Nýr kjarasamningur við Reykjavíkurborg

10. 01, 2006

Nýr kjarasamningur við Reykjavíkurborg samþykktur

Mikill ávinningur

– segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar

Það er mikill ávinningur fólginn í þessum kjarasamningi, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar við

Eflingarblaðið. Sá yfirgnæfandi meirihluti sem studdi samninginn felur í sér skýr skilaboð. Við erum á réttri leið. Í þessum samningi vorum við bæði að reyna að koma til móts við fjölmenna yngri aldurshópa starfsmanna Reykjavíkurborgar, jafnframt því sem  aukið framlag til fræðslumála mun skila reyndari starfsmönnum bættum kjörum.  Launahækkanir vega þyngst í upphafi samningstímans og skila sér hraðar á samningstímanum, segir Sigurður og bætir því við að sér finnist gagnrýni á þennan samning ekki hafa verið málefnaleg.

Annars er það merkilegt að ekki er mikil umræða um ýmis atriði sem mun skipta borgarstarfsmenn í Eflingu miklu máli til framtíðar en þar vega lífeyrismálin þyngst, segir Sigurður en þar er verið að jafna réttindi Eflingarfélaga hjá borginni á við starfsmenn annarra bæjarstarfsmanna. Þá mun aukið gjald í fræðslusjóð þessara starfsmanna einnig skipta sköpum fyrir hvernig hægt verður að vinna áfram að fræðslumálum fyrir þennan hóp, segir Sigurður.

Aðspurður um þá gagnrýni sem fram hefur komið á samninginn, segir Sigurður að öll sú fjölmiðlaumræða sé ómálefnaleg þegar hún er krufin til mergjar. Það er ekki hægt að óska okkur til hamingju með góðan samning og segja um leið að verið sé að semja um allt of góðar kjarabætur fyrir þessa starfsmenn. Þarna er verið að semja fyrir hefðbundin kvennastörf. Starfsmenn leikskóla búa við að í launaumhverfi þeirra byggjast tekjurnar eingöngu á grunnlaunum þar sem engin yfirvinna er til staðar. Staðreyndin er sú að þarna er annars vegar verið að meta til kjarabóta reynslu og þekkingu þessa fólks í starfi. Það er einnig með þessu verið að fá fólk til starfa á stofnunum sem ekki hefur tekist að manna.

Ég get heldur ekki tekið mark á stjórnmálamönnum, sem hafa talað lengi um að hækka laun í umönnunarstörfum og það þurfi að efla ímynd þessara starfa en þegar tekið er af skarið og reynt að lyfta kjörum þessa hóps, þá er þessum samningi fundið allt til foráttu. Þessi samningur gefur t.d. stéttum inni í leikskólum töluvert tækifæri til að lyfta bæði ímynd starfanna og þannig leikskólans sem framsækins vinnustaðar, segir Sigurður Bessason.