Efling fékk starfsmenntaverðlaunin

Mikil hvatning til okkar allra

– sagði Sigurður Bessason, formaður

 

Starfsmenntaverðlaun Menntar og Starfsmenntaráðs voru afhent á föstudaginn 4. nóvember sl. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Sigurði Bessasyni verðlaunin en þau eru veitt Eflingu fyrir metnaðarfullar lausnir til að svara menntunarþörf félagsmanna sinna og veita öllum tækifæri til náms.

Sigurður Bessaon sagði um leið og hann tók við verðlaununum að þessi verðlaun væru veitt öllum þeim sem unnið hefðu að starfsmenntun félagsmanna Eflingar undanfarin ár. Það væri einmitt þetta fólk sem væri að taka við viðurkenningunni, fólk sem með miklum dugnaði og hugsjónum hefði komið þessu öllu í framkvæmd. Hann sagðist vilja óska öllu þessu fólki sem margt væri viðstatt þessa athöfn til hamingju með þennan stóra áfanga félagsins í menntamálum.

Viðurkenning til Eflingar er mikil hvatning fyrir okkur öll en ekki síst hvetur hún okkur áfram til enn frekari starfa á sviði starfsmenntunar, sagði Sigurður.

Starfsmenntaverðlaunin eru veitt þeim sem þykja vinna framúrskarandi starf í starfsmenntun, hvort sem um er að ræða skóla, samtök, frumkvöðla eða fyrirtæki sem sinna vel fræðslumálum starfsmanna sinna. Verðlaunin eru jafnan veitt í þremur flokkum.

Auk Eflingar fengu Landsvirkjun og Ingibjörg Hafstað einnig viðurkenningu fyrir vel unnið starf að menntamálum launafólks.