Starfsfólk á hjúkrunarheimilum

29. 03, 2006

Starfsfólk á hjúkrunarheimilum

Mótmælir misrétti í launamálum

Starfsmenn nokkurra dvalar- og hjúkrunarheimila í Reykjavík, Hafnarfirði og í Hveragerði fara sér hægt við vinnu í dag. Aðgerðir þeirra eru sjálfsprottnar og til þess gerðar að hafa áhrif á fjármála og heilbrigðisráðuneyti, sem hingað til hefur neitað að leggja aukið fjármagn til hjúkrunarheimilanna til að hægt sé að lagfæra kjör þessa fólks.   Samtals um 900 starfsmenn vilja með aðgerðunum vekja athygli á því misrétti sem þeir búa nú við miðað við aðra hópa við umönnunarstörf sem hafa fengið launaleiðréttingar að undanförnu. Uppsagnir eru nú í gangi á þessum vinnustöðum þar sem gífurlegt álag ríkir vegna þess að of fátt fólk er eftir til að sinna mjög vandsömum störfum við umönnun aldraðra.

Nýir samningar við Reykjavíkurborg sem tóku gildi frá 1. október 2005 leiðréttu kjör þeirra sem sinna umönnun barna og aldraðra umtalsvert. Eftir þessar launaleiðréttingar hefur nú tekist hjá borginni að manna umönnunarstörfin sem að mestu leyti eru unnin af konum. Starfsmenn á dvalar og hjúkrunarheimilum bera sig nú eðlilega saman við launakjörin í borgarsamningngum.

Konur eru í yfir 90% þeirra umönnunarstarfa sem félagsmanna Eflingar sinna hjá ríki og hjúkrunarheimilum.  Þessi umönnunarstörf snúa nánast eingöngu að umönnun aldraðra. 

Ýmsar ástæður hafa leitt til þess að störf þeirra sem sinna öldruðum er sífellt að verða erfiðari og meira slítandi. Illa hefur gengið að manna störfin sem þýðir aukið álag á þá sem eftir eru á vinnustöðunum.

Efling hefur reynt allt frá vorinu 2005 að knýja fram viðbrögð frá stjórnendum hjúkrunarheimila og ríkisins en ekkert hefur gengið. Þetta hefur kallað á viðbrögð starfsmanna sem ekki verða misskilin.