Select Page

Stoltur að vera treyst fyrir þessu starfi

– segir Ingvi Páll Gunnlaugsson á Múlaborg

Ég sótti um vinnu í leikskólanum fyrir tveim árum, eftir að ég var ráðinn þjálfari yngri flokks í körfubolta hjá Haukum í Hafnarfirði. Þjálfunin fer aðallega fram á kvöldin og mig vantaði vinnu á daginn, segir Ingvi Páll Gunnlaugsson,  nýráðinn deildarstjóri á Kisudeild á leikskólanum Múlaborg. Ég er ekki með menntun leikskólakennara og varð  mjög glaður, þegar í ljós kom að mér var treyst fyrir þessu starfi, segir hann. Ingvi er í hópi sjö yngri karlmanna sem vinna í dag á leikskólanum og þykir fréttnæmt þar sem karlar hafa hingað til ekki verið áberandi í störfum á leikskólum borgarinnar.

Það eru 22 börn á deildinni á aldrinum fjögurra til sex ára og maður þarf að hafa sig allan við að skipuleggja starfið yfir daginn og taka á móti foreldrum í viðtöl.

Ég starfaði mikið með börnum í Borgarnesi við þjálfun áður en ég flutti til Reykjavíkur. Svo hef ég unnið í grunnskólum og var m.a. íþróttakennari í Áslandsskóla í Kópavogi í eitt ár. Þannig að ég hef mikla reynslu af því að vinna með börnum.

Ingvi Páll segir að sjö karlar á aldrinum 19 til 40 ára vinni á leikskólanum. Þar af eru sex í störfum leiðbeinenda og einn vinnur í eldhúsi. Almennt eru flestir karlarnir í tveim störfum vegna þess að launin eru svo lág.

En ef kjarasamningarnir, sem er verið að vinna í núna færa okkar hópi þ.e. starfsfólki á leikskólum sem ekki er kennaramenntað góðar launahækkanir, þá trúi ég því að körlum eigi eftir að fjölga talsvert í störfum á leikskólum í framtíðinni.  

Starfsandinn á leikskólanum er mjög góður og þegar konur og karlar af mismunandi þjóðernum vinna saman, skapast mikil fjölbreytni á vinnustaðnum. Það hefur reynslan sýnt okkur á þessum leikskóla, segir hann.

Í sumar sótti ég um að komast í leikskólakennaranám í Kennaraháskóla Íslands, en var hafnað. Þegar ég spurðist fyrir um ástæðuna kom í ljós að ég hafði gleymt að láta einkunnir fylgja með, sem ég fékk fyrir nám í Bandaríkjunum.  Ég er staðráðinn í að gera ekki sömu mistökin, þegar ég sæki um aftur næsta sumar, sagði  Ingvi Páll að lokum. 

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere