Íbúð Eflingar í Köben

10. 11, 2005

Frábært framtak Eflingar

– segja þær Heiða og Karen

Þær vinkonur Heiða Þorsteinsdóttir og Karen Jara Pálsdóttir áttu varla orð til að lýsa hrifningu sinni yfir Kaupmannahöfn og því framtaki Eflingar að bjóða upp á íbúð í miðborginni þar sem hægt var að komast í hringiðu borgarinnar á nokkrum mínútum.

Við vinkonurnar, Karen 16 ára og Heiða 15 ára, fórum með mæðrum okkar í vikuferð til Kaupmannahafnar um miðjan ágúst síðastliðinn.

Þegar við vorum komnar þangað eftir langt ferðalag beið okkar þessi geðveikt flotta íbúð, sem við bjuggumst engan veginn við. Húsið leit líka mjög vel út að utan. Íbúðin var mjög kósí með tveimur stórum herbergjum og toppeldhúsi, sjónvarpi með öllum stöðvum og tveimur baðherbergjum með þvottavél og þurrkara, ásamt tveimur sturtum.

Staðsetningin var mjög góð, því einungis þurfti að labba í um tíu mínútur til að komast á Strikið. Meðal þess sem var líka í svipaðri fjarlægð var Tívolíið, aðallestarstöðin og Kristjanía.

Við eyddum fyrstu tveimur dögunum okkar í að skoða okkur um og kíkja á Strikið. Auk þess skelltum við okkur í stóru verslunarmiðstöðina, Fields, rétt hjá flugvellinum. Eyddum þar heilum degi og var mikið verslað!

Við leigðum bílaleigubíl og lögðum hressar af stað. Leiðinni var haldið til Lalandia, sem er sund- og íþróttahöll í Rødby og því næst í Knuthenborg dýragarðinn nálægt Maribo, þar sem við keyrðum í gegnum heimkynni dýranna.

Margir dagarnir fóru í að versla en samt náðum við að rölta í Tívolíið og eyða heilum degi í því.

Þessi ferð var frábær í alla staði og veðrið ekki síðra. Við hefðum ekkert haft á móti því að dvelja aðeins lengur í þessari fínu íbúð, í flottu hverfi, enda bíðum við eftir því að komast aftur.

Þökkum Eflingu fyrir frábært framtak!
Þ. Heiða Þorsteinsdóttir
Karen Jara Pálsdóttir