Örkumla og utangarðs

Grimm örlög Pólsks verkamanns:

Örkumla og utangarðs

Hinn tæplega fertugi Ireneusz Gluchowski er örkumla eftir vinnuslys og blóðeitrun en býr við óvissu um réttindi og bætur vegna lögbrota Jarðvéla ehf. sem réði hann til vinnu án þess að tryggja atvinnuleyfi. Eftirlitsstofnanir brugðust Pólverjanum í þessu hörmulega máli. Það er grafalvarlegt þar sem aðrir útlendingar gætu lent í sambærilegum ógöngum.

Þegar pólskur verkamaður kom til Íslands og hóf störf hjá verktakafyrirtækinu Jarðvélum, var ekki rétt staðið að því að tryggja honum réttindi og vernd gegn slysum eða veikindum. Tryggingafyrirtæki sótti um kennitölu í hans nafni, en engin umsókn var lögð fram um atvinnuleyfi. Pólverjinn fékk kennitölu en var af Þjóðskrá settur á „Utangarðsskrá“, þar sem útlendir einstaklingar eru þar til frekari leyfi eru fyrir hendi. En Pólverjinn hélt einmitt áfram að vera utangarðs.

Þegar hann síðan varð fyrir vinnuslysi og blóðeitrun og lá milli heims og helju á Landspítalanum hafði fyrirtækið gleymt honum og stofnanir samfélagsins heyrðu engar viðvörunarbjöllur – þótt um sé að ræða mikilvægt fordæmismál gagnvart þeim útlendingum sem starfa hér án tilskilinna leyfa og réttinda. Eftirlitskerfið brást og hefur vart enn byrjað að uppfylla skyldur sínar. Á meðan bíður fertugur Pólverji eftir svörum, búinn að missa báða fætur fyrir neðan hné, annað nýrað og mikla heyrn. Hann virðist réttlaus á öllum vígstöðvum og verður fyrst og fremst að treysta á mannúðarsjónarmið að óbreyttu.

Pólverjinn er ekki félagi í Eflingu, en félagið hefur hins vegar tekið að sér að liðsinna honum eins og kostur er, veita honum ráðgjöf og styrkja hann fjárhagslega meðan hann býr enn við óvissu um réttindi og bætur. Ireneusz Andrzej Gluchowski, hinn 39 ára Pólverji, kom fyrst til landsins í desember 2004, en ákvað að koma aftur um miðjan apríl 2005 og þá með í huga að fá einhverja vinnu.

Hann segist hafa aflað sér upplýsinga ytra og að sér hafi verið sagt að til að búa og starfa á Íslandi þyrfti hann að fá kennitölu.

Hélt að kennitalan dygði

Sjálfur segist Ireneusz hafa talið að kennitala væri allt sem þyrfti og hans mál þar með öll komin á hreint. Það virðist deginum ljósara að Jarðvélar ehf. hafi ekki sinnt lögbundinni skyldu sinni varðandi atvinnuréttindi hans

Hann hóf í lok apríl störf hjá fyrirtækinu Eykt, sem var í jarðvegsframkvæmdum við Borgartún í Reykjavík og starfaði þar í viku, en segist þá hafa óskað eftir vinnu hjá Jarðvélum ehf. Þar hóf hann störf 5. maí, en Vörður-Ísla      ndstrygging, var skráður umboðsaðili Ireneusz í umsókn um skráningu og úthlutun kennitölu til erlends ríkisborgara. Áður hafði Ireneusz fengið leigða íbúð að Barmahlíð 7 í Reykjavík og fengið hana skráða sem löglegt aðsetur.

Aðdragandi blóðeitrunar

Undir lok júní 2005 gerast þeir atburðir sem leiddu til örkumla Irenusz, en þá voru Jarðvélamenn að vinna við framkvæmdir skammt frá Akranesi. „Ég vann ekki langt frá Akranesi uppi í fjöllum. Ég vann við að steypa sökkla og koma fyrir stögum undir rafmagnsstaura, en þann 20. júní vorum við fluttir á annan stað. Þá bjuggum við í gömlum skóla en vorum á hverjum degi keyrðir um 15 kílómetra upp á fjöll þar sem við unnum,“ segir Ireneusz.

Um það bil 25. eða 26. júní varð Ireneusz fyrir vinnuslysi sem leiddi til þess að hann fékk sár á hendur, sem blæddi úr. Ekki var tilkynnt um atvikið, enda ólíklegt að á þeim tíma hafi verið litið á þetta sem alvarlegt atvik.

Veiktist hastarlega

Hins vegar veiktist Ireneusz hastarlega 29. júní. „Í enda júní komu notaðir gámar sem átti að nýta undir vinnubúðir. Gámarnir voru fullir af drasli, t.d. flöskum, blöðum, spýtum og fleira. Ég og tveir aðrir starfsmenn vorum settir í að þrífa gámana og gera þá íbúðarhæfa. Við byrjuðum að koma matsalnum í stand, þar sem að ég þreif m.a. ísskáp sem innihélt gamlar matarleifar. Ég þreif líka aðra skápa og bakaraofn.“

Þann 29.júní leið honum skyndilega illa, í hádegismatnum og hélt að hann væri haldinn flensu, þannig hafi einkennin verið. „Ég sagði verkstjóra mínum að mér liði mjög illa og að ég treysti mér ekki til að vinna meira þann dag. Eftir þetta samtal sagði verkstjórinn mér að fara niður í  skólann þar sem að við bjuggum. Samstarfsmaður minn  skutlaði mér í skólann og ég fór að sofa. Um klukkan fjögur síðdegis vakti annar samstarfsmaður mig og sagði mér að hann og tveir aðrir starfsmenn ætluðu til Reykjavíkur og að ég yrði að fara með. Það væri ákvörðun verkstjórans.“

Skelfingu lostinn

Samstarfsmennirnir óku Ireneusz heim í Barmahlíðina, þar sem hann lagðist til svefns. „Ég vaknaði um sexleytið og varð skelfingu lostinn þegar ég sá að hendur mínar og fætur voru svartar. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég væri ekki bara með flensu. Ég notaði mína síðustu krafta til að fara til nágranna míns á hæðinni fyrir ofan og bað hann um að hringja á sjúkrabíl. Eftir stutta stund kom sjúkrabíll og keyrði mig á spítala, en mér leið allan tímann mjög illa.“

Eftir komuna á spítalann man hann að hann fékk súrefnisgrímu og sprautu og að síðan hafi hann sofnað. „Ég vaknaði aftur meira en tveimur mánuðum seinna eða í byrjun september. Þegar að ég komst aftur til meðvitundar sá ég að ég hafði engar fætur.“

Passinn fannst í buxnavasa

Starfsfólki bráðamóttöku Landspítalans var vandi á höndum þegar komið var með Ireneusz. Nágranninn hafði komið með honum í sjúkrabílnum, en síðan farið aftur þegar Ireneusz var kominn í öruggar hendur. En það var ekki auðhlaupið að því að finna út hver maðurinn væri og hann sjálfur rænulítill eða meðvitundarlaus með öllu.

Haft var samband við Ríkislögreglustjóraembættið, sem fann út dvalarstað mannsins og í kjölfarið fannst sími hans og tölva. Nafn mannsins fannst á launaseðli og haft var samband við heiðursræðismann Póllands á Íslandi, Friðrik Gunnarsson. Það var hins vegar starfsfólk Landspítalans sem fann vegabréf Pólverjans í buxnavasa í Barmahlíðinni. Í kjölfarið kom staðfesting á því hver maðurinn væri.

Fátt til hjálpar

Spítalinn hafði samband við Friðrik ræðismann og bað hann m.a. að hafa samband við Pólland með í huga pólskan spítala sem gæti tekið við Ireneusz þegar að því kæmi. Náði það svo langt að sjúkrahús rétt hjá Kraká var komið í málið, en ekki hefur reynst unnt ytra að taka við honum miðað við læknisfræðilegar kröfur Landspítalans um tryggan, reglulegan aðgang að blóðskilunarvél. Með þau svör í höndunum hefur spítalinn haldið áfram að sinna Ireneusz, sem nú er í endurhæfingu og um það bil að fá gervilimi í mannúðarboði Össurar hf.

