VSFK kom fram sláandi munur eftir hópum hversu sátt fólk var með launin.
Könnunin leiddi í ljós að fleiri karlar eru mjög eða frekar sáttir með laun sín, ríflega 56% á móti tæplega 37% kvenna. Ef að við skoðum þetta út frá menntun, þá eru þeir sem eru með minnsta menntun sáttastir með launin og skýrist það að hluta til af því að í þeim hópi er ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skerf á vinnumarkaði og býr í foreldrahúsum. Þessi hópur er því síður háður tekjuafkomunni.
En þegar við greinum svörin eftir því við hvað fólk starfar, kemur í ljós að þeir sem starfa við umönnun eru lang ósáttastir, en ríflega 73% þeirra eru frekar eða mjög ósátt með launin. Það kemur því ekki á óvart að í núverandi þensluástandi og þegar atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki, leitar sá hópur sem starfar við umönnun í betur launuð störf. Þegar gengið var frá kjarasamningum við ríki og hjúkrunarheimili á síðasta ári, var lögð áhersla á að hækka umönnunarstörf sérstaklega, en ljóst er að gera þarf betur ef að þessi störf eiga að vera samkeppnishæf um vinnuafl.