Samtök sjálfstæðra skóla

30. 01, 2006

Nýr kjarasamningur undirritaður við Samtök sjálfstæðra skóla

26. janúar sl. undirrituðu Samtök sjálfstæðra skóla sinn fyrsta kjarasamning fyrir hönd aðildarskóla sinna. Samningurinn nær til um 170 félagsmanna  Eflingar sem starfa á leik- og grunnskólum samtakanna í Reykjavík.

Samtök sjálfstæðra skóla (SSSK) eru regnhlífarsamtök sjálfstæðra leik- og grunnskóla á Íslandi og eru á sínu fyrsta starfsári. Þau voru stofnuð 10. mars 2005 og er tilgangur samtakanna er að gæta hagsmuna sjálfstæðra skóla, efla samheldni þeirra, skapa vettvang til skoðanaskipta og vera í fyrirsvari fyrir sjálfstæða leik- og grunnskóla gagnvart opinberum aðilum.

Samningurinn tryggir aðstoðarfólki þessara skóla sambærileg kjör og kveðið er á um í nýjum samningi Reykjavíkurborgar við ófaglært starfsfólk á leikskólum á vegum borgarinnar. Ennfremur er kveðið á um í samningnum að aðilar muni skipa sérstaka samstarfsnefnd til að þróa áfram hinu góðu samvinnu þar sem jákvæð þróun í kjaramálum aðstoðarfólks í sjálfstæðum skólum verður í fyrirúmi.

Á næstu dögum mun starfsfólk Eflingar fara á leikskólana og kynna nýgerðan kjarasamning fyrir félagsmönnum sínum og mun hann samhliða vera borinn undir atkvæðagreiðslu.

Á meðfylgjandi mynd má sjá samningaðila við undirritunina. Frá vinstri; Lovísa Hallgrímsdóttir, ritari stjórnar SSSK, Margrét Pála Ólafsdóttir, formaður SSSK, Sigurður Bessason, formaður Eflingar og Harpa Ólafsdóttir, formaður kjaramálasviðs Eflingar.