Þá virðast þær upplýsingar hafa komið fram hjá systurstofnun Tryggingastofnunar ríkisins í Póllandi að Irenusz sé ekki sérstaklega eða félagslega tryggður þarlendis, hann hafi þannig ekki tilheyrt sjúkrasamlagi. Í samtali við Friðrik nefnir hann að hvorki sendiráð Póllands í Noregi eða hann sem ræðismaður hafi í sjóði að leita til að koma Ireneusz til hjálpar.

Mannúð í öndvegi

Friðrik segir að það séu mannúðarsjónarmið að senda Ireneusz ekki út í læknisfræðilega óvissu í Póllandi. „Ég get varla ímyndað mér meiri athygli og góðmennsku en þá sem hann hefur notið af hálfu Landspítalans og síðan er Össur að færa honum gervilimi. Þá hafa Pólsku nunnurnar í Hafnarfirði sinnt honum duglega.“

Ireneusz vaknaði sem fyrr segir upp við þann hrylling í byrjun september að vera fótalaus báðum megin fyrir neðan hné, en auk þess varð annað nýrað óvirkt, heyrn horfin af vinstra eyra og hægra eyrað aðeins með hálfa heyrn, en fyrir þessa atburði var Ireneusz að eigin sögn stálhraustur.

Atvinnuleyfi þýðir sjúkratrygging

Úr lögum um atvinnuréttindi útlendinga

Lögin gefa heimild til að veita atvinnuleyfi vegna starfa útlendinga hér á landi í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni. Lögunum er einnig ætlað að tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins í atvinnuskyni og kveða á um rétt útlendinga til atvinnu hér á landi að ákveðnum skilyrðum fullnægðum…

 Óheimilt er hverjum manni, félagi eða stofnun, sem rekur atvinnu eða starfrækir fyrirtæki, hverju nafni sem það nefnist, að ráða útlending til starfa, hvort heldur er um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingur flytjist til landsins í því skyni án atvinnuleyfis…

 Tímabundið atvinnuleyfi er veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa. Skilyrði þess að atvinnuleyfi megi veita samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:

 …b. Að fyrir liggi umsögn stéttarfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein eða viðkomandi landssambands…

 …c. Að fyrir liggi undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefnis sem tryggi starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn…

 d. Að atvinnurekandi sjúkratryggi erlendan starfsmann þannig að hann njóti verndar til jafns við ákvæði almannatryggingalaga.

 Tímabundið atvinnuleyfi skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Frá þessu má þó víkja ef ríkar sanngirnisástæður eru fyrir hendi…


Jarðvélar lítið fylgst með örlögum Ireneuszar

Svo er hins vegar að sjá að fyrirtækið Jarðvélar ehf. hafi lítið og jafnvel ekkert fylgst með örlögum Ireneusz í kjölfar slyssins og veikindanna. Frétt birtist í DV um örlög Irenuszar þann 11. janúar 2006 og þá virðist fyrirtækið hafa sent að sjúkrarúminu starfsmann, samlanda Ireneusz.

Telur Ireneusz að fyrirtækið hafi kostað flugmiða og gistingu fyrir fyrrum eiginkonu Ireneusz sem kom og dvaldi hér um hríð, en aðrar upplýsingar benda til þess að það hafi verið starfsfólk á Landspítalanum sem hafði frumkvæðið að söfnun vegna hingað komu fyrrum eiginkonunnar og Severins, 18 ára sonar Ireneusz.

Vinnumálastofnun með málið til skoðunar

Vinnumálastofnun kom seint inn í mál þetta. Hins vegar hefur Gissur Pétursson, forstjóri stofnunarinnar, staðfest að stofnunin sé með málið til skoðunar í ljósi meintra brota á ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga, enda sé það saknæmt athæfi að ráða til sín menn í vinnu á þann hátt sem gert var.

Unnur Sverrisdóttir lögfræðingur stofnunarinnar staðfestir að til skoðunar sé að kæra fyrirtækið fyrir brot á þeim lögum.

Fékk kennitölu án tilskilinna leyfa

Eftir því sem best verður séð lendir Ireneusz gjörsamlega á milli kerfa. Hann hefur engin félagsleg réttindi á Íslandi og virðist ekki heldur tilheyra neinu sjúkrasamlagi eða tryggingakerfi í Póllandi.

Hér á landi hefur það vakið eftirtekt að Ireneusz hafi fengið kennitölu án þess að það væri beintengt veitingu atvinnuleyfis, en Þjóðskrá upplýsir að kennitölu er úthlutað þegar t.d. tryggingafélag sækir um og er umboðsaðili, en þetta er nokkurs konar bráðabirgðaskráning meðan beðið er eftir því að öll leyfi komi í hús, ekki síst atvinnuleyfi.

Hvað varð um tilkynninguna?

Úr lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum

Atvinnurekandi skal skrá öll slys sem eiga sér stað á vinnustaðnum og leiða til andláts eða óvinnufærni starfsmanns í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Hið sama gildir um þá sjúkdóma sem atvinnurekandi hefur rökstuddan grun eða vitneskju um að eigi rætur sínar að rekja til starfsins eða annarra aðstæðna á vinnustaðnum. Einnig skal atvinnurekandi skrá óhöpp sem eiga sér stað á vinnustaðnum og eru til þess fallin að valda slysum.

 Atvinnurekandi skal án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar semstarfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Atvinnurekandi skal innan viku tilkynna skriflega um slysið til Vinnueftirlits ríkisins.

 Vinnueftirlit ríkisins skal rannsaka orsakir slysa, óhappa og mengunar sem tilkynnt er um… í þeim tilgangi að stuðla að því að komið sé í veg fyrir að slíkt endurtaki sig á vinnustöðum.

 Þegar Vinnueftirliti ríkisins hefur borist tilkynning skulu starfsmenn þess fara á staðinn án ástæðulauss dráttar til að hefja vettvangskönnun.

Engar tilkynningar um afleiðingar alvarlegs vinnuslyss

Engar tilkynningar voru sendar vegna vinnuslyssins og/eða veikindanna af hálfu fyrirtækisins og Vinnueftirlitið kom því ekki að málum strax í upphafi. Reyndar virðist stofnunin hafa gengið út frá því, miðað við þá þekktar staðreyndir, að ekki hafi verið um vinnuslys að ræða og málið því ekki á könnu stofnunarinnar. Miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir hlýtur stofnunin að láta málið til sín taka á næstu dögum. Þá kann aðkoma rannsóknardeilda lögregluyfirvalda að vera nauðsynleg fyrr en síðar.

Enda er það nær samdóma álit viðmælenda greinarhöfundar að mjög nauðsynlegt sé að örlög Ireneusz verði könnuð með fullgildum rannsóknum, þ.m.t. öflun gagna og vitnaleiðslum. Það sé skuld íslenska samfélagsins við hinn grátt leikna Pólverja.

Friðrik Þ Guðmundsson, blaðamaður.

 

Jarðvélar viðurkenna mistök

Fyrirtækið Jarðvélar ehf. hefur falið Ragnari Árnasyni, lögfræðingi SA, að svara til um málið fyrir hönd þess. Í greinargerð sem Ragnar hefur unnið vegna máls Ireneusz Gluchowski kemur meðal annars fram að fyrirtækið hafi gert mistök. „Jarðvélar viðurkenna að mistök voru gerð við ráðningu hans og að ganga hefði átt eftir staðfestingu á atvinnuleyfi frá Vinnumálastofnun. Stóð fyrirtækið í þeirri trú að einstaklingur með íslenska kennitölu væri fullgildur á íslenskum vinnumarkaði.“

Forsvarsmenn Jarðvéla segja að hvorki þeir né starfsmenn fyrirtækisins hafi nokkra hugmynd um það hvernig Ireneusz fékk blóðeitrun, en vitnisburður hafi komið fram um að hann hafi hruflað sig á fingri. „Hann hafi bundið um fingur sér með límbandi og haldið áfram að vinna. Starfsmaðurinn þekkti hins vegar ekki ástæður þess að Irenusz hruflaði sig og getur ekki staðfest hvenær það gerðist. Verkstjóra var ókunnugt um það atvik.“

Irenusz var að sögn lögfræðings Jarðvéla orðinn veikur að morgni föstudagsins 24. júní, en ekki fárveikur. „Hann var þá ekki illa haldinn og fyrir kvöldmat lék hann sér við syni verkstjórans sem þar voru staddir. Allir starfsmenn fóru í bæinn að kvöldi og var ekki hægt að sjá að Ireneusz væri alvarlega veikur. Ekkert heyrðist frekar frá honum og taldi fyrirtækið að hann hefði hætt störfum. Öll áunnin laun voru þá greidd inn á bankareikning hans auk þess sem greitt var iðgjald til Lífeyrissjóðsins Framsýnar og félagsgjald sent Eflingu stéttarfélagi.“

Fyrirtækið staðfestir að áður en Ireneusz veiktist hafi hann unnið í Hvalfirði við að setja niður undirstöður fyrir raflínumöstur vegna Sultartangalínu 3 og festa bergbolta og setja saman íbúðagáma fyrir starfsmenn. Ekkert komi þó fram um að hann hafi orðið fyrir vinnuslysi hjá fyrirtækinu við þá vinnu. Þá tekur lögfræðingurinn fram að hvorki Ireneusz né aðrir starfsmenn hafi unnið með efni sem telja verði skaðleg.

Forsvarsmönnum Jarðvéla telja mikilvægt að kannað verði til hlítar hvort ástand Ireneuszar megi á einhvern hátt rekja til starfa hans hjá Jarðvélum. Hefur fyrirtækið m.a. lagt áherslu á við Vinnueftirlit ríkisins að málið verði rannsakað.

Ljóst að kerfið virkaði ekki

– segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar

Það er ljóst að hörmulegt slys átti sér stað í máli Ireneusz Gluchowski og lýst er hér í blaði Eflingar. Það er einnig mjög alvarlegt að það skuli geta gerst að maður liggi meðvitundarlaus á sjúkrahúsi vikum saman án þess að haft sé samband við lögreglu, Vinnueftirlit og Vinnumálastofnun. Þá blasir við að þessar stofnanir áttu strax og málið kom til þeirra að láta rannsaka það m.a. til þess að tryggja að öllum málsatvikun væri haldið til haga. Ef um sýkingarhættu var að ræða hefði mátt ætla að fleiri einstaklingar gætu verið í hættu, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar-stéttarfélags.

Það veldur áhyggjum að þegar mál þetta er upplýst opinberlega að vísu sex mánuðum of seint og í ljósi þess hversu afleiðingarnar eru stófelldar skuli Vinnueftirlitið ekki bregðast við heldur gefa út yfirlýsingu að óathuguðu máli um að þarna hafi ekki átt sér stað slys.

Þrátt fyrir að Ireneusz hafi lent í mjög alvarlegum sjúkleika sem líklega stafar af vinnuslysi hefur ennþá hálfu ári eftir atvikið, engin skýrsla verið tekin af honum svo vitað sé.

Það veldur áhyggjum þegar Vinnumálastofnun er upplýst um að atvinnurekandi hefur brotið öll lög um atvinnuleyfi útlendinga skuli stofnunin ekki kæra málið samstundis til lögreglu og fram fari rannsókn á því hvort þetta hafi verið einstakt tilvik eða hvort aðrir starfsmenn fyrirtækisins unnu eða vinna við sömu aðstæður.

Þá er það stórt áhyggjuefni að fyrirtæki sem þekkja til allra reglna á íslenskum vinnumarkaði skuli brjóta lög á alla kanta. Fyrst með því að afla ekki tilskilinna leyfa bæði hvað varðar atvinnuleyfi og ekki síður að hafa starfsmenn ótryggða í vinnu. Síðan með því tilkynna ekki um málið til neinna þar til bærra yfirvalda eins og þeim bar sannanlega skylda til, hvort sem maðurinn hafði atvinnuleyfi eða ekki.

Við hljótum að spyrja hvort þetta mál hafi þróast eins og raun barvitni vegna þess að útlendingur var hér án atvinnuleyfis. Við hljótum að svara því neitandi.

Það er ljóst að kerfið virkaði ekki. Af þessu þurfum við að læra og taka upp betri starfshætti og tryggja að svona mál komi ekki upp aftur.