Samkomulag ASÍ og SA 15. nóvember

16. 11, 2005

.

Í gær var undirritað samkomulag á milli Alþýðusambands Íslands f.h. aðildarsamtaka sinna og Samtaka atvinnulífsins vegna mats á launalið kjarasamninga frá vorinu 2004, eins og kveðið er á um í samningunum.

Samkomulagið byggir á samráði ASÍ, SA og ríkisstjórnarinnar síðustu daga og vikur. Því fylgir yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til þess að treysta stöðuna á vinnumarkaði.
Það er mat Alþýðusambandsins, að auk þess að ná fram leiðréttingum vegna skerðinga sem hafa komið til vegna meiri verðbólgu en samningarnir gerðu ráð fyrir, þá feli yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í sér mikilvæg atriði sem treysta stöðu launafólks á vinnumarkaði. Þar er að finna ýmis atriði sem hafa lengi verið baráttumál samtaka launafólks og fela í sér kjara- og réttarbætur sem hefðu ekki náð fram að ganga nema vegna þéttrar samstöðu aðildarfélaga Alþýðusambandsins.

26 þúsund króna eingreiðsla

Laun félaga í aðildarfélögum Alþýðusambandsins sem eiga aðild að kjarasamningunum við SA hækka um 0,65% í janúar 2007 til viðbótar við þá hækkun sem kveður á um í einstökum samningum. Jafnframt fá allir sem hafa verið í fullu starfi hjá viðkomandi fyrirtæki 26.000 króna eingreiðslu í desember næstkomandi. Þessu til viðbótar hækkar lágmarkstekjutrygging fyrir fulla dagvinnu í 108.000 kr. um næstu áramót og í 110.000 kr. 1. janúar 2007.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar felur í sér fjögur meginatriði.

Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin fallist á að stíga mikilvæg skref í að axla ábyrgð vegna vaxandi örorkubyrði í lífeyrissjóðum á samningssviði ASÍ og SA. Þar með er geta sjóðanna til að standa við lífeyrisskuldbindingar aukin og mikilvæg skref stigin til að jafna lífeyrisréttindi í landinu.

Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin fallist á kröfu ASÍ um hækkun atvinnleysisbóta og tekjutengingu þeirra. Grunnbætur hækka í 96 þúsund krónur á næsta ári (eru nú 91.426 kr). Atvinnuleysisbætur verða 70% af heildartekjum, með þaki við 180.000 krónur á mánuði. Bæturnar verða tekjutengdar í allt að þrjá mánuði eftir 10 daga á grunnbótum.

Í þriðja lagi verða sett lög um starfsmannaleigur. Í frumvarpi sem var lagt fram í ríkisstjórn í dag, er fallist á öll meginsjónarmið ASÍ, að undanskilinni kröfu um ábyrgð þeirra fyrirtækja sem nýta sér þjónustu starfsmannaleiga.

Í fjórða lagi hefur ríkisstjórnin fallist á að setja 100 milljónir króna til viðbótar í að efla fullorðinsfræðslu og styrkja möguleika fólks á vinnumarkaði til að auka við menntun sína og fá hana viðurkennda.

Samkomulag ASÍ og SA um forsendur
Atvinnuleysisbætur
Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar