Ómakleg gagnrýni á borgarsamninginn

11. 01, 2006

Ómakleg gagnrýni á borgarsamninginn

Höfum heyrt þennan söng áður

– segja þær Þuríður Ingimundardóttir og Sigurrós Kristinsdóttir

Það var afskaplega uppörvandi og skemmtilegt að taka þátt í þessum kjarasamningum. Þar skipti útspil borgarstjóra um nauðsyn þess að hækka laun starfsmanna í Eflingu á leikskólum miklu máli. Þar með var sleginn tónn bjartsýni um að núna tækist að fá sanngjarna launahækkun og það varð niðurstaðan eftir þó nokkur átök.  Hópar frá fleiri starfssviðunum Eflingarfélaga innan borgarinnar tóku líka þátt í samningaviðræðunum og samstarfið gekk mjög vel, segja þær Þuríður Ingimundardóttir og Sigurrós Kristinsdóttir sem starfa á leikskólum.

Hafði samstaða í trúnaðarmannahópnum áhrif á hvernig þið unnuð við samningagerðina?

Já, alveg tvímælalaust. Við lögðum upp með kröfugerð sem hópurinn hafði lagt mikla vinnu í ásamt starfsmönnum frá Eflingu og það var mikill einhugur og mjög góður baráttuandi í hópnum allan tímann.

Hvernig voru viðbrögðin að loknum samningum?

Þau voru frábær, þegar að við mættum í vinnuna morguninn eftir að samningurinn var undirritaður tók samstarfsfólkið á móti okkur með hamingjuóskum og svo fengum við líka nokkra kossa á kinnina.

Viðbrögð leikskólastjórans voru líka afskaplega vinaleg og hún lét þess getið að sér fyndist að við værum vel að þessum árangri komnar sem við náðum í samningunum, segir Þuríður.

Hvað fannst ykkur um gagnrýnina á samninginn og umræðuna um  menntunina og neikvæða umræðu um  laun þeirra, sem eru með langan starfsaldur og mikla reynslu?

Okkur fannst hún frekar ómakleg. En við höfum heyrt þennan söng áður og látum það ekki hafa áhrif á okkur þó að stjórnmálamenn og ýmsir aðrir þegnar í þjóðfélaginu, sem eru á lúxuslaunum væli í fjölmiðlum.

Við teljum að leikskólastarfsmenn eigi að samgleðjast yfir árangrinum sem við hjá Eflingu höfun náð til þess að hækka lægstu launin.  Og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri á þakkir skildar fyrir að þora að setja sig upp á móti þessum vælukjóum  og hafa frumkvæði að þessum kjarabótum.

En við höfum fullan skilning á sjónarmiðum leikskólakennara um kjaraþáttinn og hann hefur styrkst til muna eftir að niðurstaða kjaradóms um hækkun launa til ráðherra, þingmanna og annara embættismanna, lá fyrir, sögðu Þuríður og Sigurrós að lokum.

Þuríður Ingimundardóttir er leiðbeinandi á Leikskólanum Skógarborg  og Sigurrós Kristinsdóttir er leiðbeinandi á Leikskólanum Sólhlíð. Þær eru báðar með áratuga reynslu á leikskólum.