Verkefni Eflingar með Hjálparstarfi kirkjunnar

Fjöldi leiðtoga í flremur stéttarfélögum sat námskeið til þess að efla baráttu stéttlausra á Indlandi fyrir réttindum sínum. Efling greiddi kostnað við námskeiðið sem samstarfsaðilar Hjálparstarfs kirkjunnar á Indlandi stýrðu

Verkefni Eflingar með Hjálparstarfi kirkjunnar á Indlandi

Social Action Movement samtökin hafa helgað sig réttindabaráttu stéttlausra sem eru Dalítar, Írúlar-, Tribal-fólks og fleiri.  Þeim er mismunað á öllum sviðum mannlífs og samfélags og það hefur tíðkast samkvæmt trúarhefð um allar aldir. SAM hefur unnið að mannréttindum þeirra í um tvo áratugi.

SAM hefur hvatt til og unnið að því að stofna félög verkafólks úr hópi stéttlausra. Markmiðið er að auka mannréttindi þeirra, virðingu meðal samborgara og styrkja afkomu þeirra og þar með sjálfstæði og frelsi undan oki stéttakerfisins. Nú starfa fjögur slík stéttarfélög sem unnið er með til þess að efla leiðtoga þeirra. Verkefni SAM er að útrýma stéttamismun og skapa samfélag án ánauðar.

Hér að neðan má sjá hvernig eitt verkefni SAM sem kostað er af Eflingu á þessu ári fer fram.

Dæmi um verkefni í janúar 2006

1. Leiðtogaþjálfun
Dags.: 30.-31. janúar 2006
Staður: Legal Resources for Social Action (LRSA), Chengelpet
Stéttarfélög sem tóku þátt:
Félag Irúla-fólks: 26 leiðtogar
Félag þvottafólks: 13 leiðtogar
Félag kvenna: 11 leiðtogar
Starfsfólk SAM: 7
Fyrirlesarar / leiðbeinendur: 3
Samtals 60 manns.
Viðfangsefni: Að styrkja starfsemi félaganna og sjálfsbjargarmöguleika aðilanna.

Leiðtogarnir fengu þjálfun og hvatningu, skiptust á skoðunum og tóku ákvarðanir um aðgerðir á námskeiði sem Efling kostaði í gegnum Hjálparstarf kirkjunnar

 

Markmið:

• Að fræða, þjálfa og hvetja leiðtogana til starfa.
• Laða fram og skerpa leiðtogahæfileika og auka skilning á þjóðfélagsskipan á Indlandi.
• Að efla skilning á lögum um mannréttindi og fræða um ný lög um rétt fólks til upplýsinga.

Dagskrá 30. janúar 2006

Morgunn

G. Karunakaran og forseti SAM settu námskeiðið. Talað var um mikilvægi einingar í stéttarfélögunum, nauðsyn þess að gera áætlanir og að sjá til þess að allir vinni það verk innan heildarinnar sem ákveðið hefur verið. Allir þátttakendur kynntu sig og ýtti það undir skoðanaskipti.

Fyrsti leiðbeinandinn var Yakkan, rithöfundur og blaðamaður (Dalíti). Hann sagði stéttlausa ekki eiga sér neina framtíð í samfélagi hindúa því stéttaskiptingin væri órjúfanlegur hluti þess. Hann sagði að góður ásetningur og aðgerðir stjórnvalda hefðu ekki náð til Dalíta vegna þess að þeir sem eiga að framkvæma þær séu hluti stéttakerfisins. Til þess að brjótast út úr ramma stéttaskiptingarinnar þurfi fólk að skilja samfélagsgerðina og greina leiðir til að losna út úr stéttleysinu. Hann sagði það mögulegt með því að skapa sér atvinnu sjálfur og vera þannig sem minnst háður æðri stéttum. Stéttlausir þyrftu að mótmæla því grófa ofbeldi sem þeir verða fyrir og verða eins sjálfstæðir og þeir gætu í gegnum menntun og fleira.

Eftir hádegi

Vinnan hófst með nokkrum baráttusöngvum. R. Ramaprabu leiddi seinni hlutann, talaði um menntun og ábyrgð leiðtoga. Hann lýsti vel þróuninni í indversku menntakerfi og hvernig opinbert skólahald hafi aldrei náð til stéttlausra. Hann lýsti möguleikum sem leiðtogar gætu nýtt til þess að efla næstu kynslóðar stéttlausra.

Kvöld

Dayalan fjallaði um ýmsa leiðtoga Dalíta í sögulegu samhengi einkum Rettamalai Srinivasan og Dr. Ambedkar (innsk. Jón Sigurðsson þeirra Dalíta). Um leið gaf hann viðstöddum fyrirmyndir til þess að efla skilning þeirra á baráttunni.

Hópnum var svo skipt í þrennt og ræddu leiðtogarnir um aðstæður hver á sínu heimasvæði. Skiptust þeir á skoðunum og ræddu um hvernig þeir gætu stuðlað að því að koma af stað skólastarfi fyrir börn. Teknar voru ákvarðanir sem greint er frá síðar.

Sýndar voru tvær stuttmyndir The Untouchable Country og Shit sem fjallar um stéttlausa sem vinna við að handhreinsa kamra og skít.

 

Vinir í Eflingu

Hlýjar kveðjur frá Indlandi

Efling-stéttarfélag fær hlýjar kveðjur frá Mannréttindasamtökunum Social Action Movement á Suður Indlandi. Kveðjan kemur frá Fr.P.B Martin sem er einn helsti forsvarsmaður hreyfingarinnar. Efling-stéttarfélag tók á síðasta ári ákvörðun um að styðja samtökin með fjárstyrk sem notaður verður til að efla leiðtogaþjálfun, námskeiðahald og fleiri framfaramál fyrir stéttlausa og fátækt fólk á Indlandi. Bréf hans er svohljóðandi:

Vinir í Eflingu,

Sendum ykkur kveðjur frá Mannréttindasamtökunum Social Action Movement á Suður-Indlandi.

Við þökkum hjartanlega rausnarlegan stuðning við áætlun okkar um að styðja stéttlausa verkamenn í Kanchipuram-héraði í Tamil Nadu-fylki, Suður-Indlandi.

Í janúar 2006 stóðu samtökin fyrir:

1. leiðtogaþjálfun fyrir leiðtoga þriggja stéttarfélaga undir hatti samtakanna.

2. Námskeiðum, aukakennslu fyrir stéttlausa og aðra fátæka nemendur til þess að þau stæðu betur að vígi í samræmdum prófum og ættu meiri möguleika á að komast áfram í námi eða fá góða vinnu.

Við höfum tekið saman skýrslu um þessi tvö verkefni.

Eitt verkefni til viðbótar er ráðgert í janúar. Snýst það um að greiða aðildargjöld fyrir 150 stéttlausa, ófélagsbundna verkamenn í opinberan tryggingasjóð. Ekki tókst að ljúka því í janúar en því verður lokið í febrúar.

Einlægar þakkir,
Fr. P.B. Martin