Frumvarp um atvinnuleysistryggingar

25. 04, 2006

Frumvarp um atvinnuleysistryggingar

Tengsl Eflingar við atvinnulaust fólk rofin

Félagsfundur Eflingar haldinn 19. apríl sl. samþykkti samhljóða eftirfarandi ályktun um frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem nú liggur fyrir Alþingi:

Fram er komið á Alþingi frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem munu rjúfa þau tengsl sem verið hafa milli trygginganna og stéttarfélaganna VR og Eflingar í Reykjavík.

            Tvær nefndir hafa um árabil verið starfandi í Reykjavík þar sem úthlutun og afgreiðsla atvinnuleysisbóta fer fram. Samkvæmt frumvarpinu verður ein úthlutunarnefnd yfir allt landið sem ákveður bætur allra atvinnulausra á landinu. Vinnumálastofnun mun samkvæmt frumvarpinu yfirtaka alla framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar.

            Efling-stéttarfélag og VR hafa mótmælt þessum breytingum á lögunum og telja að með þessu móti verði þau beinu tengsl sem félögin hafa átt við atvinnulaust fólk rofin. Jafnframt varar Efling við því að taka upp nýja og fjarlæga tryggingastofnun sem á að afgreiða allar atvinnuleysisbætur á landinu.

            Félagsfundur Eflingar-stéttarfélags haldinn 19. apríl 2006 mótmælir þessum breytingum sem leiða til þess að samskipti stéttarfélaganna við atvinnulausa félagsmenn sína eru rofin.

            Félagsfundurinn skorar á Alþingi að koma í veg fyrir að þessi þáttur frumvarpsins nái fram að ganga.