Víetnamar læra um vinnumarkaðinn

11. 01, 2006


Ánægja með námskeið

Víetnamar læra um vinnumarkaðinn

Efling-stéttarfélag hélt námskeið fyrir félagsmenn sína frá Víetnam fyrir áramótin.  Viðfangsefni námskeiðsins var sjálfstyrking og samskipti, vinnumarkaðurinn og stéttarfélagið. Námskeiðið stóð í þrjú kvöld. Kynntar eru skyldur starfsmanna og hverjar eru skyldur fyrirtækja gagnvart starfsmönnum sínum. Ýmiss konar þekking var kynnt sem miðar að því að draga úr líkum á misskilningi á milli starfsmanna og yfirmanna í fyrirtækjum.

Fyrirkomulag á Íslenskum vinnumarkaði var kynnt eins og hvaða laun er verið að greiða, hvaða ráðningarform eru til staðar og uppbygging lífeyrissjóða. Einnig var fjallað um hvaða réttindi og skyldur fylgja því að vera félagi í Eflingu-stéttarfélagi.

Farið var í mismunandi framkomu, tjáskipti og grundvallaratriði samskipta. Bent var á leiðir til að vera öruggari í framkomu og þætti sem leiða til farsælla samskipta. Kennslan fór fram á víetnömsku. Námskeiðið tókst vel. Þátttakendur greindu frá ánægju sinni með þetta framtak og hafa áhuga á að sækja fleiri námskeið. Um 30 Víetnamar sóttu námskeiðið að hluta eða öllu leyti.