Aðalfundur Eflingar um frjálsa för launafólks eftir 1. maí

28. 04, 2006

Aðalfundur Eflingar um frjálsa för launafólks eftir 1. maí

Skorar á Alþingi að vanda lagasetningu

Fjölmennur félagsfundur Eflingar-stéttarfélags samþykkti eftirfarandi ályktun 27. maí sl.

Fyrsta maí n.k. verður Ísland opnað fyrir launafólki frá nýjum ríkjum ESB. Frá og með 1. maí er þegnum þessara ríkja heimilt að koma til Íslands án atvinnuleyfa. Ný löggjöf liggur fyrir þinginu sem gengur út frá því að fyrirtæki tilkynni ráðningu á ríkisborgurum þessara ríkja með grunnupplýsingum um launamanninn. Með tilkynningunni skal fylgja ráðningasamningur sem tryggir útlendingnum laun og önnur starfskjör samkvæmt íslenskum lögum og kjarsamningum.
Efling-stéttarfélag hefur gert alvarlegar athugasemdir við áformaða framkvæmd þessa ákvæðis um ráðningarsamninga. Stéttarfélög hafa samkvæmt frumvarpinu ekki gögn lengur um fyrirtækið og ráðningarsamninga og geta því ekki framfylgt lögum og kjarasamningum nema Vinnumálastofnun afhendi gögnin og þá þarf að liggja fyrir grunur um brot á gildandi kjarasamningi. Efling-stéttarfélag telur þetta fyrirkomulag algerlega óásættanlegt og félagið lýsir ábyrgð á hendur stjórnvöldum og atvinnurekendum ef þetta verður niðurstaðan.
Vinnumálastofnun er hvergi í stakk búin til þess að meta hvort ráðningarsamningar fari að kjarsamningum. Hjá Eflingu er löng reynsla og þekking af því að fást við ýmis vandamál sem tengjast atvinnurekendum með erlenda starfsmenn í vinnu. Sú þekking er ekki til til staðar hjá Vinnumálastofnun hvorki á einstökum kjarsamningum né samningsumhverfinu eða atvinnurekendum í einstökum greinum. Vinnumálastofnun vinnur ekki í einstökum kjarasamningum og þekkir ekki til framferðis einstakra atvinnurekenda á sama hátt og stéttarfélagið. 
 Það vekur furðu að það þurfi að liggja fyrir grunur um brot á kjarsamningi til þess að fá ráðningasamninga launafólks afhenta stéttarfélögunum.
 
Því miður hefur ríkistjórnin ekki sett þau lög og reglur sem til þarf varðandi erlend þjónustu- og verktakafyrirtæki sem starfa hér á landi. Enn einu sinni á að leysa málin eftirá í stað þess að ganga frá reglum sem tryggja kjör og réttindi allra launamanna.
 Aðalfundur Eflingar-stéttarfélags mótmælir harðlega því hvernig staðið hefur verið að undirbúningi þessa máls af hálfu stjórnvalda á Íslandi. Fundurinn lýsir miklum vonbrigðum með að eftir óvandaðan undirbúning af hálfu stjórnvalda á nú að keyra þetta stórmál í gegnum þingið á örfáum dögum.  Efling-stéttarfélag hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að stéttarfélögunum sé áfram gert kleyft að fylgjast með beinum hætti með ráðningarkjörum útlendinga hjá fyrirtækjum hér á landi. Nýleg dæmi sýna að til eru atvinnurekendur sem þverbrjóta hér lög og kjarasamninga á vinnumarkaði. Frjálst flæði vinnuafls við þessar aðstæður mun hafa þau áhrif að þrýsta kjörum og réttindum launafólks á vinnumarkaði niður á við.
 
Aðalfundurinn skorar á Alþingi íslendinga að taka sér þann tíma sem þarf til að vanda löggjöf á þessu sviði svo komist verði hjá skaða á vinnumarkaðnum. Einnig skorar aðalfundurinn á þingið að treysta stöðu stéttarfélaganna í lögunum til að koma með beinum hætti að upplýsingum um innflutning launafólks s.s. um ráðningarsamninga allra launamanna sem hingað koma. Einungis með þeim hætti er hægt að tryggja stöðu launafólks og varðveita það launa- og réttindaumhverfi sem við höfum byggt hér upp fyrir allt launafólk.