Aðalfundur Eflingar um launakjör á hjúkrunarheimilum

28. 04, 2006

Aðalfundur Eflingar um launakjör á hjúkrunarheimilum

Skorar á SFH að tryggja launahækkanir

Fjölmennur aðalfundur Eflingar-stéttarfélags samþykkti eftirfarandi ályktun einróma í gærkvöldi 27. apríl.

SFH, samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu hafa lýst því yfir að þau muni hækka laun almennra starfsmanna um 12% eða um fjóra launaflokka þann 1. maí nk.  Þá muni laun hækka í áföngum fyrir 1. janúar 2007 þar til náðst hefur að jafna kjör þeirra sem sinna sambærilegum störfum hjá Reykjavíkurborg.
Það er mikilvægur árangur að eftir margra mánaða þóf um að endurskoða launainnröðun í stofnanasamningi SFH við Eflingu, hafi fulltrúar Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu nú loks fengist til þess að endurskoða laun starfsmanna sinna.  Hins vegar eru það vonbrigði að launa­hækkunum hafi ekki verið fylgt eftir með nýrri innröðun í stofnanasamningi.  Þessi leið gerir það að verkum að mun erfiðara verður fyrir starfmenn að átta sig á hver endanleg launahækkun eigi að vera.  Einnig getur orðið snúið fyrir þá sem hafa hug á að starfa á hjúkrunar- og umönnunarstofnunum að átta sig á væntalegum launakjörum.  Hver eru byrjunarlaunin og hvernig munu launin líta út eftir 1 ár eða 3 ár ?
Efling-stéttarfélag skorar því á samninganefnd SFH að tryggja núverandi og væntanlegum starfsmönnum sínum þær launahækkanir sem þeir hafa nú þegar lofað og hafa þær jafnframt sýnilegar.
Jafnframt skorar aðalfundurinn á SFH að leysa þessa deilu með því að færa frá síðustu launabreytingu 2006 í samræmi við kröfur starfsmanna.