Stoltur að vera treyst fyrir þessu starfi

Stoltur að vera treyst fyrir þessu starfi

– segir Ingvi Páll Gunnlaugsson á Múlaborg

Ég sótti um vinnu í leikskólanum fyrir tveim árum, eftir að ég var ráðinn þjálfari yngri flokks í körfubolta hjá Haukum í Hafnarfirði. Þjálfunin fer aðallega fram á kvöldin og mig vantaði vinnu á daginn, segir Ingvi Páll Gunnlaugsson,  nýráðinn deildarstjóri á Kisudeild á leikskólanum Múlaborg. Ég er ekki með menntun leikskólakennara og varð  mjög glaður, þegar í ljós kom að mér var treyst fyrir þessu starfi, segir hann. Ingvi er í hópi sjö yngri karlmanna sem vinna í dag á leikskólanum og þykir fréttnæmt þar sem karlar hafa hingað til ekki verið áberandi í störfum á leikskólum borgarinnar.

Það eru 22 börn á deildinni á aldrinum fjögurra til sex ára og maður þarf að hafa sig allan við að skipuleggja starfið yfir daginn og taka á móti foreldrum í viðtöl.

Ég starfaði mikið með börnum í Borgarnesi við þjálfun áður en ég flutti til Reykjavíkur. Svo hef ég unnið í grunnskólum og var m.a. íþróttakennari í Áslandsskóla í Kópavogi í eitt ár. Þannig að ég hef mikla reynslu af því að vinna með börnum.

Ingvi Páll segir að sjö karlar á aldrinum 19 til 40 ára vinni á leikskólanum. Þar af eru sex í störfum leiðbeinenda og einn vinnur í eldhúsi. Almennt eru flestir karlarnir í tveim störfum vegna þess að launin eru svo lág.

En ef kjarasamningarnir, sem er verið að vinna í núna færa okkar hópi þ.e. starfsfólki á leikskólum sem ekki er kennaramenntað góðar launahækkanir, þá trúi ég því að körlum eigi eftir að fjölga talsvert í störfum á leikskólum í framtíðinni.  

Starfsandinn á leikskólanum er mjög góður og þegar konur og karlar af mismunandi þjóðernum vinna saman, skapast mikil fjölbreytni á vinnustaðnum. Það hefur reynslan sýnt okkur á þessum leikskóla, segir hann.

Í sumar sótti ég um að komast í leikskólakennaranám í Kennaraháskóla Íslands, en var hafnað. Þegar ég spurðist fyrir um ástæðuna kom í ljós að ég hafði gleymt að láta einkunnir fylgja með, sem ég fékk fyrir nám í Bandaríkjunum.  Ég er staðráðinn í að gera ekki sömu mistökin, þegar ég sæki um aftur næsta sumar, sagði  Ingvi Páll að lokum.