Vaxhólmsmálið

Tryggvi Þór Aðalsteinsson skrifar frá Svíþjóð

 

Vaxhólmsmálið

Deilt um grundvallarrétt

Prófsteinn í samskiptum á vinnumarkaði í Evrópu

Réttindi og staða stéttarfélaga er enginn sjálfsagður hlutur. Réttindin þarf stöðugt að verja og treysta. Það hefur komið skýrt í ljós í svo kölluðu Vaxhólmsmáli hér í Svíþjóð, en þar er tekist á um gildi samningsréttar sænskra stéttarfélaga. Um er að ræða annars vegar rétt Samtaka byggingamanna, Byggnads, að semja um kjör starfsmanna erlends fyrirtækis og hins vegar túlkun á reglum Evrópusambandsins, ESB, um rétt fyrirtækja frá einu ESB-landi að starfa í öðru landi innan sambandsins með starfsfólk frá eigin landi og samkvæmt samningum sem gilda í heimalandinu. Þetta segir Tryggvi Þór Aðalsteinsson í pistli frá Svíþjóð.

Samtök byggingamanna halda því fram að fyrirtækið, sem í þessu tilviki er litháíska byggingafyrirtækið Laval, sé skylt að skrifa undir samning við Byggnads sem sé sambærilegur við aðra samninga byggingamanna í Svíþjóð. Að öðrum kosti sé fyrirtækinu óheimilt að starfa í landinu. Byggnads leggur áherslu á að sambandið er ekki á móti því að erlend fyrirtæki með eigið starfsfólk taki að sér verk í Svíþjóð. Eina skilyrðið er að kjör og réttindi starfsmanna séu ekki lakari en innlendra byggingamanna og að það sé tryggt með samningi á milli viðkomandi fyrirtækis og sænsks stéttarfélags.

Forráðamenn og lögmenn Laval halda því hins vegar fram, að ESB-samþykktin um frelsi atvinnurekenda að starfa innan Evrópusambandsins, tryggi þeim rétt til að starfa í Svíþjóð rétt eins og í Litháen og samkvæmt þeim samningum sem fyrirtækið hefur gert við viðkomandi stéttarfélag þar í landi eða við starfsmennina sjálfa. Ef svo væri er ljóst að erlendir starfsmenn, meðal annars frá Austur-Evrópu, gætu starfað í Svíþjóð á mun lægri launum og lakari kjörum en tíðkast og sænskir samningar kveða á um.

Leitað til Félagsdóms

Verkefni litháíska fyrirtækisins var viðbygging við skóla í bænum Vaxhólmi, skammt frá Stokkhólmi. Fyrirtækið skrifaði undir verksamning við fulltrúa bæjarins og tók til starfa í september 2004. Þrátt fyrir ítrekaðar viðræður tókust ekki samningar á milli Byggnads og fyrirtækisins. Byggnads tók ákvörðun um verkbann á fyrirtækið sem brást við með því að gera samning við samtök byggingamanna í Litháen, sem gilti eingöngu um starfsmenn sem störfuðu utan Litháen og óháð því hvort þeir væru félagsbundnir í stéttarfélagi eða ekki. Í samningnum var þar að auki ákvæði um að fyrirtækinu væri óheimilt að semja við önnur stéttarsamtök. Jafnframt tilkynnti fyrirtækið Byggnads að það liti á boðað verkbann sem ólöglegt.

Laval snéri sér auk þess til Félagsdóms í Svíþjóð með kröfu um að dómurinn úrskurði verkbannið ólögmætt og í andstöðu við reglur Evrópusambandsins. Félagsdómur hafnaði því að stöðva verkbannið og felldi engan úrskurð um hvort aðgerðirnar stríddu gegn reglum ESB eða ekki. Þá snéri Laval sér til Hæstaréttar og fór fram á að ákvörðun Félagsdóms yrði lýst ógild. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Félagsdómur hafi ekki brotið gegn lögum og að aðgerðir samtaka byggingamanna væru í fullu samræmi við sænsk lög. Í lok nóvember 2004 boðuðu samtök sænskra rafiðnaðarmanna til samúðaraðgerða. Fleiri stéttarsambönd innan Sænska alþýðusambandsins fylgdu í kjölfarið og lýstu yfir stuðningi við félaga sína í Byggnads.

Um svipað leyti höfðu litháísk stjórnvöld samband við sænsku ríkisstjórnina og kvörtuðu undan því að litháískt fyrirtæki væri hindrað í að starfa í Svíþjóð. Málið var nú komið á hæsta stig og innan Evrópusambandsins var fylgst af athygli með því hvernig málin þróuðust.

Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun telja átta af tíu Svíum að erlendum fyrirtækjum beri að fylgja sænskum lögum og samningum og styðja þar með þá skoðun að í þessu sambandi beri að túlka innlenda kjarasamninga stéttarfélaga rétthærri en samþykktir Evrópusambandsins.

Í febrúar 2005 hvarf fyrirtækið frá Vaxhólmi en litháísku starfsmennirnir voru þá farnir heim fyrir nokkru. Verkbannið, sem hafði staðið í 101 dag, var aflýst.

Grundvallaatriði vinnuréttar

En deilan var ekki úr sögunni. Málið er enn í höndum Félagsdóms og ekki búist við að endanlegur úrskurður fáist fyrr en um mitt ár 2007. Félagsdómur vill fyrst fá álit dómstóls Evrópusambandsins.

Auk þess eru ýmsir aðilar í Svíþjóð kallaðir til og óskað eftir áliti þeirra. Þar á meðal ríkisstjórn Svíþjóðar. Samhliða því halda umræður áfram á síðum dagblaða og í öðrum fjölmiðlum. Málið snýst um grundvallaratriði í sænskum vinnurétti og afgerandi þátt í samskiptum atvinnurekenda og stéttarfélaga. Málið er af pólitískum toga og meðal stjórnmálamanna eru glögg skil á milli vinstri og hægri. Á hægri kantinum eru þeir sem gjarnan vilja hnekkja stöðu stéttarfélaganna og veikja réttindi þeirra.

Nýlega vakti það athygli þegar í ljós kom að samtök sænskra atvinnurekenda höfðu borið allan lögfræðikostnað Laval við málsóknina gegn Byggnads. Ríkisstjórn jafnaðarmanna, með atvinnumálaráðherrann Hans Karlsson í broddi fylkingar, styður hins vegar Byggnads og stendur þar með að baki verkalýðshreyfingunni hvað varðar samnings- og verkfallsréttinn. Hans Karlsson hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar skilað áliti í deilunni og þar kemur skýrt fram að réttur stéttarfélaga til aðgerða til að knýja á um samninga er á engan hátt í andstöðu við reglur Evrópusambandsins. Hans Karlsson leggur áherslu á að verkfallsrétturinn er meðal grundvallarréttinda í þjóðfélaginu. Rétturinn er auk þess tryggður í samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, Mannréttindasáttmála Evrópu, samþykktum Evrópusambandsins og í sænsku stjórnarskránni. Samkvæmt samþykktum ESB eru þau mál sem snerta félags- og vinnumarkaðsmál í höndum þjóðþinga aðildarlandanna og geta verið með mismunandi hætti í ólíkum löndum. Hins vegar eiga allir í sama landi, bæði einstaklingar og fyrirtæki, að búa við sömu réttindi og skyldur. Réttur stéttarfélaga til samninga og aðgerða á vinnumarkaði er mikilvæg leið til að tryggja stéttarfélögum möguleika að vinna að jafnrétti einstaklinga og hópa. Jafnrétti sem Evrópusambandið krefur af aðildarríkjum sínum.

Sérfræðingar á annarri skoðun en stjórnvöld

Afstaða ríkisstjórnarinnar er umdeild. Sérfræðingar í vinnurétti hafa látið þá skoðun í ljós, að ef sænskur samningsréttur er túlkaður í vil stéttarfélögunum, mismuni það erlendum fyrirtækjum og sé í andstöðu við reglur ESB um frelsi fyrirtækja og einstaklinga til starfa í löndum sambandsins. Ennfremur telja þeir hæpið að sænsk stéttarfélög geti með hótunum krafið erlent fyrirtæki til að skrifa undir samninga samtímis sem fyrirtækið er aðili að samningi við stéttarfélag í sínu heimalandi. Í Svíþjóð er stéttarfélagi ekki heimilt að gera samning við fyrirtæki svo lengi sem annar samningur er í gildi, sem nær til sömu vinnu.

Áfangasigur

Skoðun og sjónarmið sænsku verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar fékk fyrir skömmu stuðning Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þegar stjórnin skilaði álit sínu í sambandi við Vaxhólmsdeiluna. Stjórnin sér engar grundvallarandstæður á milli sænsks vinnuréttar og samþykktar ESB um frjálsa atvinnustarfsemi innan sambandsins. Þetta álit er tvímælalaust áfangasigur fyrir sænska byggingamenn og sænska verkalýðshreyfingu.