Vaskasti uppvaskarinn

Vaskasti uppvaskarinn

Við leitum að kraftmiklum keppendum!!!

Nú stendur yfir leit að kraftmiklum uppvöskurum á veitingastöðum landsins. Hingað til hafa þeir sem vaska upp á veitingastöðum ekki verið mjög sýnilegir, þó að uppvaskið sé nauðsynlegur þáttur í  öllum veitingarekstri. Starfsfólkið í uppvaskinu er venjulega bak við lokaðar dyr og vinnur fjarri sviðsljósinu.  Þetta breytist á árinu 2006 þegar forkeppni fer fram um bestu uppvaskarana hér á landi og í framhaldi af því mun hópur þeirra bestu halda á Norðurlandameistaramót í Stokkhólmi í apríl 2006. Verkefnið er liður í því að skapa virðingu fyrir öllum störfum á veitingastöðum.

Frændur okkar í Svíþjóð hafa um árabil haldið keppnir af þessu tagi og var fyrst keppt í greininni árið 2000 í Svíþjóð en allar Norðurlandaþjóðirnar munu etja kappi í Stokkhólmi á næsta ári til að finna fremsta uppvaskara Norðurlanda.

Efling-stéttarfélag hefur ákveðið að taka þátt í þessu verkefni sem stuðningsaðili enda er fjöldi félagsmanna sem vinnur þessi mikilvægu störf á veitingastöðum og hótelum. Félagið vonast til að sem flestir félagsmenn gefi kost á sér í forkeppnina. John Lindsay er aðalstuðningsaðili sem fyrirtæki að þessu verkefni en félög matreiðslumeistara á Norðurlöndum taka líka þátt í þessu verkefni og dómarar koma úr röðum þeirra.

Hvernig skrái ég mig í keppnina?

Atvinnurekendur geta hvatt starfsfólk sitt til að skrá sig í keppnina en einnig geta allir starfsmenn sem vinna við uppvask á veitingahúsum eða í stóreldhúsum skráð sig í keppnina. Keppendur keppa svo ýmist fyrir eigin hönd eða viðkomandi veitingahús en í lokakeppninni keppa þeir fyrir hönd Íslands. Umsjón með vali keppenda hefur John Lindsay hér á landi og hægt er að skrá sig beint á netfangið lindsay@lindsay.is.

Til mikils að vinna

Það er til mikils að vinna að taka þátt í þessari keppni. Í fyrsta lagi að styðja það góða verkefni að lyfta þessum störfum í eldhúsinu í þann sess sem þessi mikilvægu störf eiga skilið. En svo fá allir þátttakendur hér innanlands verðlaun fyrir þátttökuna fyrir utan auðvitað möguleikann á að fara utan og etja kappi við frændur okkar á Norðurlöndunum. Þeir fimm keppendur sem verða valdir fyrir Íslands hönd fá allir greiddan ferðakostnað, ferðir og gistingu í Stokkhólmi meðan á ferðinni stendur. Auk þess fá vinningshafar vegleg verðlaun.

Því ekki að taka þátt???

Þá er bara að skella sér í Vaskasta uppvaskarann en það er heiti keppninnar eða benda á einhverja áhugasama í keppnina. Forkeppnin verður haldin í tengslum við Mat 2006 í Smáranum sem haldin er í lok mars á næsta ári. Frestur til að skila umsóknum um þátttöku er til 15. febrúar 2006. Aðalkeppnin í Svíþjóð verður í apríl 2006.