Hvað gerist ef við göngum allar út?

Álfheiður Bjarnadóttir afhendir Geir H. Haarde, utanríkisráðhrerra og Magnúsi Stefánssyni, formanni fjárlaganefndar, undirskriftalistana í andyri Alþingishúsins.

 

Hvað gerist ef við göngum allar út?

– spyrja starfsmenn í umönnun

Sýnið ábyrgð. Það er gamla fólkið sem um er að ræða. Það á þetta ekki skilið. Hvað gerist ef við göngum allar út? Þetta var kjarninn í orðsendingu sem starfsfólki í umönnunarstörfum á Stór-Reykjavíkursvæðinu afhenti Geir H. Haarde utanríkisráðherra og Magnúsi Stefánssyni, formanni fjárlaganefndar í dag. Það er engan bilbug að finna á starfsmönnum í umönnun, sem hófu setuverkfall í annað sinn á rúmri viku í dag til að krefjast sambærilegra launa og greidd eru hjá Reykjavíkurborg.

Til að leggja enn meiri áherslu á kröfur sínar fór af stað undirskriftasöfnun meðal starfsamanna og afhenti Álfheiður Bjarnadóttir talsmaður hópsins, Geir H. Haarde, utanríkisráðhrerra og Magnúsi Stefánssyni formanni Fjárlaganefndar listana í andyri Alþingishússins eftir hádegi í dag.

Geir sagði að þeir tækju við undirskriftunum og áskoruninni og kæmu þeim til réttra aðila sem myndu skoða málið gaumgæfilega. Aðspurður, hvort að hann mundi styðja áskorunina sem fælist í undirskriftalistunum, svaraði hann á þá leið að hann ætlaði ekki að taka afstöðu til þess hér og nú.

Þegar Álfheiður var spurð hver væru hennar fyrstu viðbrögð eftir að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hefðu tekið við undirskriftalistunum, sagðist hún vera bjartsýn á að ráðamenn tækju sig nú til og gerðu eitthvað í málunum þannig að launahækkunin skilaði sér í launaumslög þeirra sem hlut eiga að máli þann  1. maí nk.

Ef að við verðum ekki búin að fá viðbrögð við þessum aðgerðum í næstu viku ætlum við að hittast aftur fljótlega eftir páska og taka ákvörðun um frekari aðgerðir. Þá er ég hrædd um að hrina uppsagna fari af stað í okkar hópi, sagði Álfheiður að lokum